Nýlega var haldinn fundur á vegum alþjóðlegra samtaka ríkisrekinna áfengisverslana. Eitt aðalumræðuefnið snéri að þeim hættum sem stafa af of greiðu aðgengi að áfengi og lágu fundarmenn ekki á skoðunum sínum.
Þannig hóf fulltrúi áfengis- og tóbaksverslunar Póllands mál sitt á því að leggja til að taka eitt hjólið undan innkaupakerrunum, til að gera þær erfiðari notkunar. Gæðastjóra á starfsþróunarsviði áfengis- og tóbaksverslunar Ítalíu fannst nær að setja litlar hraðahindranir inn í búðirnar. Sendinefnd áfengis- og tóbaksverslunar Bretlands taldi þetta reyndar ekki vera til hagsbóta. Bæði notuðu flestir innkaupakörfur en ekki kerrurnar og það myndi bara skemma gólfin að taka eitt hjólið undan kerrunum. Hins vegar væri hægt að gera handfangið á körfunum þannig úr garði, að óþægilegt væri að halda gripi á því, til dæmis með því að fjarlægja plastið af því og skera svo oddhvassar brúnir í málminn. Þannig væru menn ekki að raða of miklum þyngslum í körfurnar.
Mannauðsstjóri áfengis- og tóbaksverslunar Frakklands spurði þá kollega sína frá Bretlandi hvort hanskar væru nokkuð óþekkt fyrirbæri þar í landi. Þó ekki væri nema vegna þess að margir grípa með sér eina flösku eða kippu, sem er vel hægt án þess að nota körfuna. Einnig mætti fara í kringum þetta með því að setja á sig hanska – eða einfaldlega ýta körfunni á undan sér með fótunum. Tillaga framkvæmdastjóra á framkvæmdasviði áfengis- og tóbaksverslunar Frakklands gekk hins vegar út á að hætta merkja vínbúðirnar sem slíkar. Með þeim hætti ætti fólk erfitt með að finna útsölustaðina.
„Á þetta fólk ekki við næg vandamál að stríða svo ekki sé því bætt við að keyra verðið upp með geggjuðum álagningum? Má ekki vera alveg ljóst, að fólk með virka áfengisfíkn verður sér út um áfengi við hvaða aðstæður sem er – jafnvel þótt algert áfengisbann ríkti?“ |
Gæðatengill á verkefnastjórnunarsviði áfengis- og tóbaksverslunar Spánar var ekki par hrifinn af þessari hugmynd. Sagði hann að eftir að búðin væri einu sinni fundin væri hún á allra vitorði. Hins vegar mætti gera fólki erfitt fyrir með því að taka merkimiðana af flöskunum, og hugsanlega verðmiðana líka. Þessu mótmælti almannatengslastjóri áfengis- og tóbaksverslunar Írlands. Rannsóknir á hans vegum sýndu að flestum væri nokk sama hvaða vín þeir drykkju og í þeim tilvikum sem svo er ekki, þá ætti fólk auðvelt með að þekkja sitt uppáhaldsvín á útliti flöskunnar eingöngu, en það er mismunandi eins og gengur og gerist. Hátt vínverð virtist svo engan fælingarmátt hafa. Betra væri að skylda kaupendur til þess að setja á sig boxhanska áður en þeim er hleypt inn í búðina. Það myndi gera þeim erfitt fyrir með að handleika flöskurnar og fældi eflaust marga frá því að kaupa mikið í einu.
Fulltrúa áfengis- og tóbaksverslunar Austurríkis þóttist viss um að þetta myndi eingöngu þýða, að starfsfólkið gerði lítið annað en að hreinsa glerbrot og vínsull af gólfinu allan daginn. Það væri án efa áhrifameira að hafa alltaf ískalt inn í búðunum. Þetta greip fulltrúi áfengis- og tóbaksverslunar Bandaríkjanna á lofti en vildi bæta um betur og hafa búðirnar frekar funheitar – vín skemmdist líka hraðar í hita en kulda. Kollegi hans, frá áfengis- og tóbaksverslunar Kanada vildi einnig betrumbæta þetta með því að leggja til að búðirnar yrðu alltaf mjög illa lyktandi. Fulltrúi áfengis- og tóbaksverslunar Indlands bætti sömuleiðis við, að slæm lýsing myndi auka heildaráhrifin hér.
Fulltrúi lykilstarfsmanna áfengis- og tóbaksverslunar Hollands mótmælti þessum tillögum og benti góðfúslega á, að þær kæmu helst til mikið niður á starfsfólkinu. Þess í stað fannst honum koma til greina að selja aðgangsmiða inn í búðirnar, svo fólk væri ekki að slæðast þangað inn að ástæðulausu. Fulltrúi áfengis- og tóbaksverslunar Noregs mælti síðastur og stakk upp á að vínbúðir – í hverju landi fyrir sig – tækju eingöngu við greiðslu í gjaldmiðli sem væri ekki alltof algengur í viðkomandi landi. Þannig gætu norsku búðirnar selt sitt vín eingöngu gegn greiðslu í indverskum rúpíum og búðirnar í Kanada tækju bara við kínverskum yuan sem greiðslu. Að þessu var gerður góður rómur.
Ofanritað átti sér auðvitað aldrei stað og er bull frá upphafi til enda. Til allrar lukku fyrir flestar vestrænar þjóðir og fleiri til þurfa þær ekki að búa við þau undarlegheit sem ÁTVR er hérlendis, né heldur þessa absúrd umræðu um „of greiðan aðgang að áfengi. Það er venjulegasti hlutur í heimi að kaupa sér vín í matvöruverslunum erlendis – og það fyrir mun minni fjárhæðir en við Íslendingar þekkjum.
Gallar þessa fyrirkomulags á Íslandi eru margir. Þó er að minnsta kosti eitt sjónarmið í þessari umræðu sem fær ekki mikla athygli. Það vita allir að til er ákveðinn hópur fólks, sem ekki ræður við áfengisneyslu sína. Þetta er ekkert séríslenskt, svona er þetta um heim allan og það væru draumórar einir að halda að það sé mögulegt að fá alla, sem svona er komið fyrir, til þess að hætta að drekka, því miður. Þó virðist það sem svo að þessi hópur sé notaður sem ein helsta réttlætingin fyrir því að takmarka aðgengi á áfengi með einkaleyfi á vínbúðarekstri og afar háum áfengisgjöldum. En má ekki líta svo á, að með því sé verið að níðast alveg sérstaklega á þessum hópi með þessum aðgerðum? Á þetta fólk ekki við næg vandamál að stríða svo ekki sé því bætt við að keyra verðið upp með geggjuðum álagningum? Má ekki vera alveg ljóst, að fólk með virka áfengisfíkn verður sér út um áfengi við hvaða aðstæður sem er – jafnvel þótt algert áfengisbann ríkti? Og orkar það ekki tvímælis að rukka þennan hóp, sem er ef til vill ekki sá efnaðasti, um háar fjárhæðir fyrir sopann? Í ljósi þess að ekki er hægt að auka áfengisneysluna endalaust, væri ekki betra fyrir þetta ógæfufólk að eiga hugsanlega eitthvað smávegis aukreitis fyrir aðrar lífsnauðsynjar? Það verður a.m.k. að teljast langsótt, að telja það æskilegt að setja á okurálagningu á vöru, sem ákveðinn hópur fólks, sumpart með mjög þröngan fjárhag, telur sig ekki geta verið án.
Það má einnig segja að það komi spánskt fyrir sjónir að yfirvöld, sem bera ábyrgð á þessu fráleita verðlagi áfengis, séu þar með að gera ýmis ólögleg fíkniefni fyllilega samkeppnishæf við áfengi í verði – jafnvel mun ódýrari. Nú er raunar ekki beint orsakasamhengi þarna á milli; fíkniefnaneysla er ekkert óalgengari í þeim löndum sem vín er ódýrt en tæpast hjálpar það til að hafa áfengið jafn dýrt og raunin er hérlendis.
Það er þó sem fyrr einfaldur samanburður á Íslandi og öðrum vestrænum ríkjum sem sýnir best hvers kyns nátttröll ÁTVR er orðið. Greiður aðgangur að ódýru víni er ekki að lama önnur þjóðfélög. Þau eru ekki að riða til falls sökum þess að þar fæst vín í matvöruverslunum, né heldur eru þau á barmi borgarastríðs af sömu orsökum. Áfengisvandi þeirra er þó, í það heila tekið, hvorki betri né verri en það sem við stríðum við hér heima. Tilgangur ÁTVR er því enginn, nema helst að koma í veg fyrir að venjulegt fólk vogi sér að dreypa á víni með matnum endrum og eins. Aumara hlutskipti er vandfundið.
Þau orð urðu fleyg á dögunum, að endalok ákveðins fyrirbæris hefði verið góður endir á vondum ferli. Mikið væri gaman að geta sagt eitthvað álíka um ÁTVR fyrr en seinna.