Föstudagur 19. ágúst 2005

231. tbl. 9. árg.
Við í Samfylkingunni settum okkur starfs- og siðareglur 1999 en eftirfylgni þeirra hefur fjarað út því það er enginn til að fylgja þeim eftir.
– Lúðvík Bergvinsson alþingismaður Samfylkingar í Fréttablaðinu 1. maí 2005.

Hve oft hafa þingmenn Samfylkingarinnar ekki hælst um vegna starfs- og siðareglna flokksins, ekki síst því að þingmenn flokksins sitji ekki í stjórnum og ráðum utan þings? Hve oft hafa þeir lofað opnu bókhaldi flokksins? Að minnsta kosti oftar en Vefþjóðviljinn hefur tölu á. Það er auðvitað leitun að þeim manni sem bíður þess enn í einlægni að Samfylkingin opni bókhald sitt. Flokkurinn hefur lofað því frá árinu 1999 en ekkert bólar á bókhaldinu.

Hinu trúðu margir alveg fram á síðustu misseri að sérstakar starfs- og siðareglur sem flokkurinn setti sér árið 1999 væru einhvers virði. En Lúðvík Bergvinsson þingmaður flokksins lýsti því nánast yfir í Fréttablaðinu í vor að í raun væru reglurnar orðin tóm. Þess vegna situr Helgi Hjörvar sem fastast í stjórn Landsvirkjunar, í stjórn Faxaflóahafna og í stjórn annars af fasteignafélögum Reykjavíkurborgar, Fasteignastofu Reykjavíkur. Rannveig Guðmundsdóttir situr auðvitað í stjórn Norræna menningarmálasjóðsins. Einar Már Sigurðarson tekur sig vel út stjórn Lánasjóðs landbúnaðarins. Nýr formaður og þingmaður flokksins Ingibjörg Sólrún Gísladóttir er öðrum þingmönnum flokksins góð fyrirmynd sem bankaráðsmaður í Seðlabanka Íslands.

Í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi sagði Kristján Möller þingmaður Samfylkingarinnar að þingflokkurinn treysti sér ekki til að banna þingmönnum að taka tilnefningum sveitarstjórna í ráð og stjórnir. Ingibjörg Sólrún Gísladóttur sagði í sömu fréttum að siðareglur Samfylkingarinnar ættu aðeins við um  „viðskipta- og fjárfestingabanka“ þar sem hætta væri á hagsmunaárekstrum. En er ekki búið að einkavæða viðskiptabankana? Þótt Samfylkingin hafi reynt að tefja einkavæðingu bankanna sem mest hún mátti tókst nú samt að einkavæða þá og er þá ekki lítil hætta á að Alþingi skipi menn í stjórnir þeirra úr þessu?