Fimmtudagur 11. ágúst 2005

223. tbl. 9. árg.

Síðustu daga hafa tveir þungavigtarmenn úr Framsóknarflokknum lýst stuðningi við hugmyndir um að hækka fjármagnstekjuskatt í landinu. Á miðvikudaginn sagði Hjálmar Árnason þingflokksformaður í samtali við Fréttablaðið að vel kæmi til greina að hækka skattinn og Magnús Stefánsson, formaður fjárlaganefndar, tók undir þau sjónarmið í sama blaði í dag. Magnús var reyndar ögn varfærnari í orðum en Hjálmar en það á sér trúlega frekar skýringu í ólíkri skapgerð þeirra en skoðanaágreiningi.

Þessar yfirlýsingar hljóta að koma nokkuð á óvart. Framsóknarflokkurinn á aðild að samsteypustjórn þar sem þegar hefur verið mörkuð ákveðin stefna í skattamálum út þetta kjörtímabil. Fyrir kosningar lögðu báðir stjórnarflokkarnir áherslu á að nýta svigrúm vegna uppsveiflu í efnahagslífinu til skattalækkana, með það að markmiði að aukin hagsæld skilaði sér til alls almennings í landinu. Á þeim forsendum var einstökum skattalækkanaverkefnum skipað í forgangsröðun og þegar hafa ríkisstjórnarflokkarnir lögfest lækkun tekjuskatts um 4% á kjörtímabilinu, afnám eignarskatts og lækkun erfðafjárskatts, allt í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Þar til viðbótar hefur verið samþykkt að hinn svokallaði hátekjuskattur hverfi á næsta ári, en hann var sem kunnugt er lagður á til bráðabirgða fyrir 12 árum, í tíð samsteypustjórnar Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokksins sáluga.

Eina skattalækkunarverkefnið úr stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, sem enn er ófrágengið, er lækkun virðisaukaskatts. Í yfirlýsingunni var að vísu notað varfærnislegt orðalag og talað um að endurskoða virðisaukaskattskerfið til hagsbóta fyrir almenning. Öllum hefur verið ljóst frá upphafi að með því orðalagi væri verið að tala um lækkun, jafnvel þótt vitað væri að skoðanaágreiningur væri milli flokkanna um útfærslu. Frá því í kosningabaráttunni hefur legið fyrir að höfuðáhersla Sjálfstæðisflokksins hefur verið að lækka neðra þrep skattsins úr 14% í 7%, en í því þrepi er meðal annars meginþorri matvæla. Framsóknarflokkurinn hefur hins vegar einkum beint sjónum sínum að því að lækka eða afnema virðisaukaskatt á barnafötum. Af yfirlýsingum forystumanna Framsóknarflokksins í þinginu á síðasta vetri mátti ráða, að flokkurinn myndi ekki standa gegn lækkun matarskattsins og hafa því flestir metið stöðuna svo, að nú væri aðeins eftir tæknileg útfærsla þeirra breytinga, og búast megi við stjórnarfrumvarpi í þá veru nú á haustþingi.

Auðvitað er vitað til þess að innan flokkanna, einkum Sjálfstæðisflokksins, eru sterk sjónarmið um enn frekari skattalækkanir, enda af nógu að taka í þeim efnum. Þegar áætlaðar skattalækkanir verða komnar til framkvæmda hefur verið lokið stærsta skattalækkunarátaki Íslandssögunnar. Hvergi í samþykktum ríkisstjórnarinnar er hins vegar að finna nein áform um skattahækkanir af einhverju tagi. Það eru því töluverð nýmæli að stjórnarliðar gangi fram fyrir skjöldu og orði tillögur í þá veru, alveg ótilneyddir. Það er líka vert að vekja athygli á því að fyrir síðustu kosningar komu engar tillögur í þessa veru frá Framsóknarflokknum. Þær er heldur ekki að finna í samþykktum flokksþinga framsóknarmanna á síðustu árum. Einu tillögurnar um skattahækkun af þessu tagi er að finna í þingmálum Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs og stefnuyfirlýsingum Samfylkingarinnar og vekur furðu að þingmenn Framsóknarflokksins skuli leita sér fyrirmynda í þeim herbúðum á sviði skattamála.