Miðvikudagur 28. september 2005

271. tbl. 9. árg.

Þegar ráðið er í laus störf hjá ríkinu eru sumir fjölmiðlar gjarnan áhugasamir um ráðningarferlið og það hvort að hæfasti maðurinn hafi endilega verið ráðinn. Oft er ýjað sterklega að því að ráðning hafi verið „pólitísk“, en með því er yfirleitt átt við að sá sem ráðinn hafi verið hafi ekki verið hæfasti umsækjandinn. Fjölmiðlamönnum þykir jafnan sérlega tortryggilegt ef ráðið er „án auglýsingar“, því að þá virðist þeim oft þykja ljóst að illa hafi verið staðið að ráðningunni og að hún sé í raun pólitískur bitlingur. Þá er ráðningin talin „ófagleg“.

Í gær tilkynntu Faxaflóahafnir sf., sem eru að langstærstum hluta í eigu Reykjavíkurborgar og Akranesskaupstaðar, að nýr hafnarstjóri hefði verið ráðinn til fyrirtækisins. Nú veit Vefþjóðviljinn ekkert um það hvort að vel tókst til um ráðninguna, en hann leyfir sér að fullyrða að einhvern tímann hefði fjölmiðlum þótt bitastætt að geta velt sér upp úr því að ráðið var í starfið án þess að staðan væri auglýst laus til umsóknar. Þá er líklegt að sumum fjölmiðlamönnum hefði undir öðrum kringumstæðum þótt áhugavert að sá sem ráðinn er í starfið er bæjarstjóri annars stærsta eigandans, nefnilega Akraness. Þetta hefði líklega þótt athyglisvert ef aðrir flokkar en þeir sem stjórna í Reykjavík og á Akranesi hefðu staðið fyrir þessari ráðningu, en í báðum þessum sveitarfélögum eru vinstri flokkar í meirihlutasamstarfi og skipa því meirihluta stjórnar Faxaflóahafna.

Vefþjóðviljinn leyfir sér að fullyrða að ef vinstri menn hefðu ekki staðið að ráðningu í þetta starf, sem hlýtur að teljast með bestu störfum sem í boði eru hjá hinu opinbera, hefðu einhverjir fjölmiðlamenn séð ástæðu til að velta sér upp úr ráðningunni.

En fyrst vikið er að fyrirtækinu Faxaflóahöfnum sf. er rétt að minna á að nú, þegar hafnir Reykjavíkur, Akraness, Borgarness og Grundartanga hafa sameinast og um þær hefur verið stofnað sérstakt fyrirtæki, er gott tækifæri til að selja hafnirnar. Reykjavíkurborg, sem á 75% í fyrirtækinu, myndi ekki veita af að létta á skuldum sínum, en R-listinn hefur sem kunnugt er margfaldað skuldir borgarinnar á sama tíma og ríkið hefur losað sig við sínar skuldir. Rekstur hafna er ekkert annars eðlis en annar rekstur og engin ástæða er til að hið opinbera reki hafnir frekar en matvöruverslanir, flugfélög eða hótel.