Meðal þess sem bæði fylgjendur og andstæðingar samruna ríkja Evrópu í eitt ríki undir hatti Evrópusambandsins telja málstað sínum til framdráttar eða stöðlunarárátta sambandsins. Fylgjendur Evrópusambandsins telja að með sameiginlegum stöðlum um vöru og þjónustu geti neytendur verið vissari um sinn hag og þurfi ekki að óttast að kaupa köttinn í sekknum því stöðlun tryggi ákveðin lágmarksgæði. Andstæðingar Evrópusambandsins benda aftur á móti á að ekki sé æskilegt að stöðlun og önnur gæðavottun gerist með tilskipunum stjórnvalda. Æskilegra sé að fyrirtækin sjálf taki slíkt upp hjá sér sem lið í að höfða til neytenda. Staðlar og önnur gæðakerfi þurfti auk þess á samkeppni að halda eins og aðrar vörur og þjónusta og því sé það beinlínis gegn hagsmunum neytenda að njörva staðlana niður með reglugerðum og tilskipunum eins og Evrópusambandinu hættir til að gera. Það sé ekki neytendum í hag að vöruþróun og aðrar farmfarir séu stöðvaðar með tilskipunum.
Á dögunum var svo sagt frá því í fréttum að meðal 20 bestu háskóla í heimi væru 17 í Bandaríkjunum, tveir í Bretlandi og einn í Japan en enginn á meginlandi Evrópu. Það virðist því ekki mikil ástæða til að leita fyrirmynda í Evrópu um hvernig háskólar eigi að vera. Meginástæðan fyrir þessari niðurstöðu er talin sú að háskólar í Bandaríkjunum eru mun fjölbreyttari en í Evrópu, bæði hvað fjármögnum og annan rekstur varðar og kennsluna sjálfa. Þetta er áhugavert fyrir Íslendinga því sumir hafa viljað að Ísland verði hluti af Evrópuríkinu með þeim stöðlunum sem því fylgir, meðal annars í menntamálum.
„…að þarna er bent á enn eitt sviðið þar sem „Evrópuhugsjónin“, sem sumir vilja kalla svo, þvælist fyrir framförum og reynir að fella allt í sömu meðalmennskuna, og tæplega það.“ |
Um síðustu helgi raunar fram gagnrýni á menntastefnu Evrópusambandsins í ræðu rektor eins af íslensku háskólunum. Það má segja að gagnrýnin hafi komið úr óvæntri átt því það var rektor viðskiptaháskólans að Bifröst, Runólfur Ágústsson, sem notaði setningarræðu sína vegna 88. starfsárs skólans til þess að koma henni á framfæri. Runólfur fór fyrst nokkrum orðum um þær miklu framfarir sem orðið hefðu í háskólamálum hér á landi á undanförnum árum, sem hann sagði að mestu þeirri opnun að þakka sem stjórnvöld menntamála hafi beitt sér fyrir á undanförnum árum. Hann lýsti að því búnu áhyggjum yfir því að nú væri þrýst á um að í frumvarpi sem unnið væri að í menntamálaráðuneytinu yrði skýr tilvísun til hins samevrópska háskólasvæðis, sem taka ætti gildi árið 2010. „Með slíku yrðu íslenskir háskólar hluti af hinu samevrópska háskólasvæði og þeir staðlar og þau viðmið sem þar gilda, myndu fá lagagildi hér,“ sagði rektor.
Hann spurði hver yrði raunveruleg þýðing þessa og svaraði spurningunni sjálfur: „ Í fyrsta lagi myndum við með slíku í raun framselja fullveldi okkar Íslendinga yfir háskólunum til hins yfirþjóðlega valds ESB. Reglur um evrópska háskóla myndu gilda hér og breytingar á þeim reglum myndu sjálfkrafa öðlast gildi hérlendis. Um slíka grundvallarbreytingu þarf að fara fram víðtæk umræða, en ég tel að sjálfstæð þjóð eigi að reka sjálfstæða háskóla á sínum eigin sjálfstæðu forsendum. Framsal á slíku sjálfstæði er óþarft og skaðlegt.“
Í öðru lagi sagði Runólfur að breytingarnar sem þessu fylgdu myndu skerða fjölbreytni íslenskra háskóla og hann velti því í þriðja lagi fyrir sér hversu eftirsóknarvert það væri að fella íslenska háskóla að evrópskum stöðlum. Hann taldi það greinilega ekki mjög eftirsóknarvert og varaði við því að „evrópsk viðmið“ yrðu lögð til grundvallar í háskólum hér á landi og sagði evrópska háskólakerfið einkennast af þrennu: „Stöðlum, ríkisrekstri og miðstýringu.“
Rektor Bifrastar hélt áfram og sagði: „Í þessu sambandi minni ég á að staða evrópskra háskóla er í raun sú, að enginn slíkur, utan Bretlandseyja, nær því að teljast meðal bestu háskóla heimsins, í alþjóðlegum samanburði. Flestir þeirra eru staðsettir vestanhafs. Í löndum eins og Kanada, Bandaríkjunum, Ástralíu og víðar einkennist háskólakerfið af samkeppni, krafti og fjölbreytni. Þessir þrír þættir einkenna nú einnig íslenskt háskólakerfi og þeim megum við ekki fórna á altari hinna evrópsku gilda. Slíkt væri afturför.“
Gagnrýni Runólfs Ágústssonar á Evrópusambandið er eins og áður segir óvænt en um leið athyglisverð. Hún er athyglisverð vegna þess að þarna er bent á enn eitt sviðið þar sem „Evrópuhugsjónin“, sem sumir vilja kalla svo, þvælist fyrir framförum og reynir að fella allt í sömu meðalmennskuna, og tæplega það. En gagnrýnin er um leið athyglisverð vegna þess að flest þau orð sem Runólfur lætur falla um háskóla og Evrópusambandið á jafn vel við um flest annað. Staðlar og miðstýring Evrópusambandsins eru ekkert betri á öðrum sviðum en á sviði háskólamenntunar og þess vegna er full ástæða til að taka varnaðarorð rektors Bifrastar alvarlega, jafnt á því sviði sem honum stendur næst sem á öllum öðrum.