Miðvikudagur 12. október 2005

285. tbl. 9. árg.

Enn einu sinni kemur Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og reynir að hafa lækkanir á tekjuskatti af almenningi. Oftast hefur henni tekist það en kannski ekki núna. Hún var iðin við það sem borgarstjóri og borgarfulltrúi í Reykjavík að hækka útsvarið. Það þýddi að borgin hrifsaði til sín hluta þeirrar lækkunar sem ríkið gerði á sínum hluta tekjuskattsins.

Í ræðu á fundi Samfylkingarinnar í Reykjavík á laugardaginn sagði Ingibjörg að Samfylkingin „telji rétt að hækka fjármagnstekjuskatt og hætta við að lækka tekjuskatt til að auka afgang á fjárlögum næsta árs“, eins og Morgunblaðið sagði frá tíðindum af fundinum. Það telst raunar vart fréttnæmt lengur að Samfylkingin leggist gegn skattalækkunum en það er forvitnilegt að það er alltaf útfærslan, tímasetningin eða annar tæknilegur fyrirsláttur sem flokkurinn beitir. Þótt Samfylkingin styðji aldrei skattalækkanir vill hún ekki segja það hreint út heldur flækir málin með umræðustjórnmálum um útfærsluatriði.

Og hversu líklegt er það nú að tekjuafgangur aukist við hærri skatta? Fyrir það fyrsta er alls ekki víst að hærri skatthlutföll skili ríkinu hærri tekjum. Háir skattar draga þvert á móti úr framtakssemi manna. Það er jafnframt líklegra að menn reyni að víkja sér undan háum sköttum með einhverjum hætti, löglegum sem ólöglegum. Reynslan af lækkun tekjuskatts á fyrirtæki úr 50%  í 18% á síðasta áratug sýndi að það getur aukið tekjur ríkisins að lækka skatta. Jafnvel þótt það væri rétt, sem formaður Samfylkingarinnar virðist trúa, að aukin skattpíning auki sjálfkrafa tekjur ríkisins þá er ekki þar með sagt að afgangur af rekstri ríkisins aukist. Það er alltaf freistandi að eyða peningum en aldrei eins og þegar peningarnir eru annarra. Þegar fé streymir í ríkissjóð er sjaldan skortur á hugmyndum um í hvað á að eyða því.

Það er heldur ekkert markmið í sjálfu sér að ríkissjóður sé rekinn með miklum afgangi. Það er gott að ríkið safni ekki skuldum en það á heldur ekki að safna í sjóði. Ef menn vilja draga úr þenslunni svonefndu í efnahagslífinu þarf að skera niður rekstur og framkvæmdir á vegum ríkis og sveitarfélaga.