L ýðræðisást Samfylkingarinnar er vel þekkt fyrirbæri. Samfylkingin er til að mynda svo lýðræðisleg fjöldahreyfing að þar kjósa á níunda hundrað manna í varaformannskjöri á fimm hundruð manna fundi, eins og áður hefur verið vikið að. Hvenær sem samfylkingarmenn koma saman eða koma fram tjá þeir lýðræðisást sína af miklum sannfæringarkrafti og þunga. Á landsfundi Samfylkingarinnar síðast liðið vor var eftirfarandi málsgrein til að mynda að finna í stjórnmálaályktun fundarins:
Hreyfing jafnaðarmanna stefnir að því að mynda meirihluta í sveitarstjórnum sem geta axlað aukið hlutverk sveitarfélaga í fjölbreytilegri nærþjónustu, með áherslu á lýðræði og enn frekari möguleika íbúanna til þátttöku og áhrifa. |
Þetta hljómar vafalaust fallega í eyrum margra, en þó er einn galli á lýðræðisást Samfylkingarinnar og hann er sá að hún hefur aldrei sýnt vilja til að framkvæma í samræmi við þau fyrirheit sem gefin hafa verið. Þannig er þessi ályktun til dæmis svipuð þeim áformum um „íbúalýðræði“ sem R-listinn í Reykjavík hefur kynnt um árabil en aldrei hrint í framkvæmd. Það var þess vegna við hæfi að heyra einn af borgarfulltrúum R-listans og þingmann Samfylkingarinnar, Helga Hjörvar, ræða í Silfri Egils í fyrradag um hugsanlegar afleiðingar þess að íbúar fjölmargra sveitarfélaga kusu að ganga gegn hugmyndum sameiningarsinna um síðustu helgi.
Helga var greinilega ekki skemmt yfir því að íbúar hefðu sínar eigin skoðanir á því í hvernig sveitarfélögum þeir vildu búa og að þær skoðanir samræmdust ekki skoðunum hans sjálfs. Hann taldi að ríkið ætti að bjóða enn frekari gulrætur en gert hefði verið til þeirra sem myndu sameinast, og þykir þó ýmsum nóg um. En hann efaðist raunar um að það væri nóg og lýsti þeirri skoðun sinni, að „það sé kannski bara kominn tími á að við gerum þetta með lagasetningu um lágmarksíbúafjölda í sveitarfélagi“.
Já, kannski er bara kominn tími á að leggja lýðræðisástina enn einu sinni til hliðar og setja lög á íbúa landsins og skikka þá til hlýðni. En auðvitað samt „með áherslu á lýðræði og enn frekari möguleika íbúanna til þátttöku og áhrifa“, eins og Samfylkingin samþykkti á landsfundi sínum í vor.