Mánudagur 1. ágúst 2005

213. tbl. 9. árg.

Ídag er frídagur verslunarmanna og verslanir því almennt lokaðar. En ekki er þó þar með sagt að allir verslunarmöguleikar séu þá úti, því eins og bæði bjartsýnir menn og marggiftir telja sig hafa reynslu fyrir, þá lokast sjaldan einn möguleiki án þess að aðrir opnist og litlu síðri. Og þó í dag verði ýmsum verslunum lokað þá gerist það á móti að í dag opnar Andríki bókaverslun á vef sínum og gefst fólki þar kostur á að eignast áhugaverðar bækur um þjóðmál við vægu verði. Afar einfalt er að eiga viðskipti í bókaversluninni, öll boð um hana eru dulkóðuð svo fyllsta öryggis sé gætt, og pantaðar bækur verða sendar heim, hvert á land sem er, jafnskjótt og Íslandspósti þóknast að opna pósthús sín. Í versluninni verða bækur sem ýmist eru frumsamdar eða þýddar á íslensku og líklegar þykja til að mega höfða til áhugafólks um íslensk þjóðmál.

Þær bækur sem nú eru í boði eru þessar, en titlum verður fjölgað hægt og rólega eftir því sem fram líða stundir.

Fjölmiðlar 2004 eftir Ólaf Teit Guðnason . Á þessa bók hefur verið safnað öllum þeim fjölmiðlapistlum sem Ólafur Teitur ritaði vikulega í Viðskiptablaðið í fyrra. Óhætt er að segja að pistlarnir hafi vakið mikla athygli og bætt úr brýnni þörf. Fjölmiðlamenn hafa mörg orð um að þeir sjálfir hafi því mikla hlutverki að gegna að veita öðrum aðhald, svo sem stjórnmálamönnum, embættismönnum og fyrirtækjum. En hver veitir fjölmiðlunum aðhald? Hver veltir upp þeirri spurningu hvernig þeir sjálfir fara með það vald sem þeir telja sig hafa, athugar vinnubrögð þeirra, spyr spurninga? Fjölmiðlar, aðrir en Ríkisútvarpið, búa vissulega við það aðhald sem mestu máli skiptir; aðhald kaupandans, lesandans eða hlustandans. En hvaða lesandi hefur tíma eða tök á að leggjast yfir vinnubrögð fjölmiðilsins, athuga sannleiksgildi fullyrðinga, skýringa og frásagna hans, bera saman meðferð fjölmiðla á viðfangsefni sínu og þá ekki aðeins milli fjölmiðla heldur innra samræmi? Hver hefur tök á að velta alvarlega fyrir sér hvort sambærileg mál fá sambærilega meðferð sama fjölmiðils? Fáir lesendur hafa tök á slíku og enn færri koma því á framfæri. Þetta allt gerir Ólafur Teitur í sínum vikulegu pistlum og rekur dæmi eftir dæmi af því hvernig fjölmiðlamenn draga upp myndir af veruleikanum. Bókin er 288 blaðsíður að stærð og kostar í bóksölu Andríkis kr. 1750 og er sendingarkostnaður innifalinn.

Frá mínum bæjardyrum séð eftir Jakob F. Ásgeirsson. Í sjö ár skrifaði Jakob F. Ásgeirsson reglubundna pistla um þjóðmál í blöð. Fyrst í svonefndum viðhorfa-dálki Morgunblaðsins, dálki sem nú mun geyma snakk af svipaðri tegund og ritstjórnargreinar blaðsins eru ósjaldan núorðið. Eftir að Jakob lét af skrifum í Morgunblaðið tók hann að rita fasta þjóðmálapistla í Viðskiptablaðið og vöktu töluverða athygli. Frá mínum bæjardyrum séð geymir úrval þessara pistla og kennir þar ýmissa grasa og margt forvitnilegt fyrir áhugamenn um þjóðmál og menningu, enda kemur Jakob víða við í pistlum sínum og í atriðisorðaskrá bókarinnar má finna flest það sem deilt hefur verið um í íslenskum þjóðmálum undanfarin ár. Það er hins vegar sérstakt fagnaðarefni að Jakob horfir ekki á málin frá þeim sama sjónarhóli og fyrirferðarmestu álitsgjafar landsins. Ráðamenn margra fjölmiðla virðast stundum hreinlega gæta þess að fastir pistlahöfundar og álitsgjafar séu sem einlitust hjörð. Slíkt efni er borið inn á heimili fólks, dag eftir dag, viku eftir viku, mánuð eftir mánuð, og meðal annars þess vegna er fagnaðarefni að skynsemisrödd Jakobs F. Ásgeirssonar sé nú orðin aðgengileg í bókarformi. Bókin er 288 blaðsíður að stærð og kostar í bóksölu Andríkis kr. 1550 og er sendingarkostnaður innifalinn.

Hagfræði í hnotskurn eftir Henry Hazlitt. Hagfræðilegar ranghugmyndir eru ótrúlega algengar í opinberri umræðu, hvort sem þær lýsa sér í því að haldið er fram hagfræðilegum fjarstæðum eða þá að einungis er hálf sagan sögð en þeim hluta sleppt sem heldur hefði nú dregið máttinn úr fyrri hlutanum ef þeir hefðu fengið að fylgjast að. Ef einhver kveður sér hljóðs og vill að lagður verði nýr vegur eða kannski smíðuð voldug brú, þá verður sögð af því frétt og rætt við manninn um það hve leiðin eitthvert muni nú styttast og hvílík lyftistöng það verði nú fyrir héraðið, og svo framvegis. Í fréttinni verður giskað á hugsanlegan kostnað af framkvæmdinni en ekki þarf að efast um að baráttumaðurinn telur fullreiknað að framkvæmdin muni borga sig á undraskjótum tíma, þó útreikningar á því séu ekki alltaf skiljanlegir öðrum en honum og næstu nágrönnum. Það sem hins vegar kemur ekki í fréttinni að peningarnir fyrir framkvæmdunum vaxa ekki á trjánum heldur eru teknir af skattgreiðendum. Auðvitað vita áhorfendur það svo sem, en engum fréttamanni dettur í hug að segja af því fréttir hvað skattgreiðendur gætu gert við þetta fé, ef það yrði ekki tekið af þeim til vegalagningar. Hvort ekki mætti vera að það yki líka mannlíf og viðskipti í höndum skattgreiðenda og hvort ekki gæti verið að einhver yrði verr settur ef hið opinbera tæki féð og eyddi því í nýja brú. Nýja brúin og nýi vegurinn munu svo sjást um ókomin ár, til marks um það sem hið opinbera getur nú gert, en það sem skattgreiðendur hefðu gert við peningana sína ef þeir hefðu ráðið sjálfir, það sést ekki, af því að þeir fá ekki að gera það, og af því verður engin frétt sögð. Í bók sinni fjallar Henry Hazlitt um ótal hagfræðilegar ranghugmyndir og útskýrir ótal grundavallaratriði hagfræðinnar á skýru og ljósu máli. Bókin kom fyrst út í Bandaríkjunum árið 1946 en verið endurútgefin síðan og hefur haft mikil áhrif á hugsunarhátt hundruða þúsunda. Hagfræði í hnotskurn kom út í íslenskri þýðingu árið 2000 og er nú aðeins fáanleg í sáralitlu upplagi. Bókin er 207 blaðsíður að stærð og kostar í bóksölu Andríkis kr. 2900 og er sendingarkostnaður innifalinn.

Hannes Hafstein eftir Kristján Albertsson. Á síðasta ári kom út ný og stytt útgáfa einnar frægustu ævisögu íslenskra bókmennta, ævisögu Hannesar Hafstein, skálds og fyrsta ráðherra Íslands. Ævisagan hafði fyrst komið út snemma á sjöunda áratugnum, í þremur bindum, seldist geysivel en varð umdeild. Aftur var ævisagan svo gefin út á níunda áratugnum og þá í heild sinni. Ekki varð hún umdeild fyrir stílinn, því flestir voru á einu máli um að ákaflega væri hún vel skrifuð og upp byggð, en sitt sýndist hverjum um það hvernig segja ætti sögu Hannesar og þeirra sem börðust við hann og með honum. Ævisaga Hannesar er eitt af klassískum verkum íslenskra bókmennta, hreinn skemmtilestur yfirleitt og stórfróðleg öllum þeim sem ekki eru þá þeim mun meiri sérfræðingar í í síðustu árunum fyrir og fyrstu árunum eftir upphaf íslenskrar heimastjórnar. Lesendur fá skýra og ógleymanlega mynd af Íslandssögunni á þessum tíma, fyrir utan þá mynd sem þeir fá af helstu sögupersónum. Vefþjóðviljinn fjallaði um ævisögu Hannesar þegar hún kom út fyrir síðustu jól og taldi þá að í sögunni væri fjölmargt sem fólki væri fróðlegt að kynnast eða rifja upp. Átökin við landhelgisbrjóta, ríkisráðsdeilan, heimastjórnin, símamálið, uppkastið, og áfram og áfram. Og stjórnmáladeilurnar, ofsinn, heiftin og stóryrðin sem mögnuð voru upp og mörgum mun þykja athyglisvert að rifja upp nú. Hannes Hafstein er 512 blaðsíður að stærð og kostar í bóksölu Andríkis kr. 1550 og er sendingarkostnaður innifalinn.

Hugleiðingar um hagmál eftir Ludwig von Mises geyma sex fyrirlestra sem hinn áhrifamikli hagfræðingur flutti í Argentínu árið 1958. Ludwig von Mises spurði grundvallarspurninga um stjórnmál og hagfræði og lagði sig fram um að svara þeim. Með útgáfu bókarinnar Sameignarstefnan árið 1922, þar sem hann færði rök fyrir því að ríkisrekstur framleiðslutækja hlyti að leiða til öngþveitis og upplausnar, varð Mises einn af helstu málsvörum austurríska skólans í hagfræði. Hugmyndir sósíalista um miðstýringu þjóðfélaga leiddu svo, eins og Mises spáði, kúgun, örbirgð og aðrar hörmungar yfir milljónir manna í þeim ríkjum þar sem þeim var hrint í framkvæmd. Á skólaárunum Mises í Vínarborg var kennslan mótuð af Carl Menger einum höfunda huglægu virðiskenningarinnar; verðmæti vöru felst ekki í kostnaðinum við að framleiða hana heldur hvað menn eru tilbúnir til að greiða fyrir hana. Í einum af fyrirlestrum sínum í Hugleiðingum um hagmál segir Mises að menn megi aldrei gleyma því að í frelsinu felist réttur til að gera mistök. Mönnum þyki samborgarar sínar oft hegða sér óskynsamlega og fara illa að ráði sínu en það réttlæti ekki að ríkið taki af mönnum völdin enda hafi það ófyrirséðar afleiðingar. Ríkisstjórn nokkur í Þýskalandi leit þannig á það sem hlutverk sitt að greina á milli fagurra lista og ófagurra og mælikvarðinn var smekkur manns sem féll á inntökuprófi listaháskólans í Vín. Þegar menn hafa fallist á að fela ríkinu að stjórna áfengisneyslu og reykingum manna hvaða rök hindra þá að ríkið taki óæskilegar bækur og kvikmyndir úr umferð? Hugleiðingar um hagmál komu út í íslenskri þýðingu árið 1991 og eru aðeins örfá eintök fáanleg en bókin kostar kr. 2500 í bóksölu Andríkis og er sendingarkostnaður innifalinn.

Lögin eftir Frédéric Bastiat komu fyrst út í Frakklandi árið 1850 og geyma sígildar hugleiðingar um lögin, hlutverk laga og þá ekki síður hvaða hlutverk þau hafa ekki. Hvaða hlutverk eiga lögin að hafa í þjóðlífinu? Eiga þau að láta sér nægja að hindra órétt, eða á jafnvel líka að fela þeim að útdeila réttlæti með einhverju móti? Er nauðsynlegt að takmarka lögin til þess hreinlega að koma í veg fyrir óréttlæti? Var réttlæti til áður en lög voru sett? Þetta eru spurningar sem rétt er að velta fyrir sér af og til, en því verður varla neitað að nú á tímum færist löggjöf sífellt í aukana og þá ekki síður eftir því sem því er ákafar haldið fram að á þessu og þessu sviði vanti lög og reglur. Frédéric Bastiat var þingmaður og hagfræðingur og kunnur fyrir mælsku sína og ritleikni. Andríki gaf Lögin út á 200 ára afmæli höfundarins hinn 30. júní 2001, bókin er 73 blaðsíður að lengd og kostar í bóksölu Andríkis kr. 1500 og er sendingarkostnaður innifalinn.