Fimmtudagur 22. september 2005

265. tbl. 9. árg.
Því meðan við kjósum aðra hangandi hendi
og hikandi köstum samvizku vorri á glæ,
þá falla stöðugt atkvæði hjartans á yður,
þér ungu konur, sem ráðið í þessum bæ.

Og það er ég viss um, að engin bæjarstjórn önnur
að yndisleik er þessari bæjarstjórn jöfn.
Við biðjum hana að þiggja hús vor og hjörtu
og hirða vor dýrmætu sparisjóðsbókasöfn.

S

Já, bærinn ER skrýtinn!

jálfstæðismenn í borgarstjórn Reykjavíkur hafa nú að forgöngu Kjartans Magnússonar lagt til að borgaryfirvöld hlutist til um það að reist verði stytta af skáldinu Tómasi Guðmundssyni. Frá sjónarhóli þeirra sem ekki eru frá almennu sjónarmiði á móti því að hið opinbera komi að styttnagerð, þá er sú tillaga vel til fundin. Það er ekki út af engu sem Tómas hefur lengi verið nefndur borgarskáldið, svo mjög sem ljóð hans snerust um höfuðstaðinn, fegurð hans og mannlíf. Ófáum þykir sem Tómas hafi hreinlega kennt Reykvíkingum að dást að bænum sínum. Þegar aðrir fundu höfuðstaðnum flest til foráttu, orti Tómas um það sem gaf lífi borgarans gildi, og gerði það þannig að jafnvel gamlir símastaurar sungu, í sólskininu og urðu grænir aftur.

Og þar sem að í borgarstjórn Reykjavíkur er sjaldan mikil andstaða við opinber útgjöld, þá hefði mátt búast við að tillögu um Tómasarstyttu yrði tekið fagnandi. En ónei, tillögunni var illa tekið í borgarstjórn. Og hvers vegna ætli það hafi nú verið?

Nú þarf varla að taka fram, að Vefþjóðviljinn er sömu skoðunar og áður um opinber útgjöld og ef borgaryfirvöld hefðu hafnað tillögunni með þeim rökum að ekki skyldi reisa styttur af skáldum fyrir skattpeninga, þá hefði Vefþjóðviljinn fyrstur skilið þau rök og samþykkt með gleði. En það var nú ekki ástæðan fyrir áhugaleysi borgaryfirvalda. Nei, þar ráða nú önnur sjónarmið: Tómas Guðmundsson var nefnilega ekki kona. „Það kom mér á óvart að borgarstjóri hafi þurft að setja minningu skáldsins í samband við einhverja kynjapólitík“ segir Kjartan Magnússon í Blaðinu í gær, og telur „ótrúlegt að það eigi að bitna á Tómasi og minningu hans að hann skyldi ekki hafa verið kona“. En raunar er það nú svo, að það ótrúlega í dæminu er það, að nokkrum manni þyki nokkuð ótrúlegt sem kemur frá því fólki sem er með kynjahlutföll á heilanum.

Nú er það alveg rétt ábending hjá borgaryfirvöldum að Tómas Guðmundsson var ekki kona. Hitt má Tómas þó eiga að hann hélt um stund að hann væri smámey, og má velta fyrir sér hvort margir af núverandi borgarfulltrúum geta sagt sömu sögu. En jafnvel þó viðurkennd sé sú staðreynd að Tómas Guðmundsson hafi aldrei verið kona, þá eru skynsamir menn engu nær því að ákveða hvort rétt sé að reisa af honum styttu. Það nær einfaldlega engri átt að kynferði komi því máli við reisa skáldi styttu eða reisa því ekki styttu. Og þó einhverjum kunni að þykja litlu skipta hvort slík stytta sé reist eða ekki, þá segir þetta dæmi svolítið um það hvernig hugsunarhátturinn er í ráðhúsi Reykvíkinga þessi misserin, þar sem húsráðendum er sífellt ofar í huga að jafna reikningana við karlkynið, sem yfirvöldin telja að hafi hlunnfarið sig og formæður sínar. Og við það vindmyllustríð bætast svo almennar rökleysur að ógleymdu úrræðaleysi þeirra sem aldrei þykir vera nógu gott veður til að skapa. Þeir sem eru á móti því að Tómasi Guðmundssyni verði reist stytta, og hafa þá ástæðu að hann hafi ekki verið kona, þeir valdhafar munu taka fleiri rangar ákvarðanir. Alveg þangað til kjósendur fá sig fullsadda og afþakka frekari þjónustu þeirra, en einhvern tíma kemur sú stund að Reykvíkingar fá betri borgarstjórn en þá sem nú situr.

Og hver getur verið í vandræðum með að kjósa
 í veröld, sem ennþá býr yfir töfrum þeim,
að bæjarstjórnin kveður kjósendur sína
með kossi og leyfir þeim að fylgja sér heim?