![]() |
Stundum er sagt að ein mynd segi meira en þúsund orð. Ein er sú mynd sem er á ýmsan hátt lýsandi fyrir stjórnmálaferil Davíðs Oddssonar formanns Sjálfstæðisflokksins. Það er fréttamyndin af því þegar hann fór niður í Búnaðarbanka og tók þar út sparifé sitt, þar sem hann vildi ekki vera lengur í viðskiptum við bankann, af ástæðum sem óþarft er að rifja upp. Já hvernig var sú mynd aftur, spyr kannski einhver, var hún ekki alveg mögnuð? Jú, á sinn hátt er hún það. Vegna þess að hún er ekki til. Forsætisráðherrann lét það nefnilega alveg ógert að hringja á fjölmiðlamenn og fá þá á staðinn til að taka af sér myndir með úttektarmiðann. Og þó að þessi atburður sé ekki stór í stjórnmálasögunni, þá er hann á sinn hátt lýsandi fyrir sumt af því sem greinir núverandi formann Sjálfstæðisflokksins frá ýmsum öðrum stjórnmálaforingjum. Það er óhætt að fullyrða að ýmsir stjórnmálamenn hefðu aldrei lagt í það að bregðast á nokkurn hátt við því sem gerst hafði í Búnaðarbankanum og ef fréttamenn hefðu náð í þá, þá hefði í mesta lagi fengist frá þeim almennt moð. Svo eru aðrir stjórnmálamenn sem hefðu brugðist við með látum og gætt þess vel að kvikmyndavélarnar fylgdu þeim hvert fótmál. Þeir hefðu ekki unnið sér til lífs að ganga niður í bankann og taka peningana sína út – en engin mynd!
Stjórnmálamenn eru mikið fyrir það að komast í fjölmiðla. Þeir senda sumir út um sig látlausar fréttatilkynningar. Mega varla ræskja sig án þess að senda um það sérstaka tilkynningu. Af hverju halda menn til dæmis að það sé alltaf verið að segja fréttir af asnastrikum sem reglulega eru dregin á heimasíðum þingmanna? Halda menn kannski að fréttamennirnir séu sífellt að lesa þessar síður? Nei, stjórnmálamennirnir eru sífellt að senda frá sér tilkynningar um nýtt gjamm, sem yfirleitt er stóryrtara en það síðasta svo höfundurinn komist nú örugglega að í fréttatímanum og helst snemma. Þegar þingið situr þá senda þeir sumir út sérstakar fréttatilkynningar um að þeir hyggist segja eitthvað síðar um daginn; spyrja einhvers, gagnrýna einhvern. Og alltaf skal einhver fréttamaður bíta á agnið og halda að hlutur verði fréttnæmur við það að um hann sé send fréttatilkynning.
Svo eru stjórnmálamenn alltaf að reyna að falla í kramið. Sumir stjórnmálamenn, og jafnvel heilir flokkar, virðast þannig ekki hafa aðra meginsannfæringu en þá sem lesa má út úr þjóðarpúlsi Gallups hverju sinni. Vinsældaleitin, og systir hennar, hræðslan við óvinsældirnar, getur af sér tvær útgáfur af stjórnmálamönnum, vindhanann og strútinn. Vindhaninn segir eitt í dag og annað á morgun, allt eftir því hvernig vindurinn blæs. Það er afar sjaldgæft að sjá slíka stjórnmálamenn taka afstöðu sem fyrirfram er vitað að mun mæta andstöðu meirihluta manna. Hin tegundin, strúturinn, sveiflast ekki til með sama hætti og jafnvel alls ekki. En hann forðast sem mest hann má að láta á sér brjóta. Strúturinn beitir hefðbundinni varnaraðferð tegundarinnar og vonar að öll átök gangi yfir á meðan hann stendur vaktina í sandinum. Báðar eru þessar tegundir heldur hvimleiðar og lítt til forystu fallnar. En þó það sé sagt, þá má ekki misskilja það svo, að ætlast eigi til þess af stjórnmálamönnum að þeir beygi sig ekki fyrir betri rökum ef þau koma fram, eða standi í sífelldum illdeilum. Nei, vindhaninn og strúturinn eru leiðindafuglar af því að það er í raun ekkert gagn í öðrum stjórnmálamönnum en þeim sem starfa eftir ákveðnum grundvallarsjónarmiðum sem ekki breytast eftir glamrinu í dægurumræðunni, og sem treysta sér til þess að hætta tímabundnum vinsældum til þess að berjast fyrir því sem þeim þykir rétt og gegn því sem þeim þykir rangt.
Hvaða skoðun sem menn hafa á formanni Sjálfstæðisflokksins, þá eru þeir sennilega flestir sammála um að hann sé hvorki vindhani né strútur. Eins og ótrúlegustu menn viðurkenndu í fjölmiðlum í gær, þá er stjórnmálaferill hans einstaklega merkur í sögu landsins og hyggst þjóðmálavefrit eins og Vefþjóðviljinn líta af og til á þann feril á næstu vikum.