Fimmtudagur 29. september 2005

272. tbl. 9. árg.

Ýmsir spekingar hafa að undanförnu varað ríkið við að lækka skatta á almenning um næstu áramót því „þenslan í efnahagslífinu“ sé svo mikil. Hafa þeir sérstaklega beint spjótum sínum að því að tekjuskattur einstaklinga á að lækka um 1% um áramótin. Já, það verður víst ekki varað nógsamlega við því að launþegar fái kannski eittþúsund krónum meira upp úr launaumslaginu þegar skatturinn hefur tekið sitt.

En hvað verður þá um fjármunina ef ríki og sveitarfélög hirða þá upp úr launaumslaginu? Eru þeir bara settir í sparigrís og passað vandlega upp á að þeir valdi nú engri þenslu? Lenda þeir bara í ríkiskassanum og borgarsjóði þar sem enginn fær að snerta þá?

Það er ekki alveg þannig. Skattar eru aðallega innheimtir svo hægt sé að eyða þeim.

Eins og sjá má á grafinu hér til hefur ekki staðið á því að eyða þeim sköttum sem ríkið hefur innheimt á undanförnum árum. Ríkisútgjöldin hafi aukist um 110 þúsund milljónir króna – 110.000.000.000 – frá árinu 1998. Að vísu hefur ríkið sér það til „málsbóta“ að hver króna er ekki jafnmikils virði nú og árið 1998. Væri verðlag fast mætti halda því fram að útgjaldaukningin væri öllu minni. Hins vegar má allt eins líta á þessa verðrýrnun krónunnar – verðbólguna svonefndu – sem sérstakan skatt sem flest ríki heims innheimti af þeim sem eru svo einfaldir að geyma peningana sína sem slíka. Þar með er það ríkinu síst til málsbóta að taka breytingar á verðlagi með í reikninginn.

Á næstu misserum ætlar hið opinbera, ríki og sveitarfélög, svo að ráðast í nokkrar framkvæmdir og viðburði sem eru eins og hella olíu á eldinn, að minnsta kosti svona út frá þessu þenslusjónarmiði sem mörgum þykir mikilvægt. Til að mynda verða grafin göng um Héðinsfjörð og tónlistar- og ráðstefnuhús byggt. Engir þeir sem hafa reynt að bregða fæti fyrir örlitlar skattalækkanir til einstaklinga hafa sagt bofs við því.