Mánudagur 15. ágúst 2005

227. tbl. 9. árg.

R-listinn fékk heldur kaldar kveðjur frá Ágústi Ágústssyni, nýkjörnum varaformanni Samfylkingarinnar, í Ríkisútvarpinu á föstudaginn. Í viðtali á morgunvaktinni kom eindregið fram sú skoðun hans að samstarf flokkanna sem mynda listann væri úr sér gengið og vart á vetur setjandi. R-listinn hafi þjónað ákveðnu hlutverki þegar hann kom fyrst fram en nú væri kominn tími til að beita annarri aðferð. Þá bætti hann við að valkostir borgarbúa í kosningunum yrðu meira spennandi ef flokkarnir byðu fram sér. Þetta sjónarmið kemur í sjálfu sér ekki á óvart, enda hafa svipuð ummæli heyrst að undanförnu frá mörgum innan flokksins, og reyndar líka úr röðum hinna flokkanna. Þannig hafa allar ungliðahreyfingar flokkanna ályktað í þá veru, að flokkarnir skuli frekar bjóða fram hver í sínu lagi en sameiginlega.

Það voru hins vegar fleiri sem fengu kaldar kveðjur í þessu viðtali. Fulltrúar Samfylkingarinnar í borgarstjórn hljóta líka að velta fyrir sér stöðu sinni eftir þetta viðtal. Ágúst sagði að í kosningaundirbúningi Samfylkingarinnar þyrfti að bjóða upp á ný og spennandi málefni og vonaðist líka eftir einhverri endurnýjun í mannskapnum. Síðar í viðtali ítrekaði hann þetta og talaði um nauðsyn þess að fá inn í borgarmálin nýjar hugmyndir og nýtt fólk. Þetta er vissulega umhugsunarefni fyrir borgarfulltrúana, þau Steinunni Valdísi Óskarsdóttur borgarstjóra, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, formann flokksins, og Stefán Jón Hafstein, formann menntaráðs Reykjavíkur og fyrrverandi formann framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar.