Fyrir síðustu þingkosningar lögðu vinstrigrænir mikið upp úr því að vera ekki einn af „foringja- eða persónudýrkunarflokkunum“. Vinstrigrænir sögðust fyrst og síðast leggja áherslu á málefnin en alls ekki auglýsingaskrum, umbúðir og leiðtogadýrkun. Til að efla samstöðuna um þessa stefnu gripu forsvarsmenn vinstrigrænna til þess ráðs að hanna sérstök nærhöld með mynd af Steingrími J. Sigfússyni formanni. Þannig gátu þeir félagsmenn vinstrigrænna sem vildu endilega dýrka formann sinn gert það allan daginn án þess að aðrir yrðu þess varir. Nærhöldin seldust mjög vel á kosningaskrifstofum vinstrigrænna og greinilegt að ýmsir harðir hugsjónamenn í röðum vinstrigrænna vildu hafa foringjann næst sér – á meðan þeir lögðu að sjálfsögðu mesta áherslu á málefnastöðuna. Þetta var mjög snjallt. Allt þar til einn frambjóðandi flokksins, Hlynur Hallsson, mætti í kosningasjónvarpið íklæddur umræddum nærbol og fáu öðru. Eins og aðrir frambjóðendur flokksins fór hann með þuluna um áherslu vinstrigrænna á málefnin frekar en persónudýrkun, skartandi stórri mynd af formanni sínum á bringunni. Þá varð mönnum hugsað til ævintýrisins um nýju fötin keisarans.
Nú hefur Hlynur, sem er orðinn varaþingmaður, ákveðið að helsta framlag hans til stjórnmálaumræðunnar verði áfram tauið sem hann klæðist eða öllu heldur klæðist ekki. Þegar Halldór Ásgrímsson flutti stefnuræðu ríkisstjórnar sinnar á Alþingi í vikunni ákvað Hlynur að vekja sérstaka athygli á sér með því að vera öðruvísi en aðrir karlkyns þingmenn í klæðaburði og öðruvísi en hefð er fyrir. Hann gætti sín jafnframt á því að segja ekkert annað en búast mátti við af stjórnarandstæðingi. Þannig tryggði hann að málefnin fengju ekki óþarfa athygli á kostnað haustlínunnar frá VG fashions. Þetta heppnaðist fullkomlega því enginn man eftir eða hefur sýnt áhuga á því sem Hlynur sagði í ræðu sinni en hvert viðtalið rekur nú annað þar sem hann gerir grein fyrir því hvað honum þyki þessi fatasmekkur sinn þægilegur og smekklegur að öllu leyti.
Nú sem fyrr standa stuðningsmenn Andríkis undir öllum kostnaði við útgáfu Vefþjóðviljans og kynningu á henni með frjálsum framlögum sínum. Það er mjög einfalt að slást í þann góða hóp með því að smella hér.