Þeir sem á annað borð hafa gaman af bókum skoska sagnfræðingsins Niall Ferguson vita sem er, að það virðist varla vera hægt að klára lestur einnar bókar eftir hann fyrr en sú næsta er komin út. Það er vitaskuld ekki verra að vera afkastamikill, en helsti kostur Fergusons felst þó í því, að hann er einn fárra sagnfræðinga sem getur tengt saman hagfræði og peningamál við pólitík og stjórnmálaástand þess tíma sem hann fjallar um hverju sinni.
Raunar eru þessir þættir svo nátengdir að maður skyldi ætla að erfitt væri að fjalla af einhverju viti um hvaða tímabil sem vera skal, án þess að gera almennilega grein fyrir þeim báðum. Líkt og allir vita, sem eru fæddir á árinu 1968 og þar um bil og lásu sagnfræði 68-kynslóðarinnar í menntó, þá var tæpast minnst á hagfræðilegar forsendur öðruvísi en þær kæmu úr kokkabókum Karls Marx – sem er að sjálfsögðu jafn fráleitar í dag og þær voru þá, en munurinn er þó sá að í dag er það almennt viðurkennt að miðstýrð hagkerfi geta ekki keppt við markaðshagkerfi í lífskjörum. Miðstýrð hagkerfi geta satt best að segja ekki einu sinni brauðfætt fólk. Það fengu milljónir Rússa og tugmilljónir Kínverja að reyna eitt sinn – og sömu örlög kynnu að bíða Norður-Kóreubúa, ef umheimurinn – og Bandaríkjamenn þar með taldir – hættu að senda þeim korn og aðra þróunaraðstoð.
Ferguson þessi gaf út fyrir nokkru nýja bók, Colossus, fjallar um Bandaríkin og stöðu ríkisins sem eina heimsveldisins í dag. Hann lætur ekki þá slæmu ímynd sem hugtakið „heimsveldi“ hefur á sér í dag aftra sér frá því að sjá kostina við það. Hvað heimsveldi svo er, eða er ekki, er vitaskuld skilgreiningaratriði, en ljóst má vera að þau heimsveldi sem sagan greinir frá hafa ekki öll verið af hinu illa. Heimsveldi nýtast til góðra hluta og slæmra, líkt og flest annað. Kostir heimsveldis, segir Ferguson, eru meðal annars. að þau nýtast til að koma á þokkalegri röð og reglu á nokkuð stóru svæði, þau eiga tiltölulega auðvelt með að stöðva átök og útbreiða bæði verslun og góðum viðskiptaháttum á áhrifasvæði þess.
„Á meðan Ferguson skipar sér á bekk með þeim sem styðja þessa íhlutun Bandaríkjanna í Írak, er hann afar svartsýnn á að íhlutun þeirra endi vel. Bandaríkjamenn hafi einfaldlega ekki þolinmæði til þess að byggja upp Írak með svipuðum hætti og þeir byggðu upp Japan og Þýskaland.“ |
Bókarhöfundur telur að Bandaríkjamenn verði að fara að haga sér eins og heimsveldi, fyrst þeir á annað borð eru það. Raunar telur hann það ákaflega ólíklegt, þar eð Bandaríkjamenn sjálfir vilja sem minnst heyra á þetta minnst og nota hvert tækifæri til að þvo þennan stimpil af sér, meðal annars. með því að skilgreina sig sem risaveldi eða stórveldi. Slíkt er einfaldlega deila um keisarans skegg, að mati Fergusons, því Bandaríkin eru heimsveldi hvort sem íbúum þess líkar það betur eða verr. Það að þeim líki það einmitt verr, er hins vegar afar óheppilegt. Vegna þessarar afneitunar verður að teljast líklegt að bandaríska heimsveldið verði ávallt hálfmisheppnað fyrirbæri, sem þar að auki kann að eiga fremur stutta framtíð fyrir sér.
En hvað ættu Bandaríkjamenn, spyr Ferguson, að gera við heimsveldi sitt ef þeir væru með öllum mjalla? Til að skýra hugmyndir sínar tekur hann þrjú dæmi; breska heimsveldið, uppbyggingu Japans og Þýskalands eftir heimstyrjöldina síðari og Írak. Eftir heimstyrjöldina síðari, líkt og Bush og forverar hans í embætti hafa margoft bent á, komu Bandaríkjamenn með hervaldi til bæði Þýskalands og Japans. Þeir komu ekki til þess að bæta þessum ríkjum við veldi sitt eða til þess að stela þar öllu steini léttara, né til að skattleggja landið sér í hag. Nei, þeir komu til að steypa einræðinu af stóli, en skildu líka eftir lýðræðis- og markaðsskipulag, stjórnarskrá og frelsi. Með öðrum orðum er opinbera skilgreiningin sú, að Bandaríkin fara í stríð ef þau neyðast til, en nota samt mátt sinn til að breiða út frelsi og lýðræði.
Þetta er rétt hjá Bush og forverum hans upp að vissu marki. Það sem fellur langbest að þessari lýsingu eru einmitt dæmin af Þýskalandi og Japan. Hins vegar gleymist oft að láta það fylgja með að Bandaríkin hafa verið með herafla í báðum ríkjunum sleitulaust frá stríðslokum. Og þar liggur eitt meinið að mati Fergusons. Upphaflega var það nú ekki ætlunin að efla Þýskaland og Japan. Fyrstu drög gerðu ráð fyrir að koma málum þannig fyrir, að þessar þjóðir eignuðust ekki nægilega öflugan iðnað til að endurtaka leikinn síðar meir. En rauða hættan í Rússlandi og síðar í Kína kölluðu á mótvægi, auk þess sem kostnaðurinn af hersetunni yrði seint bættur ef ekki yrði komið upp sæmilega skilvirku markaðsskipulagi – sem væri að sjálfsögðu erfitt ef iðnaður ríkjanna væri lagður af. Því var allt kapp lagt á að bæta hag landanna, iðnaðinn sem annað. Og þarna skildi með Bandaríkjunum og flestum öðrum heimsveldum, því Bandaríkjamenn greiddu stórkostlegar fjárhæðir með sér.
Þessi mikla skuldbinding, sem fólst í uppbyggingu Bandaríkjamanna í Japan og Þýskalandi hefur auðvitað borgað sig margfalt til baka. Bæði löndin komust í hóp auðugustu ríkja heims á næstu áratugum og sín á milli stunda þessar þjóðir gríðarleg viðskipti. Og sem fyrr segir hafa þær notið lýðræðis og frelsis æ síðan. Hvers vegna þá, spyr Ferguson, er þetta undantekningin frekar en reglan þegar kemur að íhlutun Bandaríkjanna?
Oftar en ekki virðist Bandaríkjunum liggja mikið á að koma sér heim á ný, þegar þeim þætti íhlutunar þeirra sem snýr að hernaði, er lokið. Þetta eru stórkostleg mistök að mati Fergusons, og mættu þeir læra ögn af breska heimsveldinu í þessum efnum. Bretar voru töluvert þolinmóðari – og hugarfar þeirra var vitaskuld allt annað en það er hjá Bandaríkjamönnum í dag. Og þrátt fyrir að heimsveldið breska hafi ekki verið fullkomið, þá var það í það heila góðkynja heimsveldi, sem lagði mikla áherslu á uppbyggingu, röð og reglu og útbreiðslu viðskipta. Indland væri t.a.m. nær örugglega ekki lýðræðisríki í dag, hefðu Bretar ekki verið þar í allan þennan tíma fyrir allnokkru síðan. Með öðrum orðum; til þess að breyta einhverju frá því að vera alveg ómögulegt, hvort sem það er stjórnarfar Saddam Husseins eða annað, í að vera eitthvað þokkalega virkt og sjálfstætt þjóðfélag, þá þarf að gefa því dágóðan tíma. Sem sagt, Róm var ekki byggð á einni nóttu.
Írak er að sjálfsögðu dæmisaga dagsins. Þó svo Frakkar og Þjóðverjar, og fleiri til, hafi verið afar andsnúnir innrás Bandaríkjanna, þá er meirihluti þeirra – og Íraka sömuleiðis – því sammála að Írakar séu betur settir án Saddams. Enn þá er gríðarleg uppbygging eftir, en Bandaríkjamenn geta þó tæpast beðið eftir því að koma sér heim. Á meðan Ferguson skipar sér á bekk með þeim sem styðja þessa íhlutun Bandaríkjanna í Írak, er hann afar svartsýnn á að íhlutun þeirra endi vel. Bandaríkjamenn hafi einfaldlega ekki þolinmæði til þess að byggja upp Írak með svipuðum hætti og þeir byggðu upp Japan og Þýskaland. Þetta er sem fyrr segir, ein ástæða þess að Bandaríkin sem heimsveldi verður ávallt hálfmisheppnað fyrirbæri.
Til að bæta gráu ofan á svart, eru blikur á lofti innan Bandaríkjanna. Hér er ekki átt við hryðjuverkamenn innan landamæranna, heldur þann gríðarlega kostnað sem bandarískir skattgreiðendur þurfa að standa skil á til að halda heilbrigðis- og velferðarkerfi sínu gangandi í framtíðinni. Miðað við stöðuna í dag er ljóst að enn sem komið er vantar $ 45.000.000.000.000 – 45 billjónir dala eða um það bil. fjórfalda þjóðarframleiðslu Bandaríkjanna – til að láta enda ná saman í framtíðinni. Sem væri að sumu leyti gott og blessað, ef búið væri að hefja aðgerðir í dag. Svo er ekki.
Bæði trúir venjulegt fólk ekki þessari upphæð, þótt það viti vel að það kosti peninga að halda heilbrigðiskerfinu gangandi. Það veit af vandamálinu, en trúir því ekki hversu stórt það er. Það kemur vitaskuld niður á lausn þess. Þess fyrir utan má benda á, að í Bandaríkjunum sem og víðar, er það elsti aldurshópurinn sem er virkastur í pólitík. Samtök ellilífeyrisþega í Bandaríkjunum, AARP, styrkjast með hverjum degi, enda lengist lífaldur fólks þar sem annars staðar á Vesturlöndum. AARP setur sig algerlega á móti öllum skerðingum á núverandi kerfi. Þeir er farnir að senda fólki umsóknareyðublöð í félagið á 50 ára afmælum þess. Hvort sem menn eru demókratar eða repúblikanar telst það í ætt við pólitískt sjálfsmorð að hreyfa andmælum við kröfur AARP. Það breytir ekki þeirri staðreynd að reikningurinn er á leiðinni. Ályktun Fergusons er augljóslega sú, að þessi vandi sé ekki að fara leysast í bráð og því muni styrkur Bandaríkjanna minnka á alþjóðavísu þegar meira af orku þeirra og fjármunum fer í það leysa þetta risavaxna mál.
Fyrir rétt rúmlega tveimur vikum hélt fyrrum forseti Bandaríkjanna, Bill Clinton, ræðu í Rúanda. Þar baðst hann afsökunar á því að hafa ekki gripið inn í þegar þjóðarmorðið mikla átti sér stað þar í landi og kostaði um 800 þúsund manns lífið. Hann kallaði þetta sín verstu mistök á forsetatíð sinni. Ferguson gæti tæpast verið honum meira sammála, enda lýsandi dæmi um hvernig heimsveldi í afneitun hegðar sér.
Á meðan Bandaríkin líta á sig sem eitthvað annað en heimsveldi og líta einnig svo á, að það sé einmitt ekki þeirra að hlutast til með atburði líkt og í Afríku og annars staðar – þó þeir séu í raun eina landið sem er fært til þess – þá er ljóst að það er engin trygging fyrir því að þetta muni ekki endurtaka sig heldur er það bara spurning um hvar, hvenær og hversu stórtækt. Og í heimi þar sem áhrif Bandaríkjanna minnka sífellt, mun það ástand ekki batna, segir Ferguson í bók sinni.
Líkt og sést af ofanrituðu er komið víða við í bók Fergusons og er þó aðeins tæpt á helstu aðalatriðum hér. Menn þurfa að sjálfsögðu ekki að vera samþykkir því sem þar kemur fram, en engu að síður má lofa lesendum hennar að mörgu leyti fræðandi og afar frísklegri lesningu frá höfundi, sem er ófeiminn við að líta á hlutina sínum augum og taka afstöðu til þeirra.