Andríki hefur tekið saman stutta skýrslu með upplýsingum um mikla og vaxandi skattheimtu sveitarfélaga af launþegum. Það er ekki víst að allir átti sig á því hve sveitarfélögin eru frek á launatekjur manna. Útsvar sveitarfélaga hefur hækkað um 8,5% að meðaltali frá árinu 2005 eða úr 11,96% í 12,98%. Á sama tíma hefur ríkið lækkað sitt skatthlutfall um 6,3% eða úr 26,41% í 24,75%.
Sveitarfélögin hafa nú nokkru meira en ríkið upp úr krafsinu í launaumslögum landsmanna. Á síðasta ári fékk ríkið 67,1 milljarð króna í staðgreiðslu tekjuskatts af einstaklingum en útsvarið skilaði sveitarfélögum 69,0 milljörðum króna. Nú greiða 67% framteljenda skatt til ríkisins af launatekjum sínum en 97% framteljenda greiða útsvar til sveitarfélaga af sömu tekjum.
Maður með 124 þúsund krónur í tekjur á mánuði greiðir engan tekjuskatt til ríkisins en fullt útsvar til sveitarfélags. Það er mjög áhugavert í ljósi þeirrar umræðu sem farið hefur fram um skattlagningu lágra launa og bóta.
Það er almennt ekki gott fyrir launþega að átta sig á hve stórtæk sveitarfélögin eru í skattheimtu af almennum launatekjum. Upplýsingar þess efnis koma almennt ekki fram á launaseðlum og því er algengur sá misskilningur að skattur af launatekjum renni einvörðungu til ríkisins. Þó er hægur vandi að láta slíkar upplýsingar koma fram á launaseðlum þannig að launþegar sjái svart á hvítu hvernig tekjuskattur þeirra skiptist á milli ríkis og sveitarfélaga. Það gæti þó verið enn einfaldara ef ríki og sveitarfélög færu einfaldari leið við að skipta skattinum á milli sín. Til að mynda mætti hugsa sér að persónuafsláttur væri felldur niður og þeim mun lægri flatur skattur tæki við.
Andríki telur það mikilvægt aðhald fyrir stjórnmálamenn að þessi skipting, í tekjuskatt til ríkisins og útsvar til sveitarfélaga, sé aðgengileg og sýnileg fyrir hinn almenna launamann. Ekki síst nú þegar framundan eru kosningar til bæði sveitarstjórna og Alþingis á næstu 20 mánuðum. Andríki skorar því á launagreiðendur að sundurliða á launaseðlum hvernig staðgreiðsla af launatekjum skiptist á milli ríkis og sveitarfélaga. Jafnframt hvetur Andríki ríki og sveitarfélög til að huga að einfaldari og gegnsærri skiptingu á þeim tekjum sem þau hafa af launþegum.
Á myndinni hér til hliðar sést að þeir sem hafa undir 250 þúsund krónum í mánaðarlaun greiða meira útsvar til sveitarfélags en tekjuskatt til ríkisins í staðgreiðslu skatta á útborgunardegi. Maður með 250 þúsund í mánaðarlaun greiðir 58.458 krónur í staðgreiðslu tekjuskatts. Þar af fara 28.604 krónur til ríkisins en 29.854 krónur til sveitarfélagsins.