Þriðjudagur 9. ágúst 2005

221. tbl. 9. árg.

Eins og fjallað var um hér fyrir nokkrum dögum gerðust þau undur og stórmerki nýverið að skattur nokkur var lagður á landsmenn í síðasta sinn þegar eignarskatturinn rann sitt skeið á enda. En fleira fáheyrt á sér stað um þetta leyti. Um síðustu helgi lagði þingmaður fram tillögu um sparnað í ríkisrekstrinum sem nemur allt að 5 milljörðum króna á ári. Það er því miður fátítt að þingmenn leggi fram sparnaðartillögur og þegar þær nema þúsundum milljóna króna er viðbúið að menn þurfi nokkra stund til að átta sig.

Í grein í Morgunblaðinu á laugardaginn færði Einar K. Guðfinnsson þingflokksformaður Sjálfstæðismanna rök fyrir því að afnema svonefndar vaxtabætur. Vefþjóðviljinn hefur skrifað oftar gegn vaxtabótakerfinu undanfarin níu ár en hann kærir sig um að rifja upp og fagnar því eðlilega þessari tillögu Einars. En það er ekki síður fagnaðarefni að þingmaður hreyfi svo mikilvægu máli með svo afgerandi hætti í rétta átt. Alltof oft eru þingmenn fastir í því að finna ný verkefni handa ríkinu í stað þess að huga að því hvort þau sem þegar eru til staðar eigi rétt á sér.

Rökin sem hér hafa verið notuð gegn þessu bótakerfi eru einkum þau að þetta dýra millifærslukerfi verðlaunar skuldasöfnun, refsar mönnum fyrir sjálfbjargarviðleitni og er einn þátturinn í miklum jarðaráhrifum skatt- og bótakerfisins. Einar K. Guðfinnsson bætir í þennan sarp í grein sinni á laugardaginn.

Á sama tíma og þetta ástand varir, viðhöldum við vaxtabótakerfi, sem í raun bætir gráu ofan á svart. Eitt og sér veldur það ekki ójafnvæginu, en það ýtir undir það og vinnur því gegn efnahagsstjórninni og markmiðum hennar. Við erum nefnilega að niðurgreiða lánsfjármagnið með vaxtabótum frá ríkinu. Til þess arna verjum við rífum 5 milljörðum króna af skattfé almennings. Með þessu ýtum við undir lántökur, stuðlum að neyslukapphlaupinu og eigum þannig beinan þátt í vaxtahækkunum Seðlabankans, sem aftur valda gengishækkunum með tilheyrandi vandræðum hjá útflutningsgreinunum; burðarásum atvinnulífsins úti á landsbyggðinni. Þetta er auðvitað gjörsamlega galið fyrirkomulag og stríðir gegn heilbrigðri skynsemi við þær efnahagsaðstæður sem nú ríkja. …
Stóra myndin er með öðrum orðum alveg augljós. Vaxtabótakerfið er ríflega 5 milljarða niðurgreiðslu og millifærslukerfi, að hluta frá landsbyggð á höfuðborgarsvæðið. Hin gamla réttlæting kerfisins er hins vegar algjörlega horfin, með lækkandi vöxtum og góðu aðgengi að lánsfé. Það á hins vegar þátt í því að hækka húsnæðisverðið og kemur því í raun í bakið á húsnæðiskaupendum, þegar upp er staðið; ekki síst á höfuðborgarsvæðinu. Og í ljósi þess að það eru íbúðaverðhækkanirnar á höfuðborgarsvæðinu sem í raun skýra verðbólguna og senda Seðlabankanum skilaboð um vaxtahækkanir er augljóst að þarna er fullt tilefni til aðgerða. Um þessar aðgerðir hlýtur að vera hægt að skapa samstöðu; ekki að vísu með þeim sem alltaf hugsa skammt og hlaupa upp til handa og fóta þegar þrýstihóparnir kveinka sér. En aðrir, svo sem eins og þeir sem krefjast aukins aðhalds í ríkisfjármálum til þess að styðja við peningamálastefnu Seðlabankans, hljóta að vera tilbúnir til slíkra verka.

Það er rétt hjá Einari að vaxtabótakerfið var fylgifiskur hins opinbera skömmtunarkerfis í húsnæðismálum. Nú keppast lánveitendur um lántakendur og bjóða rýmri og betri kjör en áður hafa þekkst. Þótt ekki kæmi annað til en þessi bylting í lánamálum hlýtur vaxtabótakerfið að koma til endurskoðunar.