Ádögunum var Páll Magnússon skipaður útvarpsstjóri Ríkisútvarpsins. Kom það mörgum á óvart og þá væntanlega ekki síst þeim sem taka mark á slúðurdálkum dagblaðanna. Í slíkum dálkum hafði oft verið sagt frá því hver næsti útvarpsstjóri yrði. Oftast var talið að það yrði Magnús Ragnarsson sjónvarpsstjóri Skjás eins, en einnig voru heimildir fyrir því að þeir Þorsteinn Pálsson sendiherra og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson borgarfulltrúi væru svo gott sem öruggir með starfið. Einstaka sinnum var þó greint frá því að Bjarni Guðmundsson framkvæmdastjóri Ríkissjónvarpsins væri líklegur. Aldrei nokkurn tíma var minnst á Pál Magnússon þrátt fyrir að heimildarmennirnir væru öruggir eins og alltaf. Jafnvel eftir að umsóknir lágu fyrir – og þar var engin frá þeim þremur sem oftast höfðu verið ráðnir fyrirfram – treystu fáir sér til að spá því beinlínis að Páll fengi starfið.
Nú er auðvitað engin sérstök ástæða til þess að gagnrýna fjölmiðlamennina fyrir að hafa rangt fyrir sér í þessu máli. Auðvitað vita menn – sérstaklega eftir á – að hér var um tómar ágiskanir að ræða. En þetta minnir samt á annað. Þegar svo vill til að fjölmiðill hefur rétt fyrir sér í slíkum spádómi, þá var nú kannski bara líka um tóma ágiskun að ræða. Fjölmiðlar gera mikið af því að slá hlutum eins og þessum föstum og einstaka sinnum gengur auðvitað eitthvað af því eftir. Í þau skipti heldur vafalaust einhver að það, að einhver fjölmiðill var búinn að spá því sem síðar varð, sýni að allt hafi nú verið fyrirfram ákveðið en bara lekið. Ef menn myndu hins vegar skoða spádómana í samhengi þá myndu menn þó sennilega fá aðra mynd. Árum saman voru fjölmiðlar til dæmis með upplýsingar um það að Friðrik Sophusson þáverandi fjármálaráðherra væri á förum í þetta eða hitt embættið. Á endanum fór svo að Friðrik lét af stjórnmálaþátttöku og var ráðinn forstjóri Landsvirkjunar. Þá gat einhver sagt „sko, þetta vissi ég“, en aldrei var minnst framar á allar kenningarnar sem höfðu reynst hugarburður. Sama hefur oft verið uppi á teningnum um skipan seðlabankastjóra. Þá hefur næstum öll flokksskrá Framsóknarflokksins verið nefnd áður en einhver er óvænt ráðinn. Helga Jónsdóttir, Leó Löve, Halldór Guðbjarnarson, Stefán Pálsson og Páll Pétursson voru þannig öll að verða seðlabankastjórar fyrir nokkrum árum. Svipað gildir vafalaust oft um skýringarnar sem fjölmiðlar gefa á því sem fyrir ber. Í dálkum blaðanna er oft fullyrt að þetta eða hitt hafi verið gert eða sagt og þá af þessum eða hinum ástæðum. Þær skýringar ganga svo aftur í umræðuþáttum og blaðagreinum og verða á endanum viðteknar sem sannindi, þó ekkert hafi verið lagt fram þeim til stuðnings annað en það að einhverjum hefur bara dottið þær í hug. Sama morgun og hann frétti að Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson yrði næsti útvarpsstjóri. Eiginlega mættu þessir dálkar blaðanna birtast með sama fyrirvara og stjörnuspá Morgunblaðsins. Þá á „að lesa sem dægradvöl. Spár af þessu tagi eru ekki byggðar á traustum grunni vísindalegra staðreynda“.
Aldið skáld og lengi prófarkalesari Þjóðviljans, Elías Mar, birtist skyndilega í opnuauglýsingum Landsbankans í laugardagsblöðunum. Það hefur vafalaust orðið mörgum heldur óvænt ánægja að sjá Elías þar, en hann er merkur maður sem lítið hefur farið fyrir undanfarið. Einstaka sinnum gerist það þó að hann ritar í Morgunblaðið eftirmæli um látna samferðamenn sína og eru þær greinar mjög fjarri hinum hefðbundnu minningargreinum að gæðum. Sjálfsagt myndu margir vilja að hann gerði meira af slíkum skrifum, en það er vitanlega ekki hægt að óska manninum þess að hann missi vini sína einn af öðrum, bara til þess að annað fólk fái að lesa minningarorð eins og þau eru best skrifuð. Á yngri árum sat Elías tíma í íslenskum fræðum og í einum slíkum bar það við að kennarinn, Freysteinn Gunnarsson, fræddi áheyrendur sína á því að í íslensku væri aðeins eitt orð sem endaði á stafnum v, og væri það „bölv“, og aðeins eitt orð sem endaði á stafnum j, og væri það „grenj“. Af því væri að ráða að útilokað væri að nota orðin bölv og grenj sem rímorð í vísu. Hann þurfti ekki lengi að bíða viðbragða Elíasar Marar við þessum fróðleik:
Allt hans tal var barlómsbölv,
brigsl og níð og vol og grenj.
Hafði þó keypt hús við Sölv-
hólsveg af amíni. Benj-