Föstudagur 29. júlí 2005

210. tbl. 9. árg.

Jón G. Hauksson ritstjóri tímaritsins Frjálsrar verslunar hélt því fram í Íslandi í dag á Stöð 2 í gær að það væri í þágu frjáls og skilvirks markaðar að ríkið tæki saman og afhenti honum upplýsingar um tekjur. Jón notar svo þessar upplýsingar sem teknar eru saman á kostnað skattgreiðenda til að gefa út og selja þeim virðulega hluta landsmanna sem hefur áhuga á að hnýsast í launaumslög nágranna sinna. Jón hélt því fram að með því að ríkið tæki þessar upplýsingar saman og birti opinberlega gætu menn séð hvað laun tíðkuðust á markaðnum.

Eins og Friðbjörn Orri Ketilsson andmælandi Jóns benti á geta upplýsingar um hvað einstakar starfstéttir, íbúar ákveðinna sveitarfélaga eða menn á ákveðnum aldri eða kyni þiggja í laun legið fyrir þótt þær séu ekki persónugreinanlegar. Það er því engin þörf upplýsingagildisins vegna að leggja persónugreinanlegar álagningarskrá fram.

Jón G. Hauksson hélt því einnig fram að upplýsingarnar í álagningarskránni væru mjög áreiðanlegar. Þó hafa birst rangar upplýsingar í tímariti hans sem byggðar voru á álagningarskránni. Í gær var svo upplýst að yfir 13 þúsund manns skiluðu ekki skattframtali fyrir síðasta ár og því þurfa skattyfirvöld að áætla tekjur þeirra og það gera þau mjög ríflega. Það er því einn af hverjum nítján skattgreiðendum sem skilar ekki inn framtali og hætt við að flestir þeirra, ásamt mörgum öðrum, eigi eftir að gera athugasemd við álagninguna. Birting Frjálsrar verslunar og fleiri fjölmiðla á ætluðum tekjum manna, sem byggðar eru á gloppóttri álagningarskránni, eru sorpblaðamennska með ríkisstuðningi.

Það má einnig velta því upp nú þegar mjög er í tísku að allar upplýsingar eigi að liggja á lausu, ekki síst handa fjölmiðlamönnum, hvort ekki sé rétt að það sé upplýst hverjir það eru sem fara og fletta náunganum upp í þessum álagningarskrám. Er ekki eðlilegt að þegar Jón Gægir flettir ákveðnum manni upp að viðkomandi eigi rétt á að vita að Jón haldi uppi njósnum um hann? Þeir sem stunda lestur álagningarskráa skammast sín vonandi ekki svo fyrir lesturinn að þeir hefðu á móti því að til yrði skrá yfir þá.

Svo eru þessar skrár sagðar lagðar fram til að sporna gegn skattsvikum þótt ekkert liggi fyrir um að þær geri það. En hversu marga menn getur einn maður grunað um skattsvik svo hald sé í? Þeir skipta nú varla tugum á hverju ári sem menn þykjast sjá að hljóti að lifa umfram uppgefnar tekjur. Er þá nokkur ástæða til að menn geti gramsað í einkalífi fleiri en svona 5 til 10 manna á ári? Væri ekki rétt að takmarka fjölda þeirra sem menn geta flett upp?

Það væri þó hvorki þörf á að skrá þá sem fletta í álagningarskránni né setja takmarkanir á fjölda flettinga ef ríkið hætti einfaldlega að gefa þessa skrá út.