Fimmtudagur 6. október 2005

279. tbl. 9. árg.

Síungi framsóknarmaðurinn, Birkir Jón Jónsson þingmaður úr Norðausturkjördæmi, tjáði sig af miklum þunga um íslenskan skipasmíðaiðnað í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins á sunnudag. Þar kom fram að Birkir Jón vill auka stuðning ríkisins við skipasmíðaiðnaðinn „því að við verðum að svara þeirri spurningu hvort að við sem þjóð ætlum að starfrækja skipasmíðaiðnað hér í landinu eða ekki.“ Er það virkilega svo? Þurfum við „sem þjóð“ að svara spurningu um það hvort hér verði starfræktur skipasmíðaiðnaður? Hvernig má það vera að „þjóðin“ þurfi að svara þeirri spurningu? Og ef svo er, þarf hún þá ekki líka að svara því hvort að hér á að reka bílaverksmiðjur eða flugvélaverksmiðjur? Eða getur gengið að Íslendingar aki allir um á erlendum bílum en láti nægja að breyta bílum og viðhalda þeim innanlands?

Vitaskuld er það fjarstæðukennd kenning hjá Birki Jóni að það eigi að vera einhver ákvörðun „þjóðarinnar“ hvort að hér verði reknar skipasmíðastöðvar. Ákvörðunina um það á að taka með sama hætti og aðrar ákvarðanir um rekstur fyrirtækja hér á landi. Ef einhver vill reka skipasmíðastöð og hann getur það, þá væntanlega vegna þess að hún skilar hagnaði, þá á að reka slíkt fyrirtæki hér á landi. Sé ekki hægt að reka þessi fyrirtæki með hagnaði hér á landi fer miklu betur á því að kröftunum sé beint að öðrum og hagkvæmari hlutum. Ef farið væri að ráðum hins unga þingmanns yrðu afleiðingarnar aðeins þær að gera almenning í landinu fátækari til að þjóna annarlegum hagsmunum. Í þessu sambandi dettur þó engum í hug að það spili inn í að Birkir Jón er þingmaður Norðausturkjördæmis og að skipasmíðastöðin sem nú á í vandræðum er einmitt í því kjördæmi.

En það eru fleiri hliðar á þessu máli eins og fram kom í morgunútvarpi Ríkisútvarpsins í fyrradag. Þar var rætt við forsvarsmenn Vélsmiðju Orms og Víglundar í Hafnarfirði, Eirík Orm Víglundsson og Guðmund Víglundsson. Þeir hafa mjög eindregnar skoðanir á þessum málum, en þær eru býsna ólíkar skoðunum þingmannsins úr Norðausturkjördæmi. Þeir segja að það sé einfaldlega ekki hægt að keppa við Kóreu og Kína um nýsmíði, en þeir eru samt ekki með neinn uppgjafartón enda eru fleiri verkefni í skipasmíðum en nýsmíði. Þá benti Eiríkur Ormur á að skipaflotinn hefði nánast minnkað um helming á síðustu fjórum til fimm árum en viðhaldsfyrirtækjunum hefði ekkert fækkað. Þau væru því einfaldlega orðin of mörg. Fækkun fyrirtækjanna hljómar með öðrum orðum eins og nauðsynleg og skynsamleg hagræðing.

Það athyglisverðasta í samtali Sveins Helgasonar útvarpsmanns á Ríkisútvarpinu við forsvarsmenn vélsmiðjunnar í Hafnarfirði kom þó fram þegar hann spurði beint að því hvort að þeir vildu að stjórnvöld gerðu eitthvað í þessum málum. „Horfið þið að einhverju leyti til þeirra?“ spurði Sveinn.

Guðmundur svaraði því til að þeirra skoðun sé sú „að stjórnvöld eiga ekki að skipta sér af þessari atvinnugrein frekar en öðrum og við teljum að umhverfið geti kannski lagast að einhverju leyti en það verður ekki með aðgerðum stjórnvalda.“

Útvarpsmaðurinn spurði þá áfram: „Þið viljið einfaldlega bjarga ykkur sjálfir og að menn reki þetta almennilega?“

Guðmundur: „Ja það er eina leiðin til þess að þetta sé heiðarleg samkeppni, það er með því að það sé ekki verið að koma með peninga frá ríki og bæjarfélögum inn í þetta.“

Þeir sem hafa staðið vel að rekstri fyrirtækja sinna vilja vitaskuld fá að reka þau áfram í friði fyrir ríki og sveitarfélögum. Þeim stafar hins vegar ógn af mönnum á borð við þingmanninn unga úr Norðausturkjördæmi, sem sér ekkert að því að grípa inn í starfsemi atvinnulífsins og ráðskast með það hverjum gengur vel og hverjir leggja upp laupana.