Miðvikudagur 3. ágúst 2005

215. tbl. 9. árg.

Alls kyns hagfræðileg endaleysa á greiðan aðgang að fjölmiðlum án þess að nokkrar efasemdir komi fram. Viðmælendur í fréttatímum halda því til dæmis oft fram – án nokkurra spurninga frá fréttamanni – að tiltekin framkvæmd sem þeir hafa áhuga á sé þjóðhagslega hagkvæm. Þá er því gjarnan haldið fram ef framleiðsla er að leggjast af í einhverri verksmiðju og þar með að byggðin í kringum verksmiðjuna sé í hættu, að ekki geti verið hagkvæmt að leyfa þessu að hafa sinn gang. Miklu skynsamlegra sé að nýta verksmiðjuna og íbúðarhúsin og ef enginn einkaaðili vilji gera það af sjálfsdáðum sé hagkvæmt að ríkið ýti undir að það sé gert. Ennfremur heyrast þau viðhorf iðulega að ríkið eigi að styrkja eitthvert málefni eða auka niðurgreiðslur til einhvers málefnis á þeirri forsendu að í annað eins sé nú eytt. Þetta er sjálfsagt ein sérkennilegasta röksemdin, en hún hefur vafalítið oft gagnast ríkisútgjaldasinnum vel. Ef þeir geta bent á einhver útgjöld ríkisins sem eru vitlausari en þau sem þeir leggja til – og tæplega er nokkur ný útgjaldahugmynd svo vitlaus að engin útgjöld sem fyrir eru séu vitlausari – þá telja þeir sig þar með standa vel að vígi og berjast af sannfæringarkrafti fyrir aukningu útgjaldanna. Afleiðingin er öllum kunn, því að útgjöld hins opinbera aukast ár frá ári.

Hagfræðilegar ranghugmyndir af þessum toga og ýmsum öðrum eru umfjöllunarefni bókarinnar Hagfræði í hnotskurn eftir Henry Hazlitt. Í bókinni er farið yfir muninn á góðri hagfræði og vondri hagfræði og í inngangi að bókinni útskýrir höfundurinn muninn og lýsir skoðun sinni á því hvers vegna sumir sjá ástæðu til að tala fyrir vondri hagfræði jafnvel þó að þeir viti betur. Ástæðan eru sérhagsmunir, sem er að hans mati einn helsti vandi hagfræðinnar. Sérhagsmunirnir fái menn til að leggja mikið á sig til að tala fyrir vondum málstað. Eða, svo vitnað sé beint í bókina:

Þó að ákveðin stjórnarstefna væri öllum til hagsbóta þegar til langs tíma er litið, þjónar einhver önnur stefna einum hópi á kostnað allra hinna. Sá hópur sem hefur beinna hagsmuna að gæta af slíkri stjórnarstefnu færir fram rök fyrir henni af þekkingu og sannfæringarkrafti. Hann ræður færustu menn sem völ er á til að verja öllum tíma sínum til kynningar á málstaðnum. Honum tekst að lokum annað hvort að sannfæra almenning um að málstaðurinn sé góður, eða rugla hann svo að nær útilokað er fyrir hann að átta sig á staðreyndum málsins.
Til viðbótar þessum endalausa málflutningi sérhagsmunahópanna, er annar meginþáttur sem dag hvern leiðir af sér nýjar hagfræðilegar ranghugmyndir. Þetta er hin ríka tilhneiging manna, til að líta aðeins á bein áhrif ákveðinnar stefnu, eða áhrif hennar á ákveðinn hóp, en horfa fram hjá því hver langtímaáhrif stefnunnar verða bæði á þennan hóp og alla aðra. Þetta er sú villa að horfa framhjá óbeinum afleiðingum.
Í þessu felst allur munurinn á góðri og vondri hagfræði. Vondi hagfræðingurinn sér einungis það sem blasir beint við; hinn lítur einnig á það sem fjær er. Vondi hagfræðingurinn sér aðeins beinu afleiðingarnar af tiltekinni áætlun; hinn horfir einnig á óbeinu afleiðingarnar. Vondi hagfræðingurinn sér einungis hvaða áhrif ákveðin stefna hefur haft eða mun hafa á einn ákveðinn hóp; góði hagfræðingurinn athugar hvaða áhrif stefnan mun hafa á alla hópa.

En vond hagfræði einskorðast auðvitað ekki við hagfræðinga. Flestir sem á annað borð láta sig þjóðmál varða fjalla með einum eða öðrum hætti um málefni sem tengjast hagfræði og æði oft bregður við að þeir misstígi sig. Slíkir menn – og líka hinir sem aldrei tala um hagfræðitengd málefni en vilja geta varað sig á vafasömum fullyrðingum í opinberri umræðu – gerðu margt verra en að lesa bókina Hagfræði í hnotskurn. Og svo heppilega vill til, að bókin er til sölu í bóksölu Andríkis hér á vefnum, en að vísu í afar takmörkuðu upplagi enda uppseld hjá útgefanda.

Vefþjóðviljanum hefur borist athugasemd frá formanni Heimdallar vegna pistils sem birtist í Vefþjóðviljanum þann 28. síðasta mánaðar. Formaðurinn óskar birtingar athugasemdarinnar og er Vefþjóðviljanum ljúft að verða við þeirri beiðni. Athugasemdina má finna hér.