Þau undur og stórmerki áttu sér stað í síðustu viku að skattur nokkur var lagður á landsmenn í síðasta sinn. Alls urðu 75.600 einstaklingar þess heiðurs aðnjótandi að afhenda ríkinu hluta eigna sinn í eignarskatt í þetta síðasta sinn sem hann var lagður á menn. Þar með er lokið – í bili að minnsta kosti – álagningu eignarskatta af hálfu ríkisins á menn í fullu fjöri.
Íslendingar munu því að öllum líkindum ekki þurfa að greiða eignarskatt oftar á lífsleiðinni. Aðeins tvö óbrigðul ráð eru til að vekja skattinn til lífsins; kjósa vinstriflokkana eða hrökkva upp af.
Enginn þingmaður vinstriflokkanna studdi afnám eignarskattsins þegar atkvæði voru greidd um það á Alþingi síðasta vetur. Af þeirri ástæðu og almennum málflutningi þeirra má því fastlega gera ráð fyrir að þeir muni leggja hann á aftur komist þeir í aðstöðu til þess.
Hitt er svo enn tíðkað að þeir sem falla frá munu áfram veita ríkinu nokkurn stuðning með hluta af eignum sínum. Erfðafjárskattur er enn til staðar þótt hann hafi verið lækkaður nýlega. Erfingjar þurfa sem fyrr að standa skil á skattinum fyrir hönd hins látna. Verður það stundum til þess að selja þarf eignir sem lengi hafa fylgt fjölskyldum eða eru þeim kærar af öðrum ástæðum. Það á ekki síst við ef erfingjar hafa úr litlu öðru að spila, eru eignalitlir eða með lágar tekjur. Erfðafjárskatturinn er því eins og svo margir aðrir skattar sem eiga að taka á „stóreignafólki“ fyrst og fremst til bölvunar þeim er minnst hafa.