Þriðjudagur 16. ágúst 2005

228. tbl. 9. árg.

Þ

Við Margrét munum skipa efstu sætin.

eir eru lýðræðissinnaðir hjá Frjálslynda flokknum og mikið fyrir að láta almenna flokksmenn ráða sem mestu. Á laugardag ræddi Morgunblaðið við Ólaf F. Magnússon borgarfulltrúa um framboðsmál í Reykjavík og hugsanleg örlög R-listans. Blaðið hefur eftir Ólafi: „Við Margrét Sverrisdóttir, sem sem munum skipa tvö efstu sætin á F-listanum, erum staðráðin í því að ná bæði kjöri í næstu kosningum og verða stærri en Framsóknarflokkurinn í borgarstjórn.“ Ekki kemur fram í fréttinni hver hafi valið þau til framboðs en eftir Ólafi er haft að „svo virðist sem breið samstaða ríki innan F-listans um uppstillingu á framboðslistann“. Þá vita menn það. Ólafur og Margrét verða í efstu sætunum og svo virðist að um það ríki breið samstaða.

Raunar mun F-listinn hafa verið lagður fram sem „listi frjálslyndra og óháðra“. Sem minnir á þá skemmtilegu hugmynd að einn af borgarfulltrúum R-listans, Dagur B. Eggertsson, sé „óháður“ í borgarstjórn eða á einhvern hátt „fulltrúi óháðra“. Fréttamenn tala um hann sem „fulltrúa óháðra“ og Ríkissjónvarpið sendi meira að segja á dögunum út sérstakan furðuþátt undir nafninu „kastljós“ þar sem Dagur var spurður hvort hin og þessi mál hefðu verið rædd í „hópi óháðra“ og bæði umsjónarmenn, einkum þó annar þeirra, og Dagur sjálfur létu út allan þáttinn eins og þau tryðu því að Dagur væri „fulltrúi óháðra í borgarstjórn“, en ekki einfaldlega einn af borgarfulltrúum R-listans, rammpólitískur.

Geta nú þeir fréttamenn sem kalla Dag B. Eggertsson „fulltrúa óháðra“ svarað nokkrum mjög einföldum spurningum: Hvernig völdu „óháðir“ Dag B. Eggertsson sem fulltrúa sinn? Er það misminni að Dagur B. Eggertsson hafi verið valinn á R-listann, persónulega af Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, nú formanni Samfylkingarinnar? Ef það er ekki misminni, er hann þá ekki fremur fulltrúi hennar en „óháðra“ á R-listanum? Er Ingibjörg Sólrún kannski óháð? Og hvað með „óháða“ á F-listanum, hvaðan koma þeir? Klofnuðu óháðir í Ólaf F. Magnússon og Dag B. Eggertsson?

ÞÞað er svo annað mál, svona í samhengi við orð Ólafs F. Magnússonar um væntanlegt framboð sitt, að auðvitað á hver stjórnmálaflokkur að ráða því hvernig hann velur frambjóðendur á lista sinn og hvort hann ber það val undir fleiri eða færri flokksmenn. Og vissulega eru flestar aðferðir hreinlegri en til dæmis samfylkingarlýðræðið sem sérstaklega einn flokkur hefur oft stuðst við, þar sem haldin eru prófkjör með mikilli auglýsingu og ljósasýningu, en niðurstöðum kjósenda svo breytt eftir á með þeim hætti að menn sem fengu öruggt sæti komast ekki að, en neðri frambjóðendur fljúga inn. Stundum er komist fram hjá vali kjósenda með einhvers konar „kynjakvóta“, eða „flokkakvóta“ ef flokkurinn er í kosningabandalagi, en stundum er einfaldlega beitt afli og undirróðri, eins og til dæmis þegar Sigbjörn Gunnarsson var þvingaður úr því efsta sæti Samfylkingarinnar sem hann var kjörinn til í þingprófkjöri, en Svanfríði Jónasdóttur fengið sætið. Hún varð síðar þingmaður en Sigbjörn fór heim.

Það er svo dæmigert að þeir flokkar sem nota kvóta til þess að breyta vali flokksmanna sinna, það eru þeir sömu og tala um aðra sem „kvótaflokkana“.