Helgarsprokið 25. september 2005

268. tbl. 9. árg.

Danskur tölfræðingur og fyrrverandi Grænfriðungur, Bjorn Lomborg að nafni, skrifaði greinaflokk í danska blaðið Politiken fyrir allnokkrum árum og benti þar hve hrakspár umhverfissinna um mengun og auðlindaþurrð hafa margar reynst fjarstæðukenndar. Þegar nokkrar slíkar greinar höfðu birst gaf umhverfisráðherra Danmerkur undirmönnum sínum sérstök fyrirmæli um að leggjast yfir þær og reyna að grafa upp villur og missagnir. Það þarf svo sem ekki að koma á óvart því starfsmenn umhverfisráðuneyta átta sig á því, rétt eins og forstjórar umhverfisverndarsamtaka, að fjárveitingar til þeirra verða í réttu hlutfalli við trú fólks á heimsendakenningarnar. Menn munu síður sætta sig við fjáraustur til opinberra verkefna á sviði „umhverfismála“ átti þeir sig á því að heimurinn er ekki á heljarþröm.

Lomborg skrifaði síðar bók um málið og fyrir fimm árum kom hún út á íslensku undir nafninu Hið sanna ástand heimsins. Í bókinni fór hann skipulega yfir hvernig ástand umhverfisins og áhrif þess á manninn hefur breyst í aldanna rás. Bóksala Andríkis hefur nú fengið bókina til sölu og sjálfsagt að stikla á stóru yfir efni hennar.

Lomborg segir í bókinni frá rannsóknum sínum og skoðunum á tiltækum gögnum um þróun auðlinda og mengunar. Bókin er full af dæmum um hvernig umhverfisverndarsinnar hafa rangtúlkað slík gögn til að hræða menn til fylgis við einstrengingsleg umhverfisverndarsjónarmið. Lomborg kemst því að allt annarri niðurstöðu en heimsendaspámennirnir. Vatn og skógar eru meðal þess sem oftast er nefnt sem dæmi um auðlindir sem maðurinn gengur á með óhófi. Um það segir í niðurstöðum Lomborgs:

Það lítur ekki út fyrir að við munum ofnýta endurnýjanlegar auðlindir okkar. Langmikilvægasta forðabúrið er matur og hann mun að öllum líkindum verða bæði aðgengilegri og ódýrari jafnframt því sem við munum geta brauðfætt æ fleira fólk í framtíðinni. Skógarnir eru ekki nærri horfnir og skóglendi hefur haldist nokkuð svipað frá stríðslokum. Þó stöðugt sé verið að fella regnskógana og nokkur lönd nýti skóga sína illa og með skammtímasjónarmið í huga, fá 80% regnskóganna eða vera í friði.

Vatn er ríkuleg og endurnýjanleg auðlind. Það mætti þó víða fara sparlegar með vatn. Lengi umgengust menn vatn ekki sem eiginlega eða takmarkaða auðlind. Það hefur víða valdið því að bruðlað hefur verið með vatnið. En í grundvallaratriðum snýst málið um forgangsröðun þar sem verðlagning getur leitt til þess að allir geti fengið nægt vatn til allra nauðsynlegustu hluta.

Hér tæpir Lomborg á því vandamáli sem felst í því að víða er eignarréttur á auðlindum illa eða ekki skilgreindur og það leiðir til slæmrar umgengni, ofnýtingar og sóunar. Þetta átti til að mynda við um fiskistofnana við Íslandsstrendur áður en útgerðarmenn voru beintengdir við átstand fiskistofna og aflamark með kvótakerfinu.

Í lok Hins sanna ástands heimsins víkur Lomborg að svonefndri varúðarreglu sem mjög hefur verið í tísku meðal umhverfisverndarsamtaka og stjórnmálamanna. Reglan gerir ráð fyrir að geti menn ekki sannað að umhverfið skaðist ekki eigi öll önnur sjónarmið samfélagsins að víkja.

Þessi bók hefur sýnt að margt af því sem við lærðum um umhverfið sem börn fær ekki staðist. Heimurinn fer ekki síversnandi. Eins og áður hefur komið fram höfum við nú meiri tómstundir, meira öryggi, færri slys, meiri menntun, meira vöruúrval, hærri tekjur, meiri mat og heilbrigðara og lengra líf en áður. Og það bíður ekkert vistfræðilegt stórslys handan við hornið til að refsa okkur. …

Varúðarsjónarmiðið er leifar af dómsdagsviðhorfinu og segir okkur að við eigum að vera hrædd um að allt sé að fara til fjandans og betra sé að vera ofurvarkár. En ef maður er ofurvarkár er maður einmitt ofurvarkár.