U ndanfarið hefur verið endurtekin umræða sem af og til fer í gang um svokallaða spilafíkn. Sagðar eru sögur af og talað við fólk sem tapað hefur miklu fé, jafnvel bróðurparti eigna sinna, í einhverskonar fjárhættuspili. Oftast hefur fólkið farið flatt á spilakössum eins og þeim sem finna má í söluturnum og félagsheimilum, en þeir eru einnig til sem tapað hafa stórfé í símaleikjum eftir að hafa setið heilu næturnar giskandi fyrir framan sjónvarpið, eða hafa óvænt staðið uppi tómhentir eftir einhverja aðra gæfulega iðju þar sem sá stóri var jafnan rétt ókominn. Og eins og svo oft þegar búið er að vara við vandamáli, þá kemur krafan um opinberar aðgerðir. Krafan um bann við fjárhættuspili, eða þá stórfellt eftirlit með spilinu og álímdar viðvaranir um að fólk geti ekki aðeins grætt heldur hugsanlega tapað. Nokkru minna máli er hins vegar varið í kröfuna um að fólk taki ábyrgð á lífi sínu.
Auðvitað mega menn ræða spilafíkn alla daga ef þeir kjósa. En stjórnmálamenn eiga að fremur að auka frelsi fólks til þess að ráða daglegu lífi sínu og taka áhættu með fé sitt. Það brýtur enginn rétt á öðrum þó hann leggi fé undir á móti hæpnum líkum í spilakassa. Ef eigandi kassans kemur hreint fram, segir rétt frá vinningslíkum og svo framvegis, þá brýtur hann heldur engan rétt á fjárráða viðskiptavini sínum.
Vefþjóðviljinn vill ekki að fólki sé bannað að taka þátt í fjárhættuspili. Enda er fólki það almennt heimilt. Það er eingöngu ákveðin tegund þess sem er bönnuð. Fyrir nú utan það augljósa fjárhættuspil eins og lottó og happdrætti Dvalarheimilis aldraðra sjómanna, þá er mannlífið allt fullt af fjárhættuspili. Menn mega meira að segja skuldsetja sig uppfyrir haus til að kaupa hlutabréf í jafnvel áhættusömustu félögum og munu sumir bankar jafnvel krefjast trygginga fyrir slíkum kaupum og það fólk sem ekki stýrir félögunum verður meira að segja oft að ganga að þeim kjörum að félögin sjálf taki ekki áhættuna fyrir það með því að „tryggja endursölu“ bréfanna ef illa fer. En á sama tíma og menn mega eyða rúmlega aleigunni í hlutabréf, þá mega þeir ekki opna lítinn stað sem byði upp á póker. Þeir mega hins vegar fara í Tónabæ, fá sér bingóspjald og bíða í ofvæni eftir því að kynnirinn lesi upp bé tólf.