Laugardagur 15. október 2005

288. tbl. 9. árg.
Það eru örfá sveitarfélög í landinu með útsvarsálagningu í lágmarki eða 11,24%. Ef fólk flytti búsetu til þessara sveitarfélaga myndi það þýða lægri útsvarsgreiðslur en á móti kemur að það getur ýmislegt annað vegið þar á móti þannig að það er spurning þegar upp er staðið hve hagstætt þetta yrði.
– Gunnlaugur Júlíusson sviðstjóri hag- og upplýsingasviðs Sambands íslenskra sveitarfélaga í Fréttablaðinu 12. október 2005.

Rætt var við Gunnlaug Júlíusson hagfræðing hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga í Markaði Fréttablaðsins á miðvikudaginn. Tilefnið var skýrsla Andríkis um skattheimtu sveitarfélaga og nauðsyn þess að upplýsa launþega betur um hve sveitarfélögin taka stóran hlut af launum manna við hverja útborgun í útsvar. Ríki og sveitarfélög skipta staðgreiðslu af tekjuskatti einstaklinga nær jafnt á milli sín. Sveitarfélög taka meira af launum undir 250 þúsundum en ríkið tekur meira af launum yfir 250 þúsundum. Útsvar milli sveitarfélaga er nokkuð misjafnt eða allt frá lögboðnu lágmarksútsvari 11,24% í fimm litlum hreppum upp í hámarksútsvarið 13,03% í Reykjavík og fleiri sveitarfélögum. Reykvíkingur með 250 þúsund króna mánaðarlaun greiðir því 53.700 krónum meira í útsvar á ári en maður með sömu tekjur í Ásahreppi.

Gunnlaugur benti réttilega á að það er fleira en útsvarið sem greinir sveitarfélögin að. Það er hárrétt og að ýmsu öðru en útsvarinu að hyggja þegar menn velja sér sveitarfélag. Það er líka mjög æskilegt að sveitarfélögin séu ekki öll steypt í sama mót. Þau hafa gott af því að hafa samanburð hvert af öðru. Það er íbúum sveitarfélaganna afar mikilvægt að samkeppni sé á milli þeirra. Þess vegna eru tillögur um að sameina til að mynda öll sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu varhugaverðar. Hvernig væri til að mynda umhorfs á höfuðborgarsvæðinu ef R-listinn hefði stýrt því öllu undanfarin 11 ár? Hvert hefðu menn leitað eftir lóðum ef Kópavogur, Hafnarfjörður, Garðabær og önnur sveitarfélög í næsta nágrenni borgarinnar hefðu lotið stjórn R-listans? Það er afar mikilvægt að menn geti leitað annað ef mönnum líkar ekki þjónustan.

Það dugar nefnilega ekki alltaf að kjósa með höndunum í kjörklefanum á fjögurra ára fresti. Stundum neyðast menn til að taka til fótanna. Sameining allra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu tæki þann kost af mönnum.