Þriðjudagur 26. júlí 2005

207. tbl. 9. árg.

Ísíðustu viku sendu sýslumenn og tollstjórinn í Reykjavík vinnuveitendum upplýsingar um hvað launþegar þeirra skulda skattinum vegna ársins 2004 eða það sem kallað er „krafa vegna opinberra gjalda“. Launþegarnir sjálfir fá þessar upplýsingar ekki fyrr en á morgun. Samkvæmt lögum skal launagreiðandi innheimta þessa kröfu um opinber gjöld. Vanræki hann það ber hann sjálfskuldarábyrgð á greiðslu þessara gjalda, sem eru honum algerlega óviðkomandi. Það er einkennilegt að blanda launagreiðendum með þessum hætti í fortíðarvanda launþega sinna. Skuldir einstaklings við hið opinbera, sem geta verið bæði tekjuskattur, meðlag og fleira, koma vinnuveitandi hans ekki frekar við að ógreiddar afborganir af bílaláni eða önnur fjármál launþegans. Vinnuveitendur kæra sig sjálfsagt heldur ekki um að vera settir með þessum hætti inn í fjármál launþega, auk þess sem þessari kröfu hins opinbera fylgir nokkuð umstang og þar með kostnaður.

En launþegar búa ekki við það eitt að vinnuveitendur þeirra séu upplýstir um hvað þeir skulda skattinum heldur verður haldin opinber sýning á áætluðum tekjum þeirra á síðasta ári. Í mörgum tilvikum er um ranga áætlun og álagningu að ræða og endanleg álagning liggur ekki fyrir fyrr en á næsta ári. Þótt upplýsingarnar sem þar koma fram séu réttari en í álagningarskránni er áhuginn á henni miklu minni.Það eru skattstjórar vítt og breitt um landið sem halda þessa sýningu og auglýsa hana sérstaklega þessa dagana með fréttatilkynningu. Þeir hafa jafnvel lagst svo lágt í seinni tíð að fóðra fjölmiðla á svokölluðum „hákarlalistum“ en það eru listar yfir þá 10 einstaklinga sem skattstjórar áætla að séu með hæstu tekjurnar í sínu umdæmi. Hvers vegna þetta er gert og hvaða heimild starfsmenn skattstjóra telja sig hafa haft til þess arna er með öllu óljóst. Aðspurðir viðurkenna einhverjir þeirra að fyrir þessari atlögu þeirra að einkalífi ákveðinna manna hafi þeir enga sérstaka heimild en ekkert banni þeim þetta heldur. Í 117. grein skattalaganna segir þó:

Skattstjórum, umboðsmönnum skattstjóra, ríkisskattstjóra, skattrannsóknarstjóra ríkisins og yfirskattanefnd er bannað, að viðlagðri ábyrgð eftir ákvæðum almennra hegningarlaga um brot í opinberu starfi, að skýra óviðkomandi mönnum frá því er þeir komast að í sýslan sinni um tekjur og efnahag skattaðila

Það er ákveðin þversögn í því að lög sem mæla fyrir um þagmælsku starfsmanna skattyfirvalda skuli jafnframt mæla fyrir um að niðurstaðan af öllu sem þeir sjá og heyra í starfi sínu skuli gefin út í sérstökum skrám og öllum heimilt hnýsast þar í og svala forvitni sinni um hagi annarra.