Það er ýmislegt sem kemur á óvart þegar gluggað er blöðin. Það er ekki á vísan að róa, eins og sagt er. Í síðustu viku birtist til dæmis í einu blaðinu grein eftir Ögmund Jónasson alþingismann VG.
Ef marka má viðtöl við forsvarsmenn skóla í júní sl. gætu þetta verið á bilinu tvö til fjögur hundruð manns sem ekki komast í framhalds- eða háskóla í haust. Viðbótarkostnaður ríkisins af hverjum nemanda næmi um það bil sex til sjöhundruð þúsund krónur á ári. Að tryggja öllum skólavist gæti því kostað árlega um 150 til 250 milljónir króna, sem allir sjá að er ekki há upphæð, sem hlutfall af heildarútgjöldum ríkisins sem eru um 400 milljarðar árlega. |
Kannast einhver við að hafa séð svona málflutning áður? Jú, líklega hafa allir orðið vitni að svona löguðu áður, enda eru vinstri menn afar duglegir við að halda því fram að ríkið hafi mikla sjóði sem nota megi í hin og þessi gæluverkefni og beita slíkum rökum iðulega þegar þeir vilja klekkja á stjórnvöldum með því að yfirbjóða þau.
Svo víkur greinarhöfundur að því að menntun hafi áhrif á tekjur manna og á þá væntanlega við að þeir aukist með aukinni menntun.
Menntun er ekki einungis lykill að jöfnum tækifærum, en rannsóknir sýna að hún hefur mikil áhrif á ævitekjur einstaklinga. Menntun virðist hafa jákvæð áhrif á svo ótalmargt annað í lífi þeirra. Jákvæð tengsl eru milli menntunar fólks og heilsufars, menntunar og þátttöku í margs konar félagsstarfi og -tengslum. En tvennt það síðastnefnda hefur verið skilgreint sem félagsauður samfélaga (social capital) og sett á bekk með efnislegum auði og mannauði (human capital), vegna margvíslegra jákvæðra áhrifa á traust í samfélögum og almenna hagsæld. |
Er það „jöfnun tækifæra“ að þeir sem mennta sig til að auka ævitekjur sínar eigi að geta gert það á kostnað skattgreiðenda, þar á meðal þeirra sem mennta sig ekki og sitja eftir með lægri tekjur? En Vefþjóðviljinn er kannski svoddan félagssauður í sínu samfélagi að hann skilur þetta ekki.
En þetta voru ekki einu röksemdirnar í greininni sem hafa áður heyrst frá þeim sem vilja auka útgjöld ríkisins. En ein röksemd kom fram og hljómar hún ekki síður kunnuglega því að fullyrt var að það sem eytt væri í menntun væri ekki kostnaður fyrir ríkið heldur fjárfesting:
Útgjöld ríkisins til menntunar ungs fólks eru fjárfesting, ekki rekstrarkostnaður. Þau eru fjárfesting í ungu fólki og getu þess og framtíð. Fjárfesting sem skilar sér margfalt, ekki bara fyrir þann sem menntar sig heldur samfélagið allt. |
Allir sérhagsmunarhópar sem herja á ríkið – og þar með skattgreiðendur – um aukin útgjöld geta notað þessa sömu röksemdafærslu. Vegagerð er til að mynda yfirleitt afar hagkvæm í hugum þeirra sem vilja bættar samgöngur og auðvelt er að líta á hana sem fjárfestingu. Enginn vandi er að halda því fram með sambærilegum rökum og gert er hér að ofan að útgjöld til heilbrigðisþjónustu sé fjárfesting. Útgjöld til menningarmála eru líka stundum sögð fjárfesting og svo mætti lengi telja. Frá sjónarhóli sérhagsmunanna eru öll útgjöld fjárfesting og ef tekið væri tillit til slíkra sjónarmiða væri ríkissjóður galtómur, ríkið væri skuldsett í topp og skattbyrðin enn þyngri en hún er nú. Engin von væri um lækkun skatta.
Málflutningur af þessu tagi lætur vafalaust vel í eyrum vinstri grænna, Samfylkingarinnar og annarra sem tala frá vinstri hér á landi. Og þessum aðilum lætur jafnvel ágætlega að halda slíkum röksemdum fram, enda gera allir ráð fyrir að þeir beiti sér fyrir auknum umsvifum hins opinbera. En hvorki Ögmundur Jónasson né aðrir félagar í vinstriflokkunum eiga heiðurinn að þessum skrifum. Vefþjóðviljinn hefur áður fjallað um grein Ögmundar sem birtist í Blaðinu á föstudaginn og þarf engu við það að bæta.
Tilvitnanirnar hér að ofan eru í grein formanns Heimdallar, félags ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík. Í grein frá formanni Heimdallar hefði frekar mátt búast við því að í stað aukinna útgjalda væri bent á lausnir, svo sem aukinn hlut einkaaðila í menntakerfinu. Þá hefði ekki verið úr vegi fyrir formanninn að benda á hve mikil fjölgun hefur orðið í framhaldsskólum og háskólum hér á landi á síðustu árum og hversu mikið námsframboð hefur aukist, sérstaklega á háskólastiginu. Ekki hefði heldur verið fráleitt að benda á hve miklu fé hið opinbera eyðir í menntamál hér á landi miðað við önnur lönd, en Ísland hefur þann vafasama heiður að leitun er að landi þar sem hið opinbera ver meira fé í þennan málaflokk.
Það er enginn vandi fyrir hægri menn að gagnrýna menntakerfið hér á landi og það er ekki heldur erfitt fyrir þá að benda á leiðir til úrbóta. Þess vegna er engin ástæða fyrir hægri menn að taka upp málflutning vinstri manna í menntamálum. Og það er enginn skortur á sjónarmiðum vinstri manna í þessum málaflokki þótt formaður Heimdallar mundi stilla sig um að leggja þeim lið.