Miðvikudagur 27. júlí 2005

208. tbl. 9. árg.

E

Hafa bófarnir unnið þegar þeir hafa neytt okkur til þess að byggja yfir sig?

ftir hryðjuverkin í Lundúnum á dögunum hófst að nýju umræða sem jafnan fer í gang á Vesturlöndum við slíka atburði. Umræðan um það hvað eigi að gera til að verjast slíkum illverkum og þá ekki síður hvað megi ekki gera í því skyni. Það má jafnan ganga að því vísu í slíkri umræðu að áberandi verði það sjónarmið að nú verði Vesturlönd að gæta þess að herða ekki öryggisráðstafanir sínar, því þá hafi „hryðjuverkamennirnir í raun sigrað“; að „hið opna og frjálsa þjóðfélag okkar“ megi ekki verða eitt fórnarlamba þeirra. Þetta eru virðingarverð sjónarmið og sjálfsagt að vera tortrygginn á þá nauðsyn sem sögð er vera á þeim öryggisráðstöfunum sem lagðar eru til. Við löggæslu eins og aðra starfsemi á vegum hins opinbera verða til sérhagsmunir. Starfsmenn löggæslu jafnt sem annarra opinberra sviða hafa auðvitað hagsmuni af því að þenja starfsemina út eða í það minnsta að ekki verði dregið úr henni. Við slíkar aðstæður er alltaf hætt við að gert sér meira úr þeirri ógn eða vandamáli sem starfseminni er ætlað af fást við en efni standa til.

Það breytir hins vegar ekki því að það kann að vera nauðsynlegt að huga að öryggi borgaranna. Og það er hreint út sagt fráleitt að ekki megi miða þær öryggisráðstafanir við þá ógn sem hverju sinni er talin steðja að. Hér má taka dæmi. Þegar hryðjuverkamenn tóku að beina spjótum sínum að flugvélum, hvort sem var til þess að granda vélum eða ræna þeim, þá voru öryggisráðstafanir á flugvöllum vitanlega auknar. Farþegar þurfa að ganga í gegnum vopnaleit, svo dæmi sé tekið, og sennilega telja flestir það á sig leggjandi í skiptum fyrir sæmilegar líkur á því að vélin verði þá vopnlaus. Mönnum dettur ekki í hug að halda því fram að ef leitað er á farþegum að þá hafi flugræningjarnir unnið. Flestir sætta sig við það að flugrán kölluðu á auknar öryggisráðstafanir. En menn reyna auðvitað að ganga ekki of langt. Meginatriðið er að gera það sem þarf að gera, en ekki meira. Að minnka áhættuna niður í eitthvað sem fólk telur sig geta sætt sig við. Vitaskuld gengur ekki að hryðjuverk verði að óútfylltum víxli fyrir lögregluyfirvöld til þess að fá samþykkt hvaða eftirlit og varnir sem er. En hinar öfgarnar, að segja að ekki megi laga öryggisráðstafanir að veruleikanum, þær ganga auðvitað ekki heldur. Heilbrigð skynsemi verður að ráða, bæði um það sem er gert sem og um það sem verður látið ógert.

Annað sem menn tala mikið um, er að eftirlit verði að beinast að öllum hópum jafnt. Það er fráleitt sjónarmið. Það er ekkert að því að eftirlit beinist fremur að þeim hópum sem eru líklegir til að fremja hryðjuverk en þeim sem eru það ekki. Ef að marktæk gögn sýna að tiltekinn hópur er líklegri til þess en annar, þá er ekkert að því að frekar sé horft til hans en annarra. Ef nýnasistar taka til dæmis umvörpum upp á því að sprengja hús og kveikja í bílum, þá er ekki hægt að ætlast til þess að fyrir hvern ungan sköllóttan Þjóðverja með flúraðan hakakross á upphandleggnum sem lögreglan leitar á, að þá yfirheyri hún einn rabbína. Ef að kúklúxklan-menn taka upp á samskonar ofbeldi, þá væri það galinn maður sem ætlaðist til þess að lögreglan beindi sömu athygli að svörtum mönnum og hvítum. Rétttrúnaðurinn á að víkja í þessum málum eins og öðrum. Hinu má svo ekki gleyma, að það eru einstaklingar sem fremja þá glæpi sem hér er rætt um, og hópsekt manna sem ekkert hafa annað unnið til sakar en að vera af einhverjum kynþætti, þjóðerni, útliti eða trú eða skera sig á einhvern slíkan hátt frá öðrum, kemur auðvitað ekki til greina.