Þriðjudagur 20. september 2005

263. tbl. 9. árg.

Það hlaut að vera stéttarfélag með skylduaðild sem stendur að fjáraustrinum í auglýsingaherferð um laun og útlit manna þessa dagana. Félög eins og Verzlunarmannafélag Reykjavíkur eru alveg búin að tapa sér í þeim gríðarlegu fjármunum sem nauðungargjöld launþega skila þeim. Þeim dettur flest annað í hug en að skila þessum fjármunum til réttmætra eigenda. 

Eitt sem svo er áberandi þegar stéttarfélög og jafnvel stjórnvöld fara í auglýsingafjáraustur af þessu tagi er að aðstandendur átaksins segja að því loknu, þegar þeir átta sig á því að allt var til einskis og fólk flissaði í besta falli að framtakinu, að átakinu hafi verið „ætlað að vekja athygli – og það tókst!“.

Hver getur ekki vakið athygli á sér með því að setja milljónir króna í auglýsingaherferð?

Íenn einni sjónvarpsauglýsingunni sem Verzlunarmannafélag Reykjavíkur er að hefja sýningar á og frumsýnd var í Íslandi í dag á Stöð 2 fyrir nokkrum dögum er fullyrðingin „karlar hafa 20% hærri laun en konur fyrir nákvæmlega sömu störf“. Þetta er nákvæmlega ósatt. Í sjálfum niðurstöðum kjarakönnunar VR segir:

Kynbundinn launamunur, þ.e. þegar búið er að taka tillit til vinnutíma, aldurs, starfsaldurs, stéttar og menntunar, er 14%.

Þetta má því kalla að auglýsa launamuninn upp.

Þar við bætist að upplýsingar um samanlagðan starfsaldur, menntun og reynslu eru mjög ófullkomnar í könnunum af þessu tagi. Engin tvö störf eru nákvæmlega eins. Karlar vinna almennt lengri vinnudag en konur. Það getur verið að hver yfirvinnustund skili mönnum ekki aðeins yfirvinnugreiðslum heldur einnig hærri dagvinnulaunum. Niðurstöður þessarar könnunar leiða því það eitt í ljós að það er ekki marktækur munur á launum karla og kvenna en engu að síður er látið með niðurstöðurnar eins og þær séu hárnákvæmar – þar til þarf að auglýsa þær þá eru 14% skyndilega námunduð upp að 20%.

Og munurinn sem VR telur sig sjá út úr þessum könnunum sínum hefur ekkert breyst undanfarin ár. Það vekur sérstaka athygli því helstu fylgismenn tekjutengds fæðingarorlofs sem komið var á frá og með árinu 2001 höfðu lofað því að þessi munur hyrfi þegar draumar þeirra um hæstu félagslegu bætur í heimi til hátekjumanna rættust. Með tilurð þessarar miklu þjóðfélagsviðgerðar áttu allir að verða jafnir. Nýja fæðingarorlofið hefur hins vegar bara engu breytt um þetta. Engu.

Í Kastljósi Ríkissjónvarpsins í gærkvöldi voru fæðingarorlofslögin voru rædd með þremur gestum sem allir virtust jákvæðir í þeirra garð. Nú bíður Vefþjóðviljinn þess að þremur gagnrýnendum laganna verði boðið í þáttinn. En í þættinum kom engu að síður fram merkileg yfirlýsing. Þorbjörg I. Jónsdóttir formaður Kvenréttindafélags Íslands sagði að allar mælingar á árangrinum af fæðingarorlofinu skorti. „Okkur hefur kannski skort svolítið frá því þessi nýju lög tóku gildi að það sé skoðað og rannsakað jafnóðum hvernig þau reynast.“ Nú bregður nýrra við því eins og fæðingarorlofið var kynnt til sögunnar vorið 2000 þá átti að vera alveg kristalklárt að það myndi skila stórkostlegum árangri. Það var kallað „mesta framfaraskref“ í jafnréttismálum frá því konur fengu kosningarétt og hver veit hvað. Árangurinn hefur hins vegar eitthvað látið á sér standa því nú vilja menn gera út flokk félagsvísindamanna og tölfræðinga til að leita að honum.

Svona vindur jafnréttisiðnaðurinn upp á sig.