Föstudagur 22. júlí 2005

203. tbl. 9. árg.

Það þarf víst að brúa bilið segir Morgunblaðið. Og þegar Morgunblaðið segir að brúa þurfi bil þá er það hið opinbera sem á að gera það. Það er sama hvort það er ímyndað launabil á milli kynjanna, raunverulegt lífkjarabil á milli þróunarlanda og Vesturlanda, bilið milli þess sem sérhagsmunahóparnir vilja frá skattgreiðendum og það sem ríkisvaldið úthlutar þeim og bilið sem verður þegar forstöðumenn ríkisstofnana eyða meiru en þeim er skammtað í fjárlögum.

Í Staksteinum Morgunblaðsins í gær er veist harkalega að Þorbjörgu Helgu Vigfúsdóttur fyrir að hafa leyft sér að benda á þá einföldu staðreynd í grein í Morgunblaðinu í fyrradag að verði leikskólar borgarinnar gerðir „gjaldfrjálsir“ eigi dagmæður sér ekki viðreisnar von. Eða svo vitnað sé í grein Þorbjargar:

Með því að gera leikskólann gjaldfrjálsan munu langflestir foreldrar neyðast til að velja leikskóla umfram dagmæðrakerfið. Þetta þýðir að fótunum hefur verið kippt undan rekstargrundvelli dagmæðra.

Þorbjörg bendir réttilega á að með þessari atlögu R-listans að dagmæðrum séu foreldrar sviptir valfrelsi og það jafnræði sem var á milli dagmæðra og leikskóla hverfi. Morgunblaðið er ekki hrifið af þessum málflutningi.

Þetta er í meira lagi einkennileg niðurstaða að með því að leikskólinn verði gjaldfrjáls sé aukið á ójafnrétti – er ekki fremur aukið á jafnrétti foreldra með því að allir geti sent börn sín í leikskóla fremur en til dagforeldris?

Hvernig getur ritstjórn Morgunblaðsins boðið lesendum sínum upp á þetta? Heldur ritstjórnin að leikskólaplássum fjölgi allt í einu við það að leikskólinn verði „gjaldfrjáls“? Ritstjórn Morgunblaðsins virðist halda að með gjaldfrjálsum leikskóla sé átt við að rekstrarkostnaður skólans hverfi á dularfullan hátt og þannig verði hægt að bjóða fleiri pláss. Þeir sem átta sig hins vegar á því að rekstur sveitarfélaga er fjármagnaður með skattheimtu af almenningi vita að verði útsvarið ekki hækkað enn eina ferðina mun gjaldfrjáls leikskóli einfaldlega þýða að færri börn komast að á leikskóla og dagmæðrum verður fórnað í leiðinni. Og Morgunblaðið grætur ekki að dagmæðrum, þessu litla einkaframtaki sem enn er til staðar við barnagæslu í Reykjavík, verði varpað fyrir róða.

Það á ekki að tala um dagforeldrakerfið sem eitthvað annað en það er. Það er fyrst og fremst kostur – og góður kostur – fyrir þá sem þurfa að brúa bilið frá fæðingarorlofi og fram að leikskólavist.

Já fussumsvei að færiband hins opinbera sé ekki samfellt frá vöggu til grafar. Þarna sér ritstjórn Morgunblaðsins bil sem skattgreiðendur hljóti að brúa. Ritstjórnin segir að dagforeldrar séu vissulega ágætir fyrir sinn hatt en í leikskólanum sé hins vegar hið „faglega starf með menntuðum leikskólakennurum, sem unnið er með börnunum í leikskólunum og er í raun upphafið að skólagöngu þeirra.“ Þeir sem setja börnin sín ekki á leikskóla hins opinbera eru nú ekki aðeins ófaglegir að mati Morgunblaðsins heldur virðist sem þeir foreldrar sem nýta sér þjónustu dagmæðra eða gæta sjálfir eins árs gamalla barna sinna séu að neita börnunum um menntun og skólagöngu. Lítilsvirðingin sem Morgunblaðið sýnir dagmæðrum og foreldrum sem vilja fara aðrar leiðir en blaðið telur „faglegar“ er í samræmi við önnur viðhorf blaðsins gagnvart þeim sem beygja sig ekki undir þjóðfélagsverkfræði blaðsins.

Eins og svo oft þegar Morgunblaðið tekur málstað sósíalismans er það gert í nafni jafnréttismála. Það á við um þessa Staksteina sem lýkur á þeim orðum að gjaldfrjáls leikskóli sé „mikilvægt jafnréttismál“. Blaðið er með sífelldan áróður fyrir því hvernig aðrir eigi að haga sér í jafnréttismálum og vill beita ríkisvaldinu miskunnarlaust til að ná fram markmiðum sínum í þeim efnum. Sjálft er blaðið undanþegið öllum jafnréttiskröfunum sem það gerir til annarra. Í hópi framkvæmdastjóra, ritstjóra, aðstoðarritstjóra og fréttaritstjóra blaðsins er engin kona. Í stjórn og varastjórn blaðsins situr ein kona í átta manna hópi.