Mánudagur 26. september 2005

269. tbl. 9. árg.
Svona menn eiga ekki skilið virðingu samborgara sinna. Því ætla ég að koma til skila. Þeir haga sér einsog suðuramerískir gangsterar, og þjóðin á rétt á að vita það.
– Össur Skarphéðinsson formaður Samfylkingarinnar um feðgana Jón Ásgeir Jóhannesson og Jóhannes Jónsson, birt í Morgunblaðinu 3. mars 2002.

Núverandi formaður og varaformaður Samfylkingarinnar hafa undanfarið flutt nær orðrétt sömu ræðuna um það að húsleit lögreglumanna hjá fyrirtækinu Baugi í ágúst 2002 hafi „farið fram í ákveðnu andrúmslofti“ sem stjórnmálamenn hefðu skapað. Fréttamenn hafa sent ummæli þeir út, hvað eftir annað, án þess að velta því einu sinni fyrir sér hvort það geti nú verið að þetta „andrúmsloft“ hafi nú kannski þá helst komið úr þeirra eigin ranni; frá forystu Samfylkingarinnar.

Það er enginn sem hefur opinberlega talað harðar gegn helstu eigendum Baugs en Össur Skarphéðinsson. Það gerði hann sérstaklega áður en húsleitin fór fram hjá Baugi. Össur Skarphéðinsson talaði um nýja mafíu, kallaði Jón Ásgeir og Jóhannes „hreinræktaða drullusokka“, sagði þá með „gangsteraeðli“ og svo framvegis. En fréttamenn láta sér vel líka að forysta Samfylkingarinnar sé alvarleg á svipinn yfir „andrúmslofti“ sem hafi verið skapað.

En var ekki hótað að Baugi yrði skipt upp? Jú það var stjórnmálaflokkur sem lýsti slíkri skoðun. Við umræður á Alþingi 22. janúar 2002, sem formaður Samfylkingarinnar hafði frumkvæði að, sagði hann meðal annars:

Það er hins vegar Svarti-Pétur í stokknum. Stóru keðjurnar hafa í skjóli einokunar keyrt upp matarverð. Hreðjatak þeirra á markaðnum hefur kallað fáheyrða dýrtíð yfir neytendur. Ég tel að ríkisstjórninni beri skylda til þess að feta í fótspor verkalýðshreyfingarinnar og fara í viðræður við þá aðila, krefjast þess í nafni þjóðarheillar að þeir sýni ábyrgð og þeir lækki matarverð. Ég held reyndar, herra forseti, að það ættu að vera hæg heimatökin. Er ekki rétt munað hjá mér að helsti trúnaðarmaður ríkisstjórnarinnar, Hreinn Loftsson, formaður einkavæðingarnefndar, sé enn þá stjórnarformaður Baugs? Ef fortölur duga ekki til, herra forseti, þá er það skoðun okkar í Samfylkingunni að Samkeppnisstofnun eigi að fá í hendur þau tæki sem hún þarf til þess að skipa fyrir um breytingar, þar á meðal að skipta upp slíkum einokunarrisum ef hún telur þess þörf til þess að vernda hagsmuni neytenda.

Hér talar þáverandi formaður Samfylkingarinnar og það er rétt að taka eftir því að hann segist vera að lýsa stefnu flokksins. Og þegar formaður flokks lýsir slíkri stefnu yfir í nafni flokksins, og enginn af öðrum forystumönnum flokksins sér ástæðu til að andmæla, þá hlýtur að mega ganga út frá því að formaðurinn hafi lýst stefnu flokksins réttilega. Það er frá Samfylkingunni sem andaði köldu í garð stórfyrirtækisins Baugs á árinu 2002, árinu þegar lögreglan gerði húsrannsókn hjá fyrirtækinu. Össur segir jafnvel að það séu „hæg heimatökin“ hjá ríkisstjórninni að tala við trúnaðarmenn sína og vini hjá Baugi. Samfylkingarmenn héldu því með öðrum orðum fram árið 2002 að ríkisstjórnin og Baugur væru mestu mátar en nú segja þeir að forystumenn ríkisstjórnarinnar hafi skapað eitthvað andrúmsloft ógnar gegn fyrirtækinu árið 2002.

Formaður Samfylkingarinnar sagði árið 2002 að fyrirtækið hefði „hreðjatak“ á markaðnum. Það sem síðar hefur gerst er það að Baugur hefur vaxið verulega og meðal annars eignast flesta einkarekna fjölmiðla landsins. En á sama tíma hefur Samfylkingin gersamlega snúið við blaðinu og má nú ekki heyra orðinu hallað á þetta fyrirtæki og telur að allt aðrir menn hafi staðið fyrir að „skapa andrúmsloft“ sem enginn hafi orðið ónæmur fyrir. En aldrei gera fréttamenn athugasemdir eða rifja upp hvaðan „andrúmsloftið“ kom nú.

Jóhanna Sigurðardóttir þingmaður Samfylkingar tók þátt umræðunni á Alþingi í janúar 2002 og vandaði „risunum á matvörumarkaði“ ekki kveðjurnar:

Í skjóli einokunar og mikilla gengisfellinga hafa svo risarnir á matvörumarkaðnum hækkað vöruverð langt umfram það sem tilefni var til og það verður að stöðva. Það gengur ekki lengur að milliliðirnir og smásöluverslunin séu miskunnarlaust að blóðmjólka neytendur en nýleg könnun ASÍ sýnir að Íslendingar greiða mörgum tugum prósenta og stundum hundruðum prósenta hærra verð fyrir nauðþurftir en grannþjóðir okkar.

Vilhjálmur Egilsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins tók hins vegar til varna fyrir stórfyrirtækin og mótmælti því að siga ætti Samkeppnisstofnun á þau þegar hann sagði:

En hvað skyldi þá vera að og hver skyldu vera helstu ráðin sem við heyrum hjá stjórnarandstæðingum? Jú, það er fyrst að Samkeppnisstofnun eigi núna að fara að leggja í nýja herferð gegn hagræðingu og lækkun kostnaðar í atvinnulífinu.

Formaður Samfylkingarinnar var ekki af baki dottinn í þessum umræðum og sagði risana á matvælamarkaði í „skjóli ríkisstjórnarinnar“:

Eitt getur [ríkisstjórnin] gert, tekið undir með háttvirtum  þingmanni Kristni H. Gunnarssyni og þingmönnum stjórnarandstöðunnar og ráðist gegn einokun hvar sem er, ekki síst á matvælamarkaðnum. Við höfum séð að þar eru að koma upp risar sem í skjóli ríkisstjórnarinnar ætla greinilega að fara sínu fram. Hvers vegna fer ekki ríkisstjórnin í sömu föt og verkalýðshreyfingin og talar við þessa menn, talar niður þessa einokun, eins og hún er að berjast við að tala niður verðbólguna? Ég held að það gæti reynst ákaflega heilladrjúgt.

Nú segir forysta Samfylkingarinnar, sem jós skömmum og níði yfir Baug á vormánuðum 2002, hins vegar að einhverjir allt aðrir hafi skapað neikvætt andrúmsloft í garð fyrirtækisins árið 2002.

Bæði formaður og varaformaður Sjálfstæðisflokksins tóku þátt í þessari umræðu án þess að minnast á Baug í ræðum sínum framan af. Í lok umræðunnar vék Davíð Oddsson forsætisráðherra, sem Össur var þá búinn að kalla trúnaðarvin Baugs og segja að Baugur skákaði í skjóli ríkisstjórnarinnar sem Davíð veitti forsæti, orðum að stöðu mála í matvælaverslun:

Herra forseti. Þetta hefur verið gagnleg umræða vegna þess að þrátt fyrir orð háttvirts. síðasta ræðumanns hefur skinið í gegnum umræðuna að menn átta sig á því að batnandi hagur er fram undan hjá okkur og þeir sem höfðu tekið vonleysiskast nú á haustmánuðum eru flestir úr því kasti komnir og sjá að fram undan eru mjög góð skilyrði fyrir íslenskan efnahag og íslenska þjóð. Það er að ganga eftir, sem kannski ekki allir höfðu trú á, að gengið mundi styrkjast. Við vitum að verðbólguskotið á liðnu ári átti mesta rót að rekja til lækkunar gengis krónunnar. Við erum innflutningsþjóð. Við lifum á innflutningi að verulegu leyti. Við komumst ekki hjá því og breyting á mati á verði krónunnar okkar hlýtur að leiða til hækkandi vöruverðs, þ.e. ef gengið lækkar. Nú þegar það hækkar á nýjan leik jafnt og þétt leiðir það með sama hætti, og a.m.k. á að leiða til þess með sama hætti, að verðlag fari lækkandi og hagur manna styrkist hvað það varðar. Auðvitað á að fylgja því eftir að stórir aðilar séu ekki að misnota aðstöðu sína. Auðvitað er 60% eignaraðild í matvælafyrirtækjum, verslunarfyrirtækjum í matvælaiðnaði, allt of há hlutdeild. Auðvitað er það uggvænlegt og sérstaklega þegar menn hafa á tilfinningunni að menn beiti ekki því mikla valdi sem þeir hafa þar af skynsemi. Auðvitað hlýtur að koma til greina af hálfu ríkisins og Alþingis að skipta upp slíkum eignum ef þær eru misnotaðar.

Þessi ummæli Davíðs eru auðvitað hjóm eitt miðað við stóryrðin sem Samfylkingarmenn létu dynja á Baugi í þessari umræðu. Davíð sagði í raun ekki annað en það sem stendur nú í samkeppnislögum. Vefþjóðviljinn er auðvitað alveg ósammála því að slík lög eigi rétt á sér því það er val neytenda sem gerir fyrirtæki stór, en það er aukaatriði í þessu samhengi.

Það sem upp úr stendur er að hafi eitthvað sérstakt andrúmsloft skapast vegna orða stjórnmálamanna um Baug vorið 2002 hefur forysta Samfylkingarinnar ekki átt sístan þátt í því.

Ádögunum bættist ný bók við bóksölu Andríkis. Auðfræði eftir Arnljót Ólafsson var fyrsta hagfræðiritið á íslensku, gefið út árið 1880. Bókin var endurútgefin árið 1988 og vakti þá athygli margra, sem henni kynntust þá fyrst, hversu ágætt kynningarrit hagfræðinnar var þar á ferð. Við skrif sín studdist Arnljótur Ólafsson einkum við rit hins þekkta franska hagfræðings, Fréderic Bastiat, og þarf þá kannski ekki að koma svo mjög á óvart hve margt er gagnlegt og fróðlegt í Auðfræði hans. Bastiat byggði skrif sín ekki síst á kenningum Adam Smith og tókst að gera þær ljóslifandi fyrir lesendum með skemmtilegum stíl sínum. Þess má einnig geta að Andríki gaf út Lögin, eitt af ritum Bastiat, og fást þau einnig í bóksölunni.