Laugardagur 30. júlí 2005

211. tbl. 9. árg.

N ú vonar maður að ríkið fari vel með þessa skattpeninga,“ sagði sá sem samkvæmt nýbirtum álagningarskrám greiðir hæstu opinberu gjöldin í Reykjavík í viðtali við Morgunblaðið í dag. Þessi ágæti skattgreiðandi talar eins og flestir sem tjá sig um skatta í tengslum við ógeðfellda birtingu álagningarskráa. Það gleymist nefnilega alveg í þessari umræðu allri að sveitarfélögin innheimta ámóta háa skatta af tekjum fólks og ríkið. Iðulega er aðeins talað um tekjuskatt en staðreyndin er sú að tekjuskattur til ríkisins er aðeins um helmingur af álagningunni, hinn helmingurinn er útsvar til sveitarfélaganna. Það er þess vegna ekki síður ástæða til þess fyrir skattgreiðendur í Reykjavík að vonast til þess að Steinunn Valdís Óskarsdóttir borgarstjóri – nú eða Alfreð Þorsteinsson yfirborgarstjóri – fari vel með peningana en að Geir H. Haarde geri það. Raunar ættu skattgreiðendur í Reykjavík mun frekar að óttast skattpíningu Reykjavíkurborgar en ríkisins, því að á sama tíma og ríkið hefur lækkað skatthlutföll hefur borgin hækkað þau, þrátt fyrir loforð um hið gagnstæða.

Viðtalið við „skattakóng“ Reykjavíkur í Morgunblaðinu birtist innan um töflur sem blaðið hefur fengið frá skattayfirvöldum þar sem sýndir eru tíu hæstu gjaldendur í hverju umdæmi. Þessi ógeðfellda birting svo kallaðra „hákarlalista“ ætti vitaskuld að vera fyrir neðan virðingu annarra blaða en þeirra sem með umfjöllun sinni og efnistökum skilgreina sig sem sorprit. Þrátt fyrir það sér Morgunblaðið, sem alla jafna hefur þá sómatilfinningu að leyfa mönnum að hafa einkamál sín í friði, ástæðu til að birta þessa lista sem hið opinbera matar blaðið á.

Á öðrum stað í þessu sama blaði er einnig fjallað um hina ógeðfelldu birtingu þessara viðkvæmu persónuupplýsinga, en það er í grein eftir Sigurð Kára Kristjánsson alþingismann. Sigurður Kári á hrós skilið fyrir að hafa í tvígang lagt fram á Alþingi frumvörp sem fela í sér að hætt verði að birta upplýsingar um tekjur fólks, enda telur þingmaðurinn að þær upplýsingar séu einkamál hvers og eins. Í greininni segir hann:

Eflaust hlakkar í einhverjum að fá tækifæri til að velta sér upp úr tekjum annarra, en allt fólk með vott af sómatilfinningu hlýtur að sjá hversu ósmekkleg og óeðlileg birting slíkra upplýsinga er.

Óhætt er að taka undir þessi orð Sigurðar Kára Kristjánssonar. Það er einhver blanda af hnýsni, öfund og öðrum lágum hvötum fólks sem fær það til að velta sér upp úr tekjum annarra, til dæmis með því að kaupa sérrit óvandaðra tímarita eða jafnvel með því að leggja leið sína á skattstofur landsins og fletta þar listum. Tæplega er hægt að hugsa sér mikið ömurlegri iðju en að gramsa í slíkum einkamálum og furðu vekur að nokkur leggist svo lágt. Með ólíkindum er að ríkið skuli ýta undir þessar lægstu hvatir fólks og láta eins og eðlilegt sé að vera með nefið ofan í hvers manns koppi.