Miðvikudagur 7. september 2005

250. tbl. 9. árg.
Fríverslun við Færeyjar vísar veginn.

Fyrir viku undirrituðu Davíð Oddsson utanríkisráðherra og Jóhannes Eidesgaard lögmaður Færeyja samning um að koma á fót sameiginlegu efnahagssvæði Íslands og Færeyja. Samningurinn gerir vöru- og þjónustuviðskipti milli ríkjanna frjáls, sem er fagnaðarefni. Samningurinn markar nokkur tímamót í viðskiptasögu Íslendinga því hann er ólíkur öðrum fríverslunarsamningum sem Íslendingar hafa gert að því leyti að hann nær einnig til landbúnaðarafurða. Samkvæmt samningnum munu íslenskir ríkisborgarar og íslensk fyrirtæki njóta sömu réttinda í Færeyjum og Færeyingar og færeysk fyrirtæki. Á sama hátt munu Færeyingar og færeysk fyrirtæki njóta sömu réttinda hér og landi og íslenskir ríkisborgara og íslensk fyrirtæki.

Færeyingar eru að sönnu ekki stórtæk landbúnaðarþjóð og ekki víst að íslenskur landbúnaður muni mæta mikilli samkeppni þaðan í fyrstu. En þessi samningur er mikilvægt fordæmi og vonandi upphafið að öðru og meira. Í samningnum er raunar ákvæði sem gerir Grænlendingum kleift að gerast aðilar að honum þegar fram líða stundir. Annað sem vekur athygli er að ekki er gert ráð fyrir sérstökum eftirlitsstofnunum til að fylgja samningnum eftir. Utanríkisráðherra sagði við undirskrift samningsins að ekki þyrfti „nein eftirlitströll til að halda mönnum við efnið“.

Samningurinn sem kenndur er við Hoyvík í Færeyjum er ekki aðeins ánægjulegur fyrir Íslendinga þeirra sjálfra vegna. Það er jafnframt gleðiefni fyrir Íslendinga að stuðla að fríverslun grannþjóðar. Morgunblaðið hafði eftir lögmanni Færeyja að þótt Ísland væri ekki stórt land á heimsmælikvarða væri það sexfalt á við Færeyjar. Samningurinn er því stórt skerf fyrir Færeyinga. „Hér er um að ræða sögulegan samning sem hefur mikla þýðingu fyrir Færeyjar. Með þessum samningi erum við að stíga fyrsta skrefið í þá átt að opna samfélagið fyrir umheiminum,“ sagði lögmaður Færeyinga að þessu tilefni. „Og við getum í raun tekið okkur Íslendinga til fyrirmyndar og lært af þeim á öllum sviðum þjóðlífsins,“ bætti hann við.