Laugardagur 10. september 2005

253. tbl. 9. árg.

Íinngangi einnar af fréttum Ríkisútvarpsins í gær sagði: „Það er fyrir neðan allar hellur að nota Seðlabankann eina ferðina enn sem stofnun þar sem stjórnmálamenn geta sest í helgan stein. Þetta segir fyrrverandi formaður bankaráðs Seðlabankans.“ Í fréttinni sjálfri var eftirfarandi svo lesið upp: „Ágúst Einarsson prófessor við viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands segir það fyrir neðan allar hellur að nota Seðlabankann eina ferðina enn sem stofnun þar sem stjórnmálamenn geti sest í helgan stein. “ Í fréttinni var svo haldið áfram og sagt að skipun Davíðs Oddssonar í stól seðlabankastjóra hefði „vakið upp hörð viðbrögð fræðimanna“. Og hvað skyldi Ríkisútvarpið svo hafa haft til staðfestingar þessari fullyrðingu sinni? Jú, auk orða Ágústs Einarssonar, voru það orð Þorvaldar Gylfasonar prófessors úr Fréttablaðinu, þar sem hann mun hafa sagt að ráðherrar væru ekki aðeins óhæfir heldur einnig vanhæfir, samkvæmt eðli málsins. Þetta voru þeir tveir „fræðimenn“ sem Ríkisútvarpið dró fram til að finna að því að Davíð Oddsson væri skipaður bankastjóri Seðlabankans.

Ekki veit Vefþjóðviljinn hvort að fréttastofa Ríkisútvarpsins er svo illa upplýst að hún þekki ekkert til þeirra manna sem hún vitnaði þarna til, en ýmsum öðrum er í það minnsta ljóst að þarna var ekki aðeins talað við tvo hlutlausa „fræðimenn“. Það vill svo til að Ágúst þessi Einarsson sat á Alþingi fyrir forvera Samfylkingarinnar með hléum frá árinu 1978 til 1999 og er faðir núverandi varaformanns þess flokks. Hann er því í þessu sambandi miklu frekar andstæðingur Davíðs í stjórnmálum en fræðimaður sem hefur einungis áhuga á að gefa hlutlaust álit á skipuninni í bankastjórastólinn.

Hinn „fræðimaðurinn“, Þorvaldur Gylfason, hefur árum og nánast áratugum saman skrifað reglulega greinar í dagblöð, nú síðast Fréttablaðið, þar sem hann hefur haft lítið annað fram að færa en hallmæla Davíð Oddssyni og ríkisstjórnum hans. Hann hefur árum saman ranglega spáð hörmungum í efnahagslífi landsins, að því er virðist eingöngu til að klekkja á ríkisstjórnum Davíðs og það leynir sér ekki að honum hefur verið mjög í nöp við manninn. Þorvaldur ritaði jafnvel heila bók um hrakspár sínar árið 1995 og bar hún hið dramatíska nafn Síðustu forvöð. Í bókinni sagði hann allt stefna norður og niður ef ekki yrði farið að ráðum sínum í efnahagsmálum. Í engu var farið að ráðum Þorvaldar en við tók mesti fjörkippur í íslensku efnahagslífi sem um getur. Þeir sem fylgst hafa með þessum skrifum hafa vafalítið tekið eftir því hve ótrúlega langt Þorvaldur hefur oft verið tilbúinn til að seilast í því skyni að koma höggi á þennan pólitíska andstæðing sinn, en Þorvaldur hefur alla tíð verið harður stuðningsmaður Samfylkingarinnar og forvera hennar.

Vefþjóðviljinn er ef til vill ekki tiltakanlega minnugur á atburði nýliðinnar stundar, sem kann að skýra það að hann minnist þess ekki að Þorvaldur Gylfason prófessor hafi gengið fram fyrir skjöldu með gífuryrði þegar félagi hans úr Alþýðuflokknum gamla og þingmaðurinn, Jón Sigurðsson, var fyrir rúmum áratug skipaður bankastjóri Seðlabankans. Vefþjóðviljanum hefur ekki tekist að rifja upp að þá hafi Jón verið að áliti Þorvaldar bæði „óhæfur og vanhæfur samkvæmt eðli málsins“.

Við þetta má svo ef til vill bæta litlum pistli sem birtist hér í Vefþjóðviljanum 11. febrúar 1998 um tvær greinar sem Þorvaldur Gylfason ritaði í tímaritið Vísbendingu með tæpra þriggja ára millibili. Þorvaldur hafði mátulega lokið að mæra siðferði og efnahagsstjórn í Suðaustur-Asíu í hástert þegar þar skall á kreppa sem meðal annars var rakin til víðtækrar spillingar.

Hinn 19. maí árið 1995 ritaði háskólaprófessorinn Þorvaldur Gylfason grein í tímaritið Vísbendingu sem bar heitið Hagvaxtarundrið í Asíu. Þar segir m.a.:„Í Kóreu og Taívan eru embættismenn iðulega sóttir í háskólana. Þannig hefur Kóreustjórn tekizt að reka spillingarorð af embættiskerfinu þar, og þess var þörf, þar eð kóreskir embættismenn nutu lítillar virðingar meðal almennings langt fram yfir 1960.“

Í nýjasta tölublaði Vísbendingar kveður Þorvaldur sér aftur hljóðs og nú heitir greinin: Asía: Ekkert að óttast. Eins og nafn greinarinnar ber með sér fjallar hún einkum um þá efnahagserfiðleika sem nokkrar þjóðir Asíu eiga við að stríða um þessar mundir. Það vekur athygli að Þorvaldur kennir ekki síst spillingu meðal embættismanna þessara landa um erfiðleikana. Það virðist því ekki hafa skipt sköpum að sækja embættismennina í háskólana. Spillingin er enn til staðar og Þorvaldur segir að haft sé á orði að „allir stjórnmálamenn í Taílandi eigi banka og allir bankar eigi tvo stjórnmálamenn“. Það eina sem virðist því hafa breyst við að embættismennirnir voru „sóttir í háskólana“ er að þessum háskólamenntuðu embættismönnum tókst að telja sumum háskólamönnum í öðrum löndum trú um að engin spilling ætti sér stað.