Föstudagur 9. september 2005

252. tbl. 9. árg.
„Ek skal segja þér hvat ek hefi hugsat. Ek ætla at hafa til þings með mér kistur þær tvær, er Aðalsteinn konungr gaf mér, hvártveggja er full af ensku silfri. Ætla ek at láta bera kisturnar til Lögbergs, þá er þar er fjölmennast. Síðan ætla ek at sá silfrinu, ok þykkir mér undarligt, ef allir skipta vel sín á milli. Ætla ek, at þar myndi vera þá hrundningar eða pústrar, eða bærist at um síðir, at allr þingheimrinn berðist.“
– Egill Skalla-Grímsson aldraður segir Þórdísi frænku sinni frá ráðagerð sinni um skemmtun í ellinni.

Eftir að ríkisstjórnin kynnti í vikunni hvernig ætlunin er að verja því fé sem fékkst við sölu Landssímans hf. hafa þingmenn Samfylkingarinnar Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Össur Skarphéðinsson gagnrýnt ráðstöfunina. Efnislega hafa þau ekki gagnrýnt  hana heldur aðeins að nú þegar hafi verið tekin ákvörðun um hvernig fénu verður eytt. Ingibjörg sagði ríkisstjórnina „dreifa gullinu“ og  Össur sagði stjórnina „sáldra silfrinu“ svo notuð séu þeirra eigin orð.

Nú má auðvitað gagnrýna þessa ákvörðun um að efna til svo mikilla útgjalda í framtíðinni í stað þess að lækka bara skuldir og skatta. Það má til að mynda heita ótrúlegt að setja þúsundir milljóna króna í Nýsköpunarsjóð eftir þá reynslu sem menn hafa af honum og öðrum slíkum sjóðum á vegum hins opinbera. Hver kom því eiginlega til leiðar? Hjálmar Árnason, formaður þingflokks Framsóknarmanna, sagði í útvarpsviðtali eftir að tilboð í Landssímann hf. voru opnuð á dögunum að æskilegt væri að „veifa peningunum framan í sprotafyrirtæki“. Honum verður að ósk sinni. En það er ekki þetta sem Ingibjörg og Össur eru að gagnrýna heldur að ríkisstjórnin hafi nú þegar ákveðið og tekið af skarið um hvernig fénu verður varið.

Í samtali við Stöð 2 sagðist Ingibjörg vilja leggja peningana í sjóð sem yrði ráðstafað í framtíðinni. En hvað myndi slíkur sjóður hafa í för með sér? Jú, þarf nokkuð að skýra það fyrir öðrum en Ingibjörgu og kannski Össuri? Hvernig halda menn að þingkosningar yrðu ef frambjóðendur hefðu tugmilljarða sjóð sem þeir gætu lofað hinum óteljandi hagsmunahópum um land allt? Er ekki augljóst að þá væri verið að efna til slagsmála um hver fengi hvað úr sjóðnum og alls konar menn látnir halda að þeir detti í lukkupottinn ef hinn eða þessi frambjóðandi næði kjöri? Það er engin skortur á frambjóðendum sem tækju þátt í þeim pústrum og hrindingum. Ef marka má reynsluna af yfirboðum og lýðskrumi í aðdraganda kosninga þá yrði svona sjóði lofað margsinnis og margföldum. Þá fyrst mætti segja að verið væri að sá silfrinu.