S
Sameiningarmenn voru grillaðir í Grýtubakkahreppi um helgina. Mynd frá Grenivíkurgrilli 2004. |
ameiningarmenn fengu verðskuldaða útreið í kosningum um helgina. Og raunar fengu áhugamenn um beint lýðræði það líka. Hvort tveggja er ánægjulegt. Sameiningartillögur voru felldar, allar nema ein af sextán. Og þátttaka kjósenda var almennt lítil. Niðurstöðurnar eru vitaskuld mikið kjaftshögg á þá í félagsmálaráðuneytinu sem hafa árum saman barist fyrir sameiningu sveitarfélaga og ekki dregið af sér. Vonandi verður hið nýjasta afhroð sameiningarmanna nú til þess að svolítið hlé fáist á þessum tilraunum ráðuneytismanna, þó lítil von sé líklega til þess að sameiningardraugurinn hafi endanlega verið kveðinn niður. Þó núverandi félagsmálaráðherra hafi sennilega lært sína lexíu um helgina þá er gallinn sá að það eru vafalaust embættismenn hans sem í raun standa fyrir sameiningaræðinu og hafa aðeins sannfært hann um að sameining sé framtíðin. Sameiningarátakið lítur út fyrir að vera dæmigert forað sem embættismenn etja ráðherra sínum út á. Þeir mata hann á völdum upplýsingum um hagræði og gagn sem af því megi hafa, kynna hann fyrir völdum sérfræðingum sem taka undir – og gæta þess að hann heyri ekki í þeim sem segðu aðra sögu – og áður en ráðherrann veit af þá er hann kominn á fullt í eitthvert undarlegt stríð, öllum nema embættismönnum til ama. Hvaða félagsmálaráðherra hafði talað fyrir sameiningu áður en hann varð ráðherra? Man nokkur eftir því að Árni Magnússon bæjarfulltrúi í Hveragerði hafi haft áhuga á sameiningu bæjarins við Selfoss? Afsakið, við „Sveitarfélagið Árborg“? En ef bæjarfulltrúinn Árni hafði engan slíkan áhuga, hvernig stendur þá á því að félagsmálaráðherrann Árni ákvað að bíða stórfelldan pólitískan ósigur um allt land núna um helgina?
Því pólitískur ósigur varð þetta hjá Árna, svo mjög hefur hann gert sameiningaróskirnar að sínum. Og það leiðir hugann að einu. Meðal þeirra sveitarfélaga sem greiddu atkvæði um sameiningartillögurnar var Grýtubakkahreppur. Þar greiddu 210 atkvæði. Þau skiptust þannig að 208 sögðu nei en 2 sögðu já. Er það ekki rétt munað að í Grýtubakkahreppi eigi lögheimili Valgerður Sverrisdóttir? Tæplega hefur hún greitt atkvæði gegn Árna og sameiningunni. Hún getur varla hafa óskað Árna slíks pólitísks ósigurs. Hún hefur því væntanlega sagt já. Þá er bara einn sameiningarmaður eftir í öllum hreppnum. Það er voðalega lítill stuðningur.
Og þannig varð niðurstaðan næstum hvar sem borið var niður. Kjósendur vilja ekki þessar sameiningar. Þeir í félagsmálaráðuneytinu, jú og þeir hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, hafa margsagt að sameiningar séu nauðsynlegar svo hægt sé að flytja verkefni til sveitarfélaganna og þau „geti sinnt lögbundinni þjónustu“. En hver segir að fólk vilji að sveitarfélögin sinni sífellt fleiri og stærri verkefnum? Getur ekki bara verið að fólk vilji að sveitarfélögin gæti hófs og færist ekki of mikið í fang? Að minnsta kosti þá er fyrir löngu orðið tímabært að teknókratar átti sig á því að fólk vill ekki þessar sameiningar sem embættismenn eru sífellt að reyna að sanna fyrir ráðherrum og öðrum að séu framtíðin. Það er kominn tími til þess að sameiningaráform verði lögð til hliðar og hreinlega snúið við. Á undanförnum árum hefur sveitafólk verið hrakið í sameiningar, ýmist með hótunum eða gylliboðum, en embættismenn hafa ekki farið leynt með þau áform að þeir, sem ekki spili með og sameinist „í frjálsum kosningum“, verði þá neyddir til þeirrar sameiningar sem embættismönnunum hentar. Nú hefur sameiningarmönnum hins vegar verið greitt slíkt högg að þeir þurfa tíma til að ná vopnum sínum á ný. Nú er því að grípa tækifærið áður en það verður of seint og næsta hrina hefst, snúa af sameiningarbrautinni og heimila því fólki sem varð undir sameiningarhraðlest síðasta áratugar að fá sveitarfélögin sín aftur, ef það kýs svo.