Þriðjudagur 27. september 2005

270. tbl. 9. árg.

Það er ekki hlaupið að því að gera 14 ára ráðherratíð Davíðs Oddssonar sæmileg skil í stuttum pistli nú þegar hann gengur úr ríkisstjórn. Breytingarnar á þjóðlífinu hafa að sönnu verið miklar á þessum 14 árum og líklega meiri en á nokkru öðru jafnlöngu tímabili lýðveldissögunnar. Áhrifin af þeim eru þó fjarri því að vera öll komin fram. Þau  munu halda áfram að skila sér á næstu árum verði ekki alger viðsnúningur í landsstjórninni. Ýmsum kann að þykja þessi tími hafa verið langur og lengri en dagatalið segir til um en það skýrist ef til vill af því að það var svo ótal margt að gerast og gerjast. 

Þegar fjallað er um ráðherratíð Davíðs fer því kannski betur á því að taka eitt lítið, en mjög lýsandi, dæmi um þá almennu breytingu sem varð í ráðherratíð hans fremur en reyna að stikla á stóru. Og kannski er ekki úr vegi að taka dæmi sem ekki hefur farið hátt.

Þegar Davíð varð forsætisráðherra vorið 1991 hafði vinstristjórnin hækkað eignaskatta í allt að 2,95%. Þá var það viðhorf ríkjandi að „stóreignamenn“ ættu að ekki annað skilið en að eignir þeirra væru gerðar upptækar á einum mannsaldri. Slíkir menn máttu sömuleiðis ekki hrökkva upp af því þá var tekinn allt að 45% erfðafjárskattur af því sem ríkið hafði ekki þegar hirt af þeim. Engum datt í hug á þessum árum að eignarskattur yrði afnuminn og erfðafjárskattur lækkaður niður í 5%. Það hefði þótt fjarstæðukennt að nefna þá hugmynd árið 1991. Þótt menn áhugasamir um að losna við eignaskattinn hafi sjálfsagt alltaf verið til í Sjálfstæðisflokknum var enginn áhugi á því í öðrum flokkum.

Lækkun á tekjuskatti fyrirtækja um miðjan síðasta áratug opnaði hins vegar augu manna fyrir því að háir skattar skila ríkinu ekki nauðsynlega meiri tekjum en lágir. Menn áttuðu sig einnig á að skattar á „lúxus“ eins og þann að eiga skuldlaust þak yfir höfuðið bitnuðu ekki endilega á stóreignamönnum heldur fólki með lágar tekjur sem hafði unnið hörðum höndum að því að eignast húsnæði. Smám saman skildist mönnum þetta. Árið 2002 lækkaði eignarskatturinn úr 1,2% í 0,6% og árið 2004 var síðasta árið sem skatturinn var lagður á.

Þegar aldur og tekjur þeirra sem greiddu eignaskattinn árið 2003 er skoðaður kemur í ljós að 44% þeirra voru eldri en 60 ára. Þar af voru 24% 70 ára og eldri. Af þessum stóra hópi aldraðra, sem greiddi eignaskattinn, var meirihluti með tekjur undir 1,5 milljónum króna á ári. Það þarf ekki að fjölyrða hvað það þýðir fyrir þennan hóp að þurfa framvegis ekki að greiða eignaskattinn. Eignaskatturinn var því sama marki brenndur og aðrir skattar sem taka eiga á „stóreignamönnum„ og „lúxus“ að hann var kannski lagður á það sem sumir mundu kalla lúxus en var engu að síður greiddur af öllum almenningi. Ef hann bitnaði sérstaklega á einhverjum hópi var það á fólki með lágar tekjur sem vildi búa í húsnæðinu sem það hafði komið yfir sig.

Þessi merkilega skattalækkun hefur hins vegar ekki hlotið mikla athygli því skattalækkanir eru oft vanþakklátt verk. Skattalækkanir dreifast á allan almenning, allir eru nokkru bættari, en það er oft ekki mjög sýnilegt. Það heldur enginn opnun og kokteilpartý þegar skattar eru lækkaðir eins og þegar ný opinber stofnun tekur til starfa eða fær nýtt húsnæði. Það eru engir borðar klipptir þegar fólk fær loks frið fyrir eignasköttum til að búa í eigin húsnæði. Þess vegna verður alltaf freistandi fyrir stjórnmálamenn að verja frekar fé í opinberar framkvæmdir sem allir hafa fyrir augunum og uppskera um leið lof frá og prís frá þeim fáu sem hafa mikla hagsmuni af viðkomandi framkvæmd.

Þess vegna var það svo mikilvægt að hafa haft forystumann í ríkisstjórninni undanfarin 14 ár sem var ekki aðeins fylgjandi skattalækkunum í orði heldur hafði einnig burði til að hrinda þeim í framkvæmd. Það var ekki sjálfgefið og verður seint fullþakkað.