Laugardagur 6. ágúst 2005

218. tbl. 9. árg.
Launamunur innan bankakerfisins er gríðarlegur. Forstöðumaður í KB banka er 60 gjaldkera maki.
– Fréttayfirlit kvöldfrétta Stöðvar 2 2. ágúst 2005.
Fimmtíu og sjö faldur launamunur er enginn smávegis munur. Það er meira upp úr því að hafa að hirða forstöðumannslaunin heldur en að haldi úti þrælabúðum með 57 gjaldkerum því það þyrfti jú að fæða þá og klæða.
– Frétt Þóru Kristínar Ásgeirsdóttur um málið í sama fréttatíma.

F

Umtöluðustu „upplýsingarnar“ í þessu riti eru rangar.

réttir Stöðvar 2 þessa dagana eru ekki aðeins þreytandi þegar Sigmundur Ernir Rúnarsson fréttastjóri lætur skoðanir sínar í ljósi á eftir hverri frétt, ýmist með hnussi, reigingi eða nokkrum orðum af eigin hyggjuviti. Fréttamennirnir læra það sem fyrir þeim er haft.

Í kvöldfréttatímanum á þriðjudagskvöldið hafði Þóra Kristín Ásgeirsdóttir fréttamaður lagst í lestur á riti sem gefið er út undir nafni Frjálsrar verslunar með upplýsingum um „tekjur 2400 Íslendinga“. Eins og sjá mátti á skjánum hafði Þóra farið í listann yfir starfsmenn fjármálafyrirtækja og tekið þann sem var efstur á blaði. Svo hafði hún reiknað út að þessi forstöðumaður í KB banka hefði 57-föld meðallaun gjaldkera. Gjaldkera, einkum konur, sagði Þóra Kristín „sleikja botninn“. Þegar Þóra hafði sagt gjaldkera „sleikja botninn“ og fullyrt að þeir væru með innan við 2% af launum forstöðumannsins var ekkert eftir nema víkja talinu að „þrælabúðum með 57 gjaldkerum“.

Forsendan fyrir öllum þessum stóryrðaflaumi og sleggjudómum, að ógleymdri lítilsvirðingunni gagnvart gjaldkerum, voru upplýsingar úr Frjálsri verslun um tekjur ákveðins manns. Jón G. Hauksson ritstjóri blaðsins hefur haldið því mjög á lofti að frjáls markaður þrífist ekki án þess að skattyfirvöld taki þessar persónuupplýsingar saman á kostnað skattgreiðenda og úrval þeirra sé svo birt í Frjálsri verslun. Aðeins eru nokkrir dagar síðan Jón hélt því einnig fram í sjónvarpsviðtali að upplýsingarnar væru mjög áreiðanlegar þótt mýmörg dæmi séu frá liðnum árum um að svo sé ekki.

Nú hefur umræddur forstöðumaður, sem notaður var sem mælistokkur í frétt Stöðvar 2 og raunar fleiri fréttum, hins vegar skýrt frá því að skattyfirvöld hafi ranglega áætlað tekjuskattsstofn hans.

Upplýsingarnar í Frjálsri verslun voru því hrein og klár vitleysa og þar með forsendan fyrir æsifrétt Stöðvar 2.

R íkissjóður sendi í fyrradag frá sér tölur sem sýna greiðsluafkomu á fyrri helmingi ársins ásamt samanburði við fyrri ár. Í tölunum má sjá að þrátt fyrir lækkun skatthlutfalla hafa skatttekjur ríkisins aukist gríðarlega á milli ára, eða um tæp 19%. Aukningin árið 2004 var tæp 15% en næstu ár þar á undan rúm 4%. Skýringin á þessari miklu aukningu er að stærstum hluta aukin velta í hagkerfinu, þar með talinn innflutningur, en einnig umtalsverð hækkun launa á milli ára. Má í því sambandi nefna að ráðstöfunartekjur jukust um 10% árið 2004.

En það eru ekki aðeins tekjurnar sem aukast gríðarlega því gjöldin aukast um tæp 10%. Það er auðvitað alveg ótrúleg útgjaldaaukning og hlýtur að þurfa skoða sérstaklega hvar er opinn krani á ríkissjóði. Þegar horft er til þróunarinnar á fyrri hluta ársins síðustu fjögur ár hafa skatttekjurnar aukist um 48% en útgjöldin hafa „aðeins“ aukist um 39%.

En þó að út af fyrir sig megi fagna því að tekist hafi að koma í veg fyrir að útgjöld hækkuðu jafn hratt og tekjur sýnir þróun skatttekna síðustu ára að full ástæða er til að ganga enn lengra í lækkun skatthlutfalla en ríkisstjórnin hefur ákveðið að gera. Þróun útgjalda sýnir einnig að tilhneiging er til að auka útgjöld með auknum tekjum og þess vegna er nauðsynlegt að vinna gegn því að tekjur aukist. Skattalækkunin sem búið er að ákveða og byrjað er að framkvæma er vissulega öll til bóta, en nú er rökrétt að ganga mun lengra, ekki síst í ljósi þess að skatttekjurnar hafa vaxið hraðar en gert hafði verið ráð fyrir.