Miðvikudagur 10. ágúst 2005

222. tbl. 9. árg.

Varaformaður Samfylkingarinnar og sá úr þeim flokki sem hefur verið talinn standa einna lengst til hægri, Ágúst Ágústsson, fékk tækifæri til þess í Fréttablaðinu í fyrradag að tjá sig um yfirstandandi skattalækkanir ríkisstjórnarinnar. Fréttablaðið hefur eftir Ágústi að það sé „ekki forgangsatriði að lækka tekjuskatt“, en sem kunnugt er hafa ríkisstjórnarflokkarnir samþykkt að halda áfram með lækkun tekjuskatts í hefðbundinni andstöðu við vinstri flokkana þrjá. Ágúst viðurkennir að vísu að nú sé svigrúm til skattalækkana, en vill aðeins að það verði notað til að lækka matarskattinn svo kallaða. Annað „megi svo skoða í framhaldinu“, enda kemur fram að Ágúst telur ríkisstjórnarflokkana ofmeta svigrúmið.

Auðvitað kemur engum á óvart þótt varaformaður Samfylkingarinnar telji ekkert svigrúm vera til alvöru skattalækkana og vilji bara fara út í lítilsháttar lækkun á virðisaukaskatti. Samfylkingin hefur aldrei – ekki frekar en aðrir stjórnarandstöðuflokkar – stutt nokkrar af þeim skattalækkunum sem farið hefur verið út í. Þessir vinstri flokkar finna sér ævinlega ástæðu til að vera á móti skattalækkunum. Tíminn er ekki réttur. Lækka ætti annan skatt. Ekki er búið að ræða lækkanirnar með réttum hætti. Aðferðin er röng, og svo framvegis. Rétt eins og þegar ríkisstjórnin hefur unnið að einkavæðingu. Sumir í stjórnarandstöðunni, til dæmis formaður Samfylkingarinnar, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, þykjast ekkert vera á móti einkavæðingu, en þegar á hólminn er komið finna þeir sér alltaf ástæðu til að vera á móti. Henni tókst jafnvel að finna að sölu Símans eftir að henni var lokið og fór í þeirri umræðu í keppni við Ögmund Jónasson um það hvort gæti amast meira við því að verið væri að selja „fjölskyldusilfrið“.

En svo vikið sé aftur að sköttunum þá er sjálfsagt að geta þess einnig sem vel er sagt í þeim efnum. Um síðustu helgi ritaði Jón Kaldal, aðstoðarritstjóri Fréttablaðsins, leiðara í blaðið um lækkun tekjuskatts. Hann minnir á þær tekjuskattslækkanir sem þegar hafi hafist og segir að samkvæmt heimildum Fréttablaðsins séu uppi áætlanir innan ríkisstjórnarinnar að lækka tekjuskattinn hraðar en áformað hafði verið. „Vonandi ganga þær áætlanir eftir. Nú er lag til þess að láta þjóðina njóta þess mikla uppgangs sem er í íslensku efnahagslífi,“ segir Jón og er óhætt að taka undir þennan jákvæða tón, sem er í miklu ósamræmi við stjórnarandstöðuna, bæði á þingi og innan ASÍ.

Jón Kaldal segir einnig að kunnugleg rök gegn skattalækkunum séu að þær komi þeim best sem hæst hafi launin, og bætir við: „Staðreyndin er hins vegar sú að skattalækkun kemur öllum vel sem borga skatta.“