Helgarsprokið 14. ágúst 2005

226. tbl. 9. árg.

Stundum er erfitt trúa lýsingum utanaðkomandi á aðstæðum manna í Afríku. Það er svo sláandi hvernig stór hluti Afríkumanna hefur setið eftir á meðan aðrir jarðarbúar eru á hraðferð til frelsis, lýðræðis og bættra kjara. Þess vegna er fróðlegt að heyra skýringar innfæddra á þeirri viðvarandi harðstjórn og fátækt sem Afríkumenn þurfa að þola.

George Ayittey, hagfræðingur við American University í Washington D.C. og forseti Free Africa Foundation, er fæddur í Ghana og þekkir af eigin raun hvernig er að búa við harðstjórn og eymd. Hann flutti ræðu á fundi hjá Foundation for Economic Education í New York í vor þar sem hann lýsti afleiðingum af sósíalisma í Afríku. Hún birtist svo í fréttablaði FEE nú í maí.

Ayittey lýsir því í erindi sínu hvernig hver þjóðin á fætur annarri fékk sjálfstæði frá nýlenduveldunum á sjöunda áratug síðustu aldar. Nýir þjóðfánar blöktu við hún og nýir þjóðsöngvar hljómuðu vítt og breitt um álfuna. Vonin um sjálfstæði, lýðræði og efnahagslegar framfarir virtist ætla að verða að veruleika. En draumurinn rættist aldrei.

Gríðarlegar náttúruauðlindir álfunnar, gull, demantar og flest önnur verðmæt steinefni og málmar, nýttust ekki til að lyfta Afríkumönnum úr fátækt. Það er sama hvaða mælikvarði er notaður, mikill meirihluti Afríkumanna er verr settur nú en fyrir 40 árum. Það eina sem hefur breyst er liturinn á harðstjórunum. Hann hefur dökknað.

En hvers vegna fór svona margt úrskeiðis í Afríku að mati Ayittey?

Í fyrsta lagi var lýðræði og valddreifingu hafnað sem „vestrænni uppfinningu“ og „heimsvaldafyrirbæri“. Einungis fjögur lönd tóku ekki upp einsflokksræði þar sem völd söfnuðust á eina hendi. Menn þurfa ekki að vera snillingar til að átta sig á að slík valdasamþjöppun leiðir til harðstjórnar. Sovétríkin voru víti til varnaðar.
Í öðru lagi höfnuðu hinir nýju leiðtogar Afríku kapítalisma. Þeir fyrirlitu og vantreystu frjálsum markaði. Að hluta til var það vegna þess að þeir álitu kapítalismann ranglega vera framlengingu á nýlendu- og heimsvaldastefnu. Þegar Afríka fékk frelsi litu margir þeirra á frelsið sem frelsi frá kapítalisma, frjálsum viðskiptum og erlendri fjárfestingu. Allt var þetta talið hluti af erlendu arðráni. Leiðtogarnir töldu með öðrum orðum vænlegast að notast við sósíalisma að sovéskri fyrirmynd til að tryggja nýfengið sjálfstæði í sessi og bæta hag landa sinna.

Ayittey segir að þessi sósíalíska stefna hafi eðlilega valdið mikilli útþenslu á ríkisvaldinu. Allt land sem ekki var þegar nýtt var þjóðnýtt og sömuleiðis mörg erlend fyrirtæki. Alls kyns höft fylgdu í kjölfarið meðal annars verðlagshöft til að tryggja höfðingjunum í stjórnaraðsetrum í borgunum ódýran mat frá bændum í sveitum. Þegar höftin fóru að segja til sín í skorti á ýmsum vörum myndaðist eðlilega svartur markaður með tilheyrandi mútum og spillingu. Í kjölfarið fylgdi svo að bæði Vesturlönd og löndin í austurblokkinni vörðu stórfé í aðstoð við Afríkuríkin með fyrirsjáanlegum árangri.

* Norsk stjórnvöld vörðu 25 milljónum dala til að setja upp fiskverkun og frystihús fyrir ættbálk í Kenýa. Þegar verksmiðjan hafði verið reist uppgötvaðist smávægilegt vandamál: ættbálkurinn veiddi ekki fisk heldur hélt geitur.
* Bandaríkin vörðu stórfé í byggingu á 50 hlöðum fyrir uppskeru bænda í Senegal. Bændur áttu aldrei leið um staðina sem þær voru byggðar.
* Sovétríkin létu af myndarskap reisa mjólkurbú í Babanúsa í Súdan. Babanúsamenn drekka mjólkina hins vegar beint af kúnni og engin leið var að flytja mjólkina annað. Ekki hefur verið sett mjólk á eina einustu flösku verksmiðjunni á þeim 20 árum sem liðin eru frá því hún var reist.
* Júgóslavar létu reisa niðursuðuverksmiðju fyrir mangó í Úganda. Verksmiðjan gat soðið meira niður af mangó en sem svaraði heimsmarkaði með niðursoðinn mangó.
* Ítalir byggðu bananapökkunarstöð í Sómalíu. Afkastageta verksmiðjunnar var svo mikil að hún hefði þurft að pakka hverjum einasta banana í Sómalíu oftar en einu sinni til að koma út á sléttu.

Ayittey segir að það blasi við hver munurinn sé á Afríku og öðrum löndum, til dæmis Bandaríkjunum, þegar menn skoði hverjir séu auðugastir meðal íbúanna. Í Bandaríkjunum sé það Bill Gates sem varð auðugur á frjálsum markaði með framleiðslu hugbúnaðar. Í Afríku séu þjóðhöfðingjarnir hins vegar ríkastir og þegar þeir hafi hrópað „sósíalisminn mun bjarga Afríku“ hafi þeir í raun átt við að sósíalískar inneignir á svissneskum bankareikningum yrðu þeim sjálfum bjargræði. Frá 1970 til 2000 hurfu til dæmis 35 milljarðar dala af olíuframleiðslutekjum ríkisstjórnar Nígeríu. Mobutu Sese Seko einræðisherra í Zaire sankaði að sér 10 milljörðum dala. Hann hefði getað greitt allar skuldir landsins með tékkhefti sínu. Forseti Nígeríu telur að frá því nýlendurnar fengu sjálfstæði hafi afrískir leiðtogar stolið 142 milljörðum dala frá þegnum sínum og það munar um minna fyrir fátækustu þjóðir heims. Á sama tíma og leiðtogarnir rýi þegna sína inn að skinni fari þeir með betlistaf til Vesturlanda og alþjóðastofnana.

Ayittey segir sósíalismann henta Afríku jafnilla og öllum öðrum og hann sé jafn fjarstæðukenndur þar sem annars staðar. Fyrir daga nýlendutímans hafi verið mikil hefð fyrir frjálsum viðskiptum og einkaeignarrétti á landi í Afríku. Að nýlendutímanum loknum hafi stjórnarherrarnir hins vegar haldið því fram að frjáls markaðsviðskipti væru hluti nýlenduveldisins. Þeir hafi því snúið sér til sósíalískra stjórnarhátta í stað þess að byggja á hinni afrísku hefð fyrir frjálsum viðskiptum.

Þrátt fyrir áratugalanga aðstoð og þrýsting um lýðræðislega stjórnarhætti hefur alþjóðastofnunum og vestrænum ríkjum lítið orðið ágengt. Árið 1990, eftir áratugalangt sjálfstæði, bjuggu aðeins fjögur Afríkuríki við lýðræði. Og enn sem komið er bjóða aðeins sextán Afríkuríki þegnum sínum upp á lýðræðislegt stjórnarfar.