Laugardagur 8. október 2005

281. tbl. 9. árg.

Fyrir átta árum stóð til að byggja glæsilegt tónlistarhús í Reykjavík. Um þær mundir var einkum horft til lóðar í Laugardal undir húsið. Vefþjóðviljanum ofbauð kostnaðurinn sem leggja átti á skattgreiðendur vegna þessa; 1.550 milljónir króna. Og hann var ekki einn um það á þeim árum. Þótt félag um byggingu tónlistarhúss hefði starfað lengi í Reykjavík og margir stjórnmálamenn legðu málinu lið hafði það ekki verið reist vegna hins mikla kostnaðar.

Sem kunnugt er varð Laugardalurinn hins vegar ekki fyrir valinu heldur hafnarsvæðið þar sem ryðja þarf húsum um koll til að koma tónlistarhúsinu fyrir og grafa göng undir umferðaræðar. Á þessari leið úr  Laugardalnum niður á höfn hefur kostnaður við húsið nær áttfaldast og þar af virðist kostnaður sem lendir á skattgreiðendum hafa sexfaldast. Einhver mundi kannski segja að hagsmunum skattgreiðenda hefði verið kastað í höfnina.

Þegar kostnaðaráætlun margfaldast með þessum hætti á nokkrum árum hlýtur nýja áætlunin að gera ráð fyrir að tónlistarhúsið verði óaðfinnanlegt og þar verði hægt að halda hvers kyns tónleika. Það bara hlýtur að vera. Ef að húsið sem átti að rísa í Laugardalnum þótti fullgott fyrir átta árum þá er annað útilokað en að áttfalt dýrara hús mæti öllum þörfum. Þess vegna var sláandi að lesa grein í Morgunblaðinu 2. október síðastliðinn eftir Pétur Jónasson gítarleikara og framkvæmdastjóra Skólatónleika á Íslandi og Tónlistar fyrir alla. Í greininni segir Pétur meðal annars:

Það virðist þess vegna stefna í, þrátt fyrir tilkomu stórglæsilegs tónlistarhúss, að allt að 90% af öllum tónleikum höfuðborgarsvæðisins muni áfram verða haldin í kirkjum, myndlistarsölum, anddyrum stofnana og fundarherbergjum borgarinnar við jafnóviðunandi aðstæður og verið hefur til þessa.

Þetta er sérlega áhugavert í því ljósi að áður hafði það verið lagt til grundvallar nýtingar- og hagkvæmnismati fyrir tónlistarhúsið að gestir í tónlistarhúsi yrðu jafnmargir og allir gestir á tónleikum í landinu voru um þær mundir. Það þótti nokkuð vel í lagt, jafnvel þótt verkefnisstjóri matsins væri – svo ævintýralegt sem það kann að hljóma – jafnframt formaður Samtaka um byggingu tónlistarhúss. Nú er því hins vegar haldið fram af tónlistarmönnum að innan við 10% tónleika á höfuðborgarsvæðinu verði haldin í hinu nýja tónlistarhúsi.