Miðvikudagur 17. ágúst 2005

229. tbl. 9. árg.
„Argentína er okkur mjög fjarlægt land sem við vitum ekki mikið um. Það er því mikilvægt að fara miklu betur yfir þetta.“
– Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra í Morgunblaðinu 15. ágúst 2005.

G

Nautgripahjörð í Patagóníu, suður í Argentínu.

uðni Ágústsson landbúnaðarráðherra hafnaði nýverið umsókn kjötinnflytjanda um að flytja inn nautakjöt frá suðurhluta Argentínu. Yfirdýralæknir hafði þó veitt jákvæða umsögn um innflutninginn enda ekki greinst gin- eða klaufaveiki í þessum hluta Argentínu og landið allt verið laust við veikina í tvö ár. Argentína er þar að auki ekki aðeins fjarlæg Guðna Ágústssyni heldur áttunda stærsta land í heimi og strjálbýlt.

Lögum samkvæmt hefur landbúnaðarráðherra vald til að ákveða hvort flytja megi inn ákveðnar landbúnaðarvörur að fenginni umsögn yfirdýralæknis. Þrátt fyrir að yfirdýralæknir hafi talið óhætt að flytja kjötið inn notaði landbúnaðarráðherra engu að síður þau rök gegn innflutningsheimild að hætta sé á að gin- og klaufaveiki berist hingað. Guðni hefur því enga ástæðu til að ætla að umrætt kjöt sé sýkt og hefur ráðleggingar yfirdýralæknis um að óhætt sé að flytja það til landsins. En allt kemur fyrir ekki. Nú má auðvitað vera að Guðni sé betri dýralæknir en yfirdýralæknir og auðvitað er það landbúnaðarráðherra sem situr uppi með ábyrgðina ef hann heimilar innflutning á sýktu kjöti. Þess er þó líklega langt að bíða að landbúnaðarráðherra hunsi ráðleggingar yfirdýralæknis ef þær eru á hinn veginn. Sennilega getur yfirdýralæknir aðeins haft rangt fyrir sér á annan veginn að mati ráðherrans. Það er auðvitað ekkert nýtt, hvorki hér né annars staðar, að ýmsar reglur um heilbrigði og hollustu séu einfaldlegar hreinar viðskiptahindranir í stað þess að vera almennar leikreglur. Hættan á að slíkum reglum sé misbeitt á þann veg eykst svo til muna þegar yfirvaldið er eindreginn stuðningsmaður innlendrar framleiðslu og vill allt fyrir hana gera. Það eykur svo ekki trúverðugleikann að landbúnaðarráðuneytið gerir allt hvað það getur að spilla fyrir þeirri fríverslun sem Alþjóðaviðskiptastofnunin reynir að stuðla að.

Annað sem vekur athygli í þessu máli er að Morgunblaðið lýsti yfir stuðningi við ákvörðun landbúnaðarráðherra í leiðara síðastliðinn laugardag. Morgunblaðið hefur á liðnum misserum haft sér fátt annað til ágætis en að blaðið hefur gefið til kynna að það vilji draga úr stuðningi skattgreiðenda við íslenskan landbúnað. Það er að vísu í hróplegu ósamræmi við stefnu blaðsins í flestum öðrum málum sem einkennist af sífelldum kröfum um ríkisafskipti, aukin opinber útgjöld og reglusetningu. Og þegar til stykkisins kemur er blaðið málsvari kerfisins gegn neytendum í landbúnaðarmálum sem öðrum. Verð á nautakjöti hefur snarhækkað að undanförnu og innlend framleiðsla annar vart eftirspurn. Yfirdýralæknir gerir ekki athugasemdir við innflutning en landbúnaðarráðherra og Morgunblaðið standa vörð um kerfið.