Laugardagur 24. september 2005

267. tbl. 9. árg.

Það stóð ekki á svari hjá Sigurði Þ. Ragnarssyni veðurfréttamanni á Stöð 2 á miðvikudaginn þegar Sigmundur Ernir Rúnarsson fréttastjóri spurði hann að því með tilþrifum yfir hvers vegna svona margir sterkir fellibylir gengju nú yfir á skömmum tíma. Í bakgrunni var stórt kort sem sýndi fellibylinn Rítu voma yfir strönd Texas.

Skýringin er einfaldlega þessi að þetta er óeðlilega hlýr sjór sem þarna er. Af hverju er hann óðeðlilega hlýr? Þetta er auðvitað vegna hlýnandi loftslags. Þá komum við að því af hverju er hlýnandi loftslag og áhrif þess svona mikil. Og það er auðvitað vegna meðal annars gróðurhúsaáhrifanna og við megum ekki gleyma því að Bandaríkjamenn losa allra þjóða mest af gróðurhúsalofttegundum út í andrúmsloftið. Og þetta skýrir einfaldlega best það sem þarna er að gerast.

Var þar vitaskuld verið að vísa til fellibyljanna í New Orleans og nágrenni. Já, sá mikil fjöldi fellibylja sem nú gengur yfir er „auðvitað vegna hlýnandi loftslags“, um það þarf ekkert að efast. Eða hvað?

Jú, þeir eru til sem efast um þetta og telja raunar að skýringin sé allt önnur. Einn þessara manna er að vísu ekki veðurfréttamaður á Stöð 2, en hann hefur engu að síður kynnt sér málið nokkuð. Þetta er Max Mayfield, forstjóri Fellibyljamiðstöðvar Bandaríkjanna, National Hurricane Center, í Miami. Mayfield sagði, í nýjum vitnisburði fyrir þingnefnd, að aukin tíðni fellibylja nú skýrðist af því að tíðni fellibylja gengi í bylgjum. Á fimmta til sjöunda áratug síðustu aldar hefði tíðni stórra fellibylja verið mikil, þá hefði hún minnkað fram á miðjan síðasta áratug, þegar hún hefði farið vaxandi á ný. Búast mætti við þremur til sex fellibyljum til viðbótar á þessu ári og þá yrði tala þeirra komin í 18 til 21 í ár.

Músarhræ má ekki finnast án þess að sumir taki andköf og lýsi því svo yfir hróðugir að ástæðan sé „hlýnandi loftslag“. Það er nánast sama hvað gerist í náttúrunni, alltaf skulu einhverjir skýra fyrirbrigðið út með „hlýnandi loftslagi“.

Á fréttavef BBC í vikunni voru þessu máli gerð ágæt skil. Þar var haft eftir Julian Heming við Veðurstofu Bretlandseyja að „samkvæmt nýjustu rannsóknum sé almennt álitið að hlýnun andrúmsloftsins muni ekki hafa áhrif á tíðni fellibylja.“ Með fréttinni birtist þetta súlurit yfir fjölda fellibylja sem dunið hafa á meginlandi Bandaríkjanna undanfarna fimmtán áratugi og svo síðustu fjögur ár.

Þetta má svo kannski setja í samhengi við aðra frétt sem birtist í vikunni á fréttavef BBC þess efnis að frosinn koltvísýringur hafi gufað upp og minnkað nokkur ár í röð við suðurpól reikistjörnunnar Mars. Vísindamenn segja þetta benda til þess að loftslagsbreytingar eigi sér nú stað á reikistjörnunni rauðu. Vefþjóðviljinn biður þess að fréttamenn Stöðvar 2 fari ekki að geta sér til um ástæður þessara sviptinga á Mars nú þegar Bandaríkjamenn hafa verið að láta fjarstýrða jeppa rúnta um þarna uppi.

Að lokum má svo geta þess að í frétt á mbl.is í gær var sagt frá því að kviknað hefði í póstbíl sem gengur fyrir metani og brann eitthvað af póstinum um borð. Viðskiptavinir bóksölu Andríkis þurfa þó ekki að óttast því bækurnar sem þeir panta eru fluttar í bílum sem ganga fyrir bensíni.