Föstudagur 5. ágúst 2005

217. tbl. 9. árg.

Síðastliðinn mánudag opnaði Andríki bóksölu. Í upphafi var þess og getið að titlum í búðinni yrði fjölgað hægt og rólega eftir því sem fram liðu stundir, og var það auðvitað ekki útlistað nánar enda óljós loforð drjúg í viðskiptum. Ekki stóð nú kannski til að fjölga titlunum strax í fyrstu vikunni en mál hafa hins vegar skipast svo, að eftir fjögurra sólarhringa starfsemi eru tveir þeirra titla sem boðnir hafa verið, Hagfræði í hnotskurn eftir Henry Hazlitt og Hugleiðingar um hagmál eftir Ludwig von Mises,  með öllu uppseldir, og talsvert hefur gengið á nær alla hina. Það hefur því orðið úr, fyrr en meiningin var, að bæta nýjum titli við framboð bóksölunnar, svona svo að hinum leiðist ekki.

Bóksala Andríkis býður nú til kaups bókina Moskvulínuna eftir dr. Arnór Hannibalsson, fyrrverandi prófessor við Háskóla Íslands. Bók þessi kom út árið 1999 og er hin merkilegasta á margan hátt. Bókin er tvískipt. Í fyrri hlutanum rekur Arnór samskipti íslenskra sósíalista við rússneska skoðanabræður þeirra sem brotist höfðu til valda árið 1917. Arnór hefur viðað sér fjölmörgum gögnum úr rússneskum skjalasöfnum og af þeim að dæma er ljóst að þessi samskipti voru mjög einhliða. Íslenskir sósíalistar fengu fyrirmæli frá Kreml um afstöðu til manna og málefna og hvernig þeir ættu að haga baráttunni hér heima. Íslenski kommúnistaflokkurinn var deild í móðurflokknum í Sovétríkjunum. Til dæmis fór það algjörlega eftir skipunum frá Moskvu hvort íslenskir kommúnistar leituðu eftir samstafi við sósíaldemókrata eða fordæmdu þá sem höfuðstoð auðvaldsskipulagsins. Gangur heimsmála fléttast inn í frásögnina enda fór afstaða íslenskra kommúnista og sósíalista til atburða í evrópskum stjórnmálum eftir skipunum frá Kreml. Þetta kom berlega í ljós þegar Hitler og Stalín gerðu griðasáttmála sinn árið 1939. Þá varð Hitler eins og hendi væri veifað alls góðs maklegur í huga íslenskra sósíalista.

Í síðari hluta bókarinnar er fjallað um Halldór Kiljan Laxness og samband hans við Sovétríkin allt frá því Halldór hóf ungur baráttu fyrir málstað Stalíns og þar til hann sneri við blaðinu í Skáldatíma árið 1963, þá nýkominn á sjötugsaldur. Þetta er áhrifamikil bók sem ætti að höfða vel til áhugamanna um íslensk þjóðmál og menningarmál. Moskvulínan er 326 blaðsíður að stærð auk myndasíðna, innbundin og kostar í bóksölu Andríkis kr. 1900 og er sendingarkostnaður innifalinn.

Ífréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi var greint frá því að skemmdarvargarnir sem handteknir hefðu verið á byggingarsvæði væntanlegs álvers við Reyðarfjörð væru frá ýmsum löndum og kom fram í fréttinni að þeir kæmu meðal annars bæði frá „Bretlandi“ og „Skotlandi“. Látum það nú vera. En eitt og aðeins eitt er rétt að segja að sinni um þetta fólk og baráttufélaga þess. Þetta eru skemmdarvargar en ekki „mótmælendur“. Vissulega er þetta fólk á móti þeim framkvæmdum sem fara fram þarna fyrir austan og sú afstaða þess er ástæðan sem gefin er upp fyrir skemmdarverkunum. En það breytir ekki því að það verður að líta á þetta fólk sem skemmdarvarga en ekki „mótmælendur“ – og eiga skoðanir manna á virkjunum og álveri ekki að skipta þar máli. Segjum að maður sem er reiður yfir hátekjuskattinum svonefnda fái sér eldstokk og kveiki í skattstofunni. Hann væri brennuvargur en ekki mótmælandi – og breytir engu um þá skoðun Vefþjóðviljans þó hann væri auðvitað sammála manninum í andstöðunni við skattinn. Fréttamenn sem segðu frá þessum manni eins og hverjum öðrum mótmælanda, þeir væru einfaldlega að gefa ranga mynd af manninum og því sem hann gerði. Fólkið sem þessa dagana reynir að spilla framkvæmdum fyrir austan hefur fullan rétt til þess að vera á móti framkvæmdunum og láta þá skoðun í ljósi með löglegum leiðum. En á þeirri stundu sem það reynir að knýja vilja sinn fram með valdi hættir það að vera mótmælendur og verður að skemmdarverkamönnum. Ekki efast Vefþjóðviljinn um það að þessu fólki þyki nær að kalla Landsvirkjunarmenn skemmdarvarga, en barátta eins og þessi verður að fara fram samkvæmt lögum og reglum en ekki með því að menn hlekki sig við bíla eða hefti sig við girðingarstaura. Ef menn telja sig hafa löglegar leiðir til þess að berjast gegn framkvæmdum eins og þessum, nú þá geta menn farið þær leiðir ef þeir svo kjósa, en ef menn taka þann kostinn að fara ólöglegar leiðir þá geta þeir ekki búist við að vera einfaldlega álitnir „mótmælendur“.