Helgarsprokið 31. júlí 2005

212. tbl. 9. árg.

Viðbrögð við sölu á hlutabréfum ríkisins í Símanum þurfa í sjálfu sér ekki að koma á óvart. Flestir sem til þekkja fagna því hversu hátt verð fjárfestar reyndust fúsir til að greiða fyrir þetta fyrirtæki og ekki hefur komið fram nein málefnaleg gagnrýni á söluferlið eða þá aðferð sem beitt var við þessa umfangsmestu einkavæðingu Íslandssögunnar.

Hitt er svo annað má að viðbrögð talsmanna stjórnarandstöðunnar á Alþingi einkennast eins og svo oft áður af ólund og svekkelsi. Afstaða Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs þarf í sjálfu sér ekki að koma á óvart. Enginn hefur þurft að velkjast í vafa um að það er bjargföst trú þess flokks að ríkisrekstur sé í flestum tilvikum mun heppilegri en einkarekstur og má á vissan hátt dást að staðfestu flokksmanna í þessum efnum, sem óhikað synda gegn straumnum í þessum efnum og hafa hugrekki til að ganga gegn viðurkenndum sjónarmiðum í hagfræði og reynslu bæði Íslendinga og annarra þjóða í þessum efnum. Í ljósi þess er eðlilegt að formaður flokksins, Steingrímur J. Sigfússon, bregðist við sölunni með því að fara með vel æfða ræðu sína um „þjónustufyrirtæki í almannaeigu“. Það er hins vegar erfiðara að átta sig á þeim reikningskúnstum sem búa að baki þeim ummælum hans, að óskynsamlegt sé að selja Símann núna í ljósi þess að Síminn hafi á undanförnum fjórum árum skilað ríkinu stórauknum verðmætum, alls um 30 milljörðum króna, annars vegar í formi arðgreiðslna til ríkissjóðs og hins vegar með hækkuðu verði fyrirtækisins frá því fyrst var reynt að selja hann árið 2001.

„Formaður Samfylkingarinnar hefur líka í fjölmiðlum agnúast út í önnur atriði í tengslum við söluna. Ingibjörg Sólrún gerir það ekki með því að koma beint framan að hlutunum og færa rök fyrir því að standa hefði átt að málum með öðrum hætti heldur með aðferð gamallar kunningjakonu sinnar frá Leiti.“

Varðandi arðgreiðslurnar er auðvitað rétt að hafa í huga, að á síðast ári, þegar hafist var handa um lokaáfanga sölunnar, var tekin sérstök ákvörðun um að greiða aukinn arð út úr fyrirtækinu til að undirbúa söluna sem gerir það að verkum að þær greiðslur eru samanlagt verulega hærri en vænta má í meðalári. Varðandi þau auknu verðmæti, sem birtast í hækkun á verði fyrirtækisins frá 2001, er rétt að hafa í huga að þessi hækkun kæmi ekki fram nema vegna þess að farið var út í að reyna að selja hlutabréfin, sem eins og kunnugt er fer í bága við stefnu Vinstri grænna. Þá má auðvitað benda á að markaðsaðstæður eru með miklu hagstæðara móti en 2001, sem skýrir auðvitað af hverju ríkisstjórnin ákvað á þeim tíma að fresta sölunni. Hið aukna verðmæti Símans, sem birtist í tilboðum í hlutabréf ríkisins, ætti auðvitað að vera fagnaðarefni fyrir þá litlu hluthafa sem fram til þessa hafa átt fyrirtækið í félagi við ríkissjóð. Þeir geta nú vænst þess að fjárfesting þeirra í fyrirtækinu skili þeim verulegum hagnaði og má hugsanlega vænta þess að sjálfskipaður talsmaður þeirra, sem mest hefur haft sig frammi á hluthafafundum, tjái sig um það á næstu dögum.

Raunar skutu Vinstri grænir fleiri púðurskotum í sambandi við söluna, því á fimmtudaginn, skömmu áður en tilboð voru opnuð, kom fréttatilkynning frá þingflokki þeirra þar sem amast var við óðagoti við söluna. Þetta meinta óðagot hefur tekið að minnsta kosti fjögur ár og lokaferlið að minnsta kosti eitt ár og er vandséð að hægt hefði verið að vinna málið hægar, að minnsta kosti frá sjónarhóli þeirra sem á annað borð vildu selja fyrirtækið.

Formaður Samfylkingarinnar og talsmaður flokksins í málinu, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, hefur líka verið frekar súr í fjölmiðlum í kjölfar opnunar tilboðanna. Formaðurinn er ekki alveg viss um verðið sem fjárfestar eru tilbúnir að greiða fyrir bréfin og orðar það með þessum hætti í Fréttablaðinu á föstudaginn: „Sérfræðingar mínir segja að ekki hafi verið óeðlilegt að búast við um eða yfir 70 milljörðum fyrir Símann og því má ef til vill sætta sig við þetta verð engu að síður.“ Það er ekki gott að átta sig á því hvað formaðurinn er að fara með þessum orðum. Ekki er að efa að „sérfræðingar hennar“ eru hið mætasta fólk, þótt ekki liggi fyrir hverjir það eru, en ætla má að bjóðendur í hlutabréfin hafi líka notið ráðgjafar ágætra sérfræðinga. Hæsta boð var 66,7 milljarðar króna, næsta boð rétt um 60 milljarðar og þriðja og lægsta boð um 54 milljarðar. Í viðskiptum með hlutabréf er vandfundinn betri mælikvarði á verðmæti eignar en það verð sem einhver er tilbúinn að greiða fyrir hana og í þessu tilviki eru það 66,7 milljarðar króna. Það er því óhætt að taka undir með formanni Samfylkingarinnar, að því megi sætta sig við verðið. En af hverju er hún með þessa ólund?

Formaður Samfylkingarinnar hefur líka í fjölmiðlum agnúast út í önnur atriði í tengslum við söluna. Ingibjörg Sólrún gerir það ekki með því að koma beint framan að hlutunum og færa rök fyrir því að standa hefði átt að málum með öðrum hætti heldur með aðferð gamallar kunningjakonu sinnar frá Leiti. Hún reynir að sá fræjum efasemda með því að spyrja spurninga, en gerir ekki tilraun til að svara þeim, enda veit hún sjálfsagt að þar með væri hún komin út á hálan ís. Annars vegar segir hún að það þurfi að fá betri útskýringar á því af hverju erlendir fjárfestar drógu sig út úr tilboðsferlinu. Því geta auðvitað engir aðrir en þeir sjálfir svarað, en ýmsar eðlilegar skýringar koma í hugann, til dæmis að íslenski markaðurinn er afar smár, sem oft dregur úr áhuga stórra erlendra fjárfesta. Í annan stað er gengi íslensku krónunnar hátt um þessar mundir, sem vissulega getur haft áhrif í sömu átt. Í þriðja lagi getur einfaldlega verið að innlendir aðilar átti sig betur á framtíðarmöguleikum fyrirtækisins vegna þess að þeir þekkja betur þann markað sem fyrirtækið starfar á heldur en erlendu aðilarnir. Það eru því fyrir hendi margar nærtækari skýringar heldur en sú sem ýjað er að með spurningu formanns Samfylkingarinnar. Loks má auðvitað bæta við að íslenskir aðilar hafa verið stórtækir í fjárfestingum erlendis á síðustu misserum, ekki síst vegna mikils uppgangs í íslenskum efnahagslífi og hagstæðra starfsskilyrða atvinnulífsins, og spyrja má hvort það þurfi að koma á óvart að þeir hafi líka áhuga á því að fjárfesta innanlands.

Þriðja atriðið sem Ingibjörg Sólrún nefnir í ólundartón, er að spyrja megi hvort tengsl forstjóra Símans við hæstbjóðendur hafi skapað þeim einhverja sérstöðu í málinu. Enn sem fyrr varpar hún fram fyrriparti til að gefa eitthvað vafasamt í skyn, en botnar ekki vísuna. Nú er stjórnarseta forstjóra Símans í Bakkavör fram á þetta ár ekki leyndarmál og engar nýjar upplýsingar í því. Forstjórinn sagði af sér stjórnarsetu á vormánuðum þegar ljóst var að fyrirtæki, sem að stórum hluta er í eigu sömu aðila hafði í hyggju að bjóða í Símann og var því máli þar með lokið. Á þeim mánuðum sem liðnir eru frá þeirri afsögn hefur enginn gert athugasemdir við að Exista, áður Meiður, væri meðal bjóðenda. Af hverju kemur Ingibjörg Sólrún fram með þessa spurningu nú? Hefði spurningin líka komið fram ef sá hópur, sem Exista á aðild að, hefði ekki átt hæsta boð, til dæmis það lægsta? Er það meining Ingibjargar Sólrúnar að þessi meintu hagsmunatengsl hefðu átt að útiloka Exista frá þátttöku? Ef svo er væri heiðarlegra af henni að segja það berum orðum og kannski svolítið fyrr. Ef hún grunar forstjóra Símans um að hafa lekið trúnaðarupplýsingum til eigenda Bakkavarar, sem auðvitað væru mjög alvarlegar ásakanir, væri líka heiðarlegra af henni að segja það berum orðum í stað þess að nota stílinn „Ólyginn sagði mér, en hafðu mig ekki fyrir því.“ Er málflutningur af þessu tagi, hálfkveðnar vísur og órökstuddar dylgjur, boðlegur fyrir formann stórs stjórnmálaflokks, sem talar um sig sem forsætisráðherraefni og gerir tilkall til þess að vera tekinn alvarlega í opinberum umræðum?