Miðvikudagur 21. september 2005

264. tbl. 9. árg.

Þeir sem eru fylgjandi einkarekstri og andvígir ríkisrekstri hafa getað glaðst yfir mörgu á síðustu árum. Ríkið hefur einkavætt stór og umsvifamikil fyrirtæki á borð við Landssímann, Landsbankann og Búnaðarbankann með afar jákvæðum afleiðingum fyrir íslenskt efnahagslíf. En þó að stór skref hafi verið stigin eru nokkur skref enn eftir og eitt þeirra er Íbúðalánasjóður. Félagsmálaráðherra hefur undirritað nýja reglugerð um breytingu á reglum um fjárhag og áhættustýringu sjóðsins, en sjóðurinn hefur legið undir ámæli fyrir að hafa túlkað heimildir sínar frjálslega. Með nýju reglugerðinni er bætt úr því, ef svo má segja, og reglurnar gerðar frjálslegri.

Nú er Vefþjóðviljinn almennt hlynntur frjálslegum reglum, en þó verður augljóslega að gera undantekningu á því þegar um er að ræða að auka frelsi ríkisstofnana. Afleiðingin af þessari reglugerðarbreytingu félagsmálaráðherra er sú að nú má í raun segja að Íbúðalánasjóður sé orðinn að fjárfestingarbanka, þar sem sjóðurinn hefur nú víðtækar heimildir til fjárfestinga. Samkeppnisstaða sjóðsins á fjármálamarkaði er hins vegar mjög óvenjuleg, svo ekki sé fastar að orði kveðið, því að hann þarf ekki að lúta sambærilegum reglum og sams konar stofnanir. Kröfur um áhættustýringu eru til að mynda alls ekki sambærilegar við kröfur sem fjárfestingarbankar verða að lúta. Þeir verða að sæta ákveðnum kvöðum um eigið fé, en eins og bent var á í Hálffimm fréttum greiningardeildar KB banka í gær þarf Íbúðalánasjóður ekki að hafa áhyggjur af slíku. Þá greiða bankar skatta, en Íbúðalánasjóður gerir það ekki.

Eins og samkeppni bankanna um húsnæðisveðlán almennings sýnir er engin þörf fyrir Íbúðalánasjóð. Bankakerfið getur hæglega sinnt þörfum almennings að þessu leyti. Réttu viðbrögðin við öflugri og fjölbreyttari bankaþjónustu í kjölfar einkavæðingar bankanna væru að draga frekar úr umsvifum ríkisins á fjármálamarkaði með því að selja Íbúðalánasjóð og hann gæti þá til dæmis runnið í einu lagi eða í hlutum inn í einn eða fleiri banka. Viðbrögð félagsmálaráðherra hafa hins vegar verið þau að verja Íbúðalánasjóð með því að víkka út starfsemi hans. Hvort ástæðan er sú að margir góðir framsóknarmenn hafi unun af því að starfa fyrir sjóðinn skal ósagt látið, en ástæðan getur að minnsta kosti ekki verið sú að Íbúðalánasjóður hafi enn hlutverki að gegna.