Ífréttum Stöðvar 2 var um miðja vikuna fjallað um rusl og má segja að það hafi verið við hæfi. Fréttamanninum fannst mikið rusl koma frá borgarbúum og sýndi í því sambandi mynd af dálitlum ruslahaugi sem átti að sýna það rusl sem meðalmaðurinn léti frá sér á hverju ári. Eitt virtist þó vanta í ruslahauginn, en það er dagblað frá sama fyrirtæki og sendi út fréttina, en fyrirtækið er sem kunnugt er afkastamesti dreifari svonefnds „ruslpósts“ á landinu. Athygli vekur raunar að í þeirri seríu af fréttum um ýmsar hliðar á neyslu og rusli sem Stöð 2 sendi út í vikunni var ekki eins og jafnan áður í slíkum fréttum minnst á ruslpóstinn svonefnda sem óumbeðið hrúgast upp hjá landsmönnum dag hvern.
Í þessari sömu frétt var fjallað um bíla, en fréttamaðurinn, Sölvi Tryggvason, sagði að yfirvöld í borginni hefðu líka áhyggjur „af stóru bílunum, sem menga jú mest.“ Þeir sem heima sátu hugsuðu sennilega með sér að nú væri að vænta stefnubreytingar hjá R-listanum og að hann hefði loksins viðurkennt að rekstur strætisvagnanna hefur í för með sér meiri útblástur en frá einkabílnum. En svo var aldeilis ekki, því að R-listinn reyndist ekki hafa áhyggjur af risastóru gulu bílunum sem aka meira og minna tómir um götur borgarinnar á kostnað útsvarsgreiðenda.
Þess í stað kom fram í máli Árna Þórs Sigurðssonar borgarfulltrúa R-listans og frambjóðanda í prófkjöri VG, að auðvitað þyrfti að horfa á þetta í heildarsamhengi og að borgin þyrfti að hans dómi að eiga viðræður við ríkið um það hvernig gjaldtöku af þessum bílum væri háttað, „vegna þess að borgin og þar með útsvarsgreiðendur í Reykjavík eru að verða fyrir heilmiklum útgjöldum vegna þeirra áhrifa sem að þessi bílaþróun hefur.“ Allt í einu voru útsvarsgreiðendur sem sagt farnir að skipta máli fyrir R-listann og til að gæta að hagsmunum þeirra þarf að ræða við ríkið um gjöld sem lögð eru á bíla. Nú gott og vel, borgin vill þá líklega ræða við ríkið um að létta gjöldum af bílum til að draga úr áhrifum sífelldra útsvarshækkana, hafa ýmsir hugsað.
Sölvi fréttamaður dró allt aðra ályktun og spurði umsvifalaust hvort það þyrfti að „hækka tolla á þessa bíla?“ Og þá kom auðvitað í ljós að þetta var það sem Árni Þór var að hugsa, enda eðlilegt að í stórhuga mönnum bærist svipaðar hugsanir. Árni Þór telur sem sagt að útsvarsgreiðendur í Reykjavík þurfi helst á því að halda að tollar á bíla, að minnsta kosti suma bíla, verði hækkaðir. Það kæmi sér ekki betur fyrir útsvarsgreiðendur ef að R-listinn afturkallaði einhverjar af útsvarshækkunum liðinna ára, nei, það er best fyrir útsvarsgreiðendur í Reykjavík ef tollar eru hækkaðir.