Föstudagur 30. september 2005

273. tbl. 9. árg.
Vitundarvakningin hefst með víðtækri auglýsingaherferð í sjónvarpi, útvarpi, blöðum og á útiskiltum. Markmiðið er að ná athygli, vekja áhuga borgarbúa á valkostum í umhverfismálum.
– Af vef Reykjavíkurborgar, reykjavik.is

Nú er farið í gang enn eitt átaksverkefnið fjármagnað með skyldugreiðslum almennings. Vefþjóðviljinn sagði á dögunum frá átaki sem Verzlunarmannafélag Reykjavíkur er með til að farga félagsgjöldum félagsmanna sinna. Þar er því er ranglega haldið fram að karlar séu með „yfir 20% hærri laun fyrir nákvæmlega sömu störf“. Þessi fullyrðing stenst jafnvel ekki nýja launakönnun sem VR sjálft lét gera svo ekki virðist um annað en vísvitandi rangfærslur að ræða.

En nú er það Reykjavíkurborg sem er með átak, nánar tiltekið „vitundarvakningu“. Borgarstjórn Reykjavíkur er um þessar mundir í fyrsta sinn í sögunni með útsvarið í toppi og telur sig því hafa efni á að kasta peningum skattgreiðenda út um gluggann með auglýsingaherferð sem á fyrst og fremst að „ná athygli“. Nú orðið er athygli reyndar orðin helsti mælikvarðinn á árangur auglýsingaherferða á kostnað almennings, hvort sem það eru útsvarsgreiðendur eða nauðugir félagar í stéttarfélögum. Sjálft innihald herferðanna skiptir litlu máli og þar er bara einhverju nógu grípandi og helst sláandi slengt fram til að ná blessaðri athyglinni. Þá þurfa oft einfaldar staðreyndir að víkja fyrir krassandi vitleysum, svo menn nái athyglinni.

Í vitundarvakningarherferð Reykjavíkurborgar er því haldið fram að loftgæði í Reykjavík eigi undir högg að sækja vegna útblásturs úr púströrum bifreiða og því oftar og meira sem menn drepa á bílum sínum því minni verði mengunin. Þar með er gefið í skyn að með því að drepa á bíl þegar hlaupið er inn með barn á leikskóla eða við önnur slík tækifæri megi bæta gæði andrúmsloftsins í borginni. Líklega er dæmið af leikskólanum þó frekar óheppilegt því þegar menn sitja börnin sín af við leikskóla eru bílar oft enn kaldir enda leikskólar oft í næsta nágrenni við heimili manna. Við óþarfar kaldræsingar fer eldsneyti til spillis og bruni er ófullkominn sem veldur auknum útblæstri óæskilegra efna.

Það sem er þó helsta áhyggjuefnið varðandi loftgæði í Reykjavík er ekki það sem kemur úr púströrum bifreiða heldur svifrykið.Vefþjóðviljinn hefur áður sagt frá greiningum sem gerðar hafa verið á uppruna svifryksins. Í þeim kom í ljós að það eru göturnar sjálfar en ekki púströr bílanna sem eru helsta uppspretta svifryksins. Samkvæmt mælingunum er 55% ryksins uppspænt malbik,  jarðvegur og selta eiga sök á 36% en aðeins 7% eru sót úr púströrum bifreiða.

Ef menn vilja bæta loftgæði í Reykjavík þurfa menn því fyrst og fremst að snúa sér að viðhaldi og hreinsun gatna. Það þarf að koma í veg fyrir að ryk sitji á götunum og þyrlist upp aftur og aftur. Allir sem fara um götur borgarinnar vita að út í kanti safnast mikið ryk undan almennri umferð sem þyrlast svo upp þegar stærri bílar eins og strætó fara hjá. Reykjavíkurborg á göturnar sem eru uppspretta meirihluta þess svifryks sem mælist borginni. Ætli einhver annar kæmist upp með að eiga svo stóran þátt í draga úr loftgæðum í borginni? Ætli  Og ætli hann kæmist upp með að efna til auglýsingaherferðar til að vanda um fyrir öðrum á meðan hann er sjálfur væri í þessari stöðu?