Laugardagur 23. júlí 2005

204. tbl. 9. árg.

Undanfarna daga hefur talsvert verið rætt opinberlega um ráðningu næsta útvarpsstjóra Ríkisútvarpsins. Tvær greinar um það efni, sem birtust í blöðunum í gær, vöktu athygli Vefþjóðviljans. Í Blaðinu er birt grein Ögmundar Jónassonar alþingismanns vinstrigrænna, þar sem hann fjallar um þá áríðandi spurningu hvern, eða hverja, hann vilji fá sem útvarpsstjóra. Ekki verður reyndar sagt að svarið við henni komi á óvart eða verði til sérstakrar leiðbeiningar, því Ögmundur stingur upp á að ráðinn verði maður sem „sé góðum kostum búinn, bæði til þess að skilja lýðræðislegt hlutverk sitt og þeirrar stofnunar sem hann starfar við og til þess að virkja samstarfsmenn sína til góðra verka“. Ögmundur tekur sérstaklega fram, að stjórnmálaskoðanir þessa manns skipti ekki máli að öðru leyti en því að hann verði að vilja að Ríkisútvarpið verði „í almannaeign og undir almannastjórn“. Að vísu útskýrir Ögmundur ekki hvers vegna nauðsynlegt sé að útvarpsstjóranum þyki þetta, því ákvarðanir um slík mál verða auðvitað ekki teknar af honum heldur alþingi, og útvarpsstjóri hlýtur eins og aðrir að starfa eftir þeim lögum sem gilda hverju sinni.

Í grein sinni fjallar Ögmundur um þá tvo útvarpsstjóra sem hann hafði kynni af sem starfsmaður Ríkisútvarpsins, þá Andrés Björnsson og Markús Örn Antonsson. Sérstaklega fer hann fögrum orðum um Andrés, störf hans, menntun og framsýni, og ekki skal Vefþjóðviljinn standa í að fara að draga það í efa. Ögmundur ætti líka að vita nokkuð um málið, enda er hann tengdasonur Andrésar þó hann stilli sig auðvitað um að geta þess í greininni. En Andrés Björnsson var hæfileikamaður eins og margir muna, og orðhagari en gerðist og gekk. Honum lynti misvel við útvarpsráð og á þeim árum sem það sat undir forystu Njarðar P. Njarðvíkur formanns og Ólafs Ragnars Grímssonar ritara varð frægt þegar Andrés orti og var sagt að það hefði hann gert á útvarpsráðsfundi:

Leiðist mér og líkar ei
að lifa á meðal varga.
Aftur geng ég, er ég dey,
og ætla að drepa marga.

Gekk óánægja Andrésar, sem þó mun hafa þótt hinn prúðasti maður, svo langt að hann hætti að mæta á fundi ráðsins, en áðurnefndur ritari mun þá hafa brugðið á það ráð að láta jafnan senda útvarpsstjóra fundargerðirnar heim og láta hann kvitta á þær þar. Um Markús Örn Antonsson segir Ögmundur hins vegar, að sjálfur hafi hann, eins og margir aðrir starfsmenn Ríkisútvarpsins, haft horn í síðu Markúsar þegar hann tók við útvarpsstjórastarfinu, enda hefði Markús gegnt trúnaðarstörfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn og sumum býsna umdeildum. Markús hafi hins vegar fljótt unnið traust Ögmundar og hinna þar sem hann hefði, öfugt við það sem þeir höfðu haldið, verið „talsmaður Ríkisútvarpsins af heilindum“. Nú geta aðrir svo velt því fyrir sér hvaða sögu þessi orð Ögmundar segja, og hvort af þeim megi kannski ráða svolítið um andrúmsloftið á Ríkisútvarpinu eða þá stöðu sem þar hefur lengi verið, að æðsti yfirmaður er sjálfstæðismaður, en þeir sem komast að hljóðnemunum eru það hreint ekki. En útvarpsstjórinn situr á fimmtuhæðinni og gefur þeim öllum fjarvistarsönnun.

Í leiðara Fréttablaðsins í gær er einnig fjallað um væntanlega útvarpsstjóraráðningu og verður leiðarinn ekki skilinn öðruvísi en svo að þar sé lýst stuðningi við Pál Magnússon fyrrverandi fréttastjóra Stöðvar 2. Og ekkert við þau sjónarmið að athuga enda Páll vafalaust hæfur í starfið eins og fleiri umsækjendur. En annað atriði í leiðaranum er umhugsunarverðara og þá frá almennu sjónarmiði. Í leiðaranum er fundið að því, að ekki sé tekið skýrt fram í auglýsingu um starfið „hvaða kröfur ráðuneytið gerir til umsækjenda“. Undanfarið hefur af og til verið sagt, þegar skipað er í opinber embætti, að það hefði átt að taka fram í auglýsingu hvaða atriði myndu ráða úrslitum; eftir hvaða eiginleikum væri verið að sækjast. En er þetta skynsamleg leið við mannaráðningar? Er ekki þvert á móti réttara að bíða eftir umsóknum og þegar þær liggja fyrir, að þá eigi sá sem velur í starfið að gera upp við sig hvaða umfram-eiginleiki almennra hæfnisskilyrða eigi að ráða mestu? Að vísu væri hin aðferðin, sú að tilgreina tiltekna eiginleika fyrirfram, hentugri ef menn vildu klæðskerasníða starfið að tilteknum væntanlegum umsækjanda, en það er auðvitað ekki það sem menn vilja.

Tökum dæmi. Segjum að verið sé að velja nýjan sóknarprest einhvers staðar. Nokkrir prestar sækja um, og þegar umsóknirnar eru skoðaðar þá er auðvitað fyrst skoðað hverjir uppfylla hin almennu skilyrði, sem í því tilfelli myndi vera embættispróf í guðfræði og sennilega lágmarksstarfsþjálfun. En þá kemur að hinu eiginlega vali. Allir umsækjendur hafa eitthvað við sig sem hinir hafa ekki. Einn hefur langa starfsreynslu. Annar hefur reynst afar vel í að skipuleggja og drífa barna- og unglingastarf áfram. Þriðji er viðurkenndur sem laginn í sálgæslu. Predikanir hins fjórða eru frægar. Þeir sem velja í starfið, þeir þurfa að gera upp við sig hver þessara manna muni reynast best. Kannski komast þeir að þeirri niðurstöðu, að fyrst þessi úrvalspredikari sé í boði, og af því hann sé líka sæmilegur á öðrum sviðum, þá sé rétt að velja hann. Það væri auðvitað málefnalegt sjónarmið. En hefði þá átt að segja í auglýsingu að það væri verið að leita að predikara? Og hvað ef þessi úrvalspredikari hefði ekki sótt um? Hefði þá átt að velja á milli hinna – þess reynda, æskulýðsleiðtogans og sálgæslumannsins – eftir því hvernig predikarar þeir væru? Og ef svo einhver annar hefði sótt um, ekki slíkur úrvalspredikari sem hinn heldur bara svona aðeins yfir meðallagi, hefðu menn þá ekki neyðst til að taka hann og hafna hinum, fyrst búið var að nefna predikunarfærni sérstaklega í auglýsingunni?

Það kann að hljóma faglega og vel að nefna í auglýsingu einhvern eiginleika sem verið sé að sækjast eftir. Það kann að vera hægt að láta það líta út eins og fyrirslátt þegar eitthvert slíkt atriði ræður úrslitum eftir á, ef það hefur ekki verið nefnt í auglýsingu. En það verður bara að hafa það. Frá almennu sjónarmiði er skynsamlegast að gera í auglýsingu þær almennu kröfur sem ekki verður vikið frá, en þegar að umsóknir liggja fyrir, að horfa þá til þess hvaða umfram-eiginleiki á að ráða valinu.