Fimmtudagur 18. ágúst 2005

230. tbl. 9. árg.

Ætli margir haldi að sérhagsmunapots-stjórnmálamenn heyri eingöngu sögunni til? Sjái fyrir sér þrútinn framsóknarmann af gamla skólanum, sem litið hafi á stjórnmálastörf sín sem aðferð við að draga sem mest fé heim í hérað? Sérhagsmunastjórnmálamenn eru hins vegar til á öllum tímum. Um næstu mánaðamót sest nýr maður á þing fyrir Samfylkinguna í suðvesturkjördæmi, Valdimar L. Friðriksson, framkvæmdastjóri íþróttafélagsins Aftureldingar og formaður UMSK. Í fyrradag var rætt við hann í Fréttablaðinu og segir þar:

„Ég vil strax leggja áherslu á fasta fjárveitingu til sérsambanda Íþrótta- og ólympíusambands Íslands“ segir Valdimar sem starfað hefur í íþróttahreyfingum í tuttugu ár.

Í Morgunblaðinu var sama dag einnig sagt frá væntanlegum þingmanni, sem sagði að þingmannsstarfið legðist vel í sig:

„Spurður um helstu áherslumálin segir hann það vera málefni íþróttahreyfingarinnar. Sitt fyrsta verk verði að beita sér fyrir því að föst 100 milljóna króna fjárveiting komi árlega til sérsambanda ÍSÍ.“

Í viðtali við Fréttablaðið segir Valdimar jafnframt að þegar hann setjist á þing ætli hann að láta af öðrum störfum en formennsku íþróttafélagsins UMSK.
Til að tryggja að 100 milljónunum verði vel varið ætlar Valdimar að vera áfram formaður UMSK og fylgjast með milljónunum eytt þegar hann hefur lokið sínu „fyrsta verki“ og herjað þær út úr skattgreiðendum.

Algengt er að fréttir hefjist með þeim hætti að eitthvað er haft eftir einhverjum og þá oft án þess að nokkur skýring sé gefin á því af hverju talað var við þann mann eða hvort hann viti eitthvað um málefnið sem aðrir menn viti ekki. Stundum er látið nægja að benda á einhvern titil sem maðurinn ber, kannski „prófessor“, eða þá titil sem fréttamaður bara ákveður að maðurinn skuli bera, kannski „sérfræðingur í…“. Undanfarið hefur nokkuð verið rætt um þann mun sem sumir telja að sé á íslensku háskólunum, en grein eftir Rúnar Vilhjálmsson prófessor vakti umræðuna að þessu sinni. Ekki gerir Vefþjóðviljinn athugasemdir við þá umræðu eða fréttir af henni, enda virðist til hennar stofnað með eðlilegri hætti en í mörgum öðrum tilfellum. En þessi tvö atriði, „fréttir“ sem fengnar eru með því að fréttamaður fer og finnur einhvern sem segir eitthvað sem fréttamanninn langar að senda út, og svo áhugaverð sjónarmið Rúnars Vilhjálmssonar um íslenska háskóla leiða hugann að einum af hinum athyglisverðu pistlum Ólafs Teits Guðnasonar um fjölmiðla, sem gefnir hafa verið út á bók. Í einum pistli bókarinnar segir hann meðal annars:

Eftir að hafa misst af meginhluta fréttatíma Útvarpsins á sunnudagskvöld þurfti ég að treysta á yfirlit yfir helstu fréttir sem lesið er í lok fréttatímans. Og þar var meðal annars lesin þessi frétt: „Farið væri gegn lýðræðislegri hugsun ef ¾ kjósenda þyrftu að taka þátt í þjóðaratkvæðagreiðslu svo að hún væri gild, segir prófessor við háskóla Íslands.“ Það segir mér nákvæmlega ekki neitt, og í því felast nákvæmlega engin tíðindi, að einhver „prófessor við Háskóla Íslands“ hafi einhverja skoðun. En einhverra hluta vegna eru prófessorar, dósentar og lektorar í guðatölu hjá mörgum fréttamönnum ljósvakamiðlanna. Óþarft að segja frá því hver talar; nóg að vita að það kemur „að ofan“. Þegar hlustað er á fréttina á netinu kemur í ljós að þetta var Rúnar Vilhjálmsson, prófessor í félagsfræði. Nú skal tekið fram að ég hef enga ástæðu til að ætla annað en Rúnar sé hinn mætasti maður. Ég hef ekki nokkurn skapaðan hlut upp á hann að klaga. En hvers vegna leitaði Útvarpið til hans – frekar en til dæmis til mín? Engin vísbending var gefin um það í fréttinni. Er Rúnar sérfróður um lýðræði? Hefur hann rannsakað kosningareglur? Eða hefur hann kannski lagt fyrir sig réttarheimspeki eða þess háttar? Enn þurfti að leita á náðir netsins til að afla upplýsinga. Á vef Háskólans kemur fram að Rúnar Vilhjálmsson er prófessor í félagsfræði við hjúkrunarfræðideild! Hann er tók próf til M.Sc. gráðu í félagsfræði með áherslu á heilsuvandamál/heilbrigðisþjónustu. Heilsuvandamál voru einnig, ásamt töl- og aðferðafræði, aðalgrein hans til doktorsprófs. Aukagreinin var heilbrigðisfræði með áherslu á stjórnun heilbrigðisstofnana og faraldsfræði. Mastersritgerðin hér „Sex differences in physician utilization: An evaluation of alternative hypotheses.“ Doktorsritgerðin hét „Social Support and Mental Health“ og fjallar um gerð og áhrif samhjálpar. Útvarpið þarf að útskýra hvaða sérfræðiþekkingu Rúnar Vilhjámsson hefur til að bera, sem réttlætir að til hans sé leitað um álit á því hvort rétt sé að setja skilyrði um þátttöku í þjóðaratkvæðagreiðslu um lög á eignarhald á fjölmiðlum. Nema ætlunin sé að tala við hvern einasta prófessor á Íslandi, t.d. einn á viku.

Vitaskuld hefur Útvarpið engu svarað um það hvers vegna fréttamanni datt í hug að hafa samband við prófessor Rúnar. Eða hvers vegna hlustendur fengu ekkert að vita um það í hverju Rúnar er sérfróður og í hverju ekki. Fjölmiðlar hafa raunar ekki gert mikið af því að svara athugasemdum og gagnrýni Ólafs Teits, hvort sem það er nú af því að þeir telji hann alls ekki svaraverðan eða vegna þess að svör séu ekki á reiðum höndum.